Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 mars 2005

Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóriHeitast í umræðunni
Í dag er birt á fréttavefnum Vísi mjög vönduð umfjöllun um stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu Bragadóttur bæjarstjóra í Garðabæ, í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Í umfjölluninni kemur fram að þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi muni þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum. Er það ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar. Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar.

Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Var mjög gaman að heyra Ásdísi kynna þessi mál vel á menntamálaráðstefnu okkar SUS-ara í Hafnarfirði í febrúar 2004. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Breytt rekstrarform - betri menntun. Erindi á ráðstefnunni fluttu auk Ásdísar þau: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Árni Pétur Jónsson þáv. formaður skólanefndar Ísaksskóla, og Sigríður Ásthildur Andersen lögfræðingur Verslunarráðs Íslands. Var virkilega fróðlegt að fræðast um málin, enda vel haldið á málaflokknum í valdatíð okkar sjálfstæðismanna. Öll erindin á ráðstefnunni voru góð, verð ég þó að viðurkenna að Ásdís Halla vakti mesta athygli enda mætti hún í Thatcher bol okkar SUS-ara, eins og meðfylgjandi mynd frá þessum degi sýnir. Var við hæfi að halda þessa ráðstefnu í Hafnarfirðinum. Fyrir nokkrum árum horfði meirihlutinn þar undir forystu Sjálfstæðisflokksins til framtíðar og beitti sér fyrir athyglisverðum nýjungum og framförum á því sviði í anda okkar sjálfstæðismanna. Breyting varð á þeirri framþróun eftir seinustu sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði, þar sem Samfylkingin drap allt frumkvæði og hugmyndir um breytt rekstrarform í skólamálum. Sem er svo skondið miðað við tillögur svokallaðrar framtíðarnefndar Samfylkingarinnar. Enda hefur heyrst að Lúðvík í Hafnarfirði sé ekki alltof sæll með þær. En Ásdís Halla á heiður skilið fyrir verk sín og forystu í Garðabæ í málaflokknum. Hvet alla til að lesa fréttaskýringuna um þessi mál.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherraÍ gærkvöldi stóð Sjálfstæðisfélag Akureyrar fyrir opnum fundi um samgöngumál á Hótel KEA. Þar flutti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, framsögu. Fjallaði hann um það sem væri undir verksviði samgönguráðuneytisins og hvað gerst hefði í ráðherratíð sinni. Eftir framsögu ráðherra báru fundarmenn fram spurningar. Eins og við mátti búast bar þar þrennt hæst: málefni Héðinsfjarðarganga, Norðurvegs og Vaðlaheiðarganga. Héðinsfjarðargöng verða brátt boðin út og vinna við þau hefst á næsta ári, eins og lofað var. Þetta kom skýrt fram í máli ráðherra. Vaðlaheiðargöng eru svo framundan á komandi árum. Ekki síður mikilvægur er hálendisvegur, sem stytta myndi leiðina til Reykjavíkur um rúmlega 80 kílómetra. Ómar Ragnarsson fréttamaður, kynnti tvo aðra spennandi kosti til sögunnar hvað varðar styttingu leiðarinnar suður í fróðlegri frétt á miðvikudagskvöldið. Stytting á borð við þá sem um er að ræða mun skipta sköpum varðandi vöxt og viðgang Akureyrar og Eyjafjarðar á komandi árum og skiptir okkur hér í Norðausturkjördæmi öllu mjög miklu máli.

Mikilvægt er að fá þennan mikilvæga samgöngukost í gegn, vinna að styttingu á leiðinni suður. Svo má auðvitað benda á að slíkur vegur mun auðvitað ekki einvörðungu nýtast Akureyringum og Eyfirðingum. Skagafjörður, Norð-Austurland og Austurland munu njóta góðs af þessum vegi. Til dæmis mun þetta verða aðalvegur Austfirðinga suður á bóginn, enda leiðir þessi stytting til þess að norðurleiðin mun verða umtalsvert styttri en suðurleiðin fyrir fólk sem býr á Austfjörðum. Þetta er því mjög skýrt. Þessi skilaboð fékk ráðherrann beint í æð svo um munaði. Það er ljóst að afgerandi stuðningur er hér við þá hugmynd. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tók til máls og flutti ítarlega ræðu á fundinum. Kom fram í máli hans hvað við teljum mikilvægast að gera í samgöngumálum og leggjum við mikla áherslu á Norðurveg. Kom fram í máli bæjarstjóra að hann vilji að bærinn taki að sér rekstur Akureyrarflugvallar. Samgönguráðherra útilokaði ekki að gengið yrði til samninga við Akureyringa. Ráðherrann vill kanna möguleika á að lengja flugvöllinn um 500 metra. Bæjarstjóri sagðist vilja nota efnið sem fellur til úr væntanlegum Vaðlaheiðargöngum í tengslum við lengingu vallarins. Var þetta góður fundur og kom margt gott þar fram og ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða málin við ráðherrann.

Punktar dagsins
Reykjavíkurflugvöllur

Undirbúningshópur sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, skipaði til að fjalla um hvort mögulegt væri að koma á laggirnar samgöngumiðstöð á Vatnsmýrarsvæði í Reykjavík, hefur nú formlega skilað niðurstöðum sínum. Mælir starfshópurinn með því að ráðist verði í byggingu slíkrar samgöngumiðstöðvar sem muni þjóna bæði flugi og langferðabifreiðum með góðum tengingum við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslunni eru nefndir tveir staðir í Vatnsmýrinni sem komi til greina undir miðstöðina, annarsvegar þar sem Hótel Loftleiðir er nú staðsett og hinsvegar norðan við hótelið. Er ætlað að um einkaframkvæmd verði að ræða. Telur hópurinn engan vafa á að áhugi fjárfesta muni verða fyrir hendi, enda um að ræða byggingu sem mikill fjöldi fólks muni eiga leið um. Í skýrslu hópsins segir, að ákveði yfirvöld að byggð verði samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni sé lagt til að undirbúningur hennar verði sameiginlegt verkefni ríkis og borgarinnar. Ánægjulegt er að fara yfir niðurstöður starfshópsins. Þær styrkja undirstöður flugvallar í Vatnsmýrinni og eru því mjög góðar niðurstöður fyrir okkur á landsbyggðinni. Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum tel ég flugvöllinn lykilatriði í samgöngumálum landsmanna, meginæð okkar landsbyggðarfólks til höfuðborgarsvæðisins, svo ég lýsi yfir ánægju minni með niðurstöðurnar og hvet fólk til að líta á þær.

Prósenta

Eins og fram kom hér á vefnum í gær voru niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, okkur í Sjálfstæðisflokknum mikið gleðiefni. Flokkurinn mældist þar með tæplega 40% fylgi. Þegar rýnt er í könnunina kemur í ljós mjög merkileg niðurstaða að auki. Flokkurinn hefur langmest fylgi allra flokka á meðal ungs fólks. Í aldurshópnum 18-24 ára myndu 39,2% kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga nú en einungis 22,1% myndu kjósa VG sem er með næstmesta fylgið í þessum aldurshóp í könnuninni. Samkvæmt sömu könnun hyggjast 44% svarenda í aldurshópnum 25-34 kjósa Sjálfstæðisflokkinn en 32,4 segjast myndu kjósa Samfylkinguna sem kom næst á eftir Sjálfstæðisflokknum í aldurshópnum. Segja má að þessar tölur segi að við í SUS séum að vinna gott starf og ungt fólk sé að hallast meira í átt til flokksins og sjálfstæðisstefnunnar. Það er auðvitað okkur mjög mikið ánægjuefni. Á miðju kjörtímabili og það eftir 14 ára samfellda setu flokksins í ríkisstjórn er slík mæling og staða okkur í ungliðahreyfingunni mikill styrkleiki og kraftur til komandi verkefna á sviði stjórnmálanna. Á því leikur enginn vafi.

Martha Stewart

Bandaríska lífsstílsfrömuðinum Mörthu Stewart var sleppt úr fangelsi í dag. Hún hefur verið í varðhaldi í fangelsi í V-Virginíu frá byrjun októbermánaðar, vegna dóms sem hún hlaut vegna ólöglegra innherjaviðskipta og hlutabréfasvindls tengt því. Mun hún dvelja í stofufangelsi á heimili sínu í Bedford við New York næstu fimm mánuðina. Ákvað hún að afplána frekar dóminn en áfrýja. Bæði töldu lögmenn hennar ólíklegt að hún fengi vægari refsingu við dóm eftir áfrýjun og ennfremur vildi hún klára málið af, en áfrýjunarferlið hefði óneitanlega tekið langan tíma. Munu yfirvöld fylgjast með ferðum hennar þann tíma sem eftir af refsingunni er, með því að hún ber rafrænt ökklaband svo fylgjast megi með ferðum hennar og hvar hún sé stödd. Hún fer að vinna í þessum mánuði formlega, en mjög takmarkað. Hefur hún leyfi til að dveljast 48 tíma á viku utan heimilisins. Ef marka má opinbera framkomu hennar í dag hefur hún lítið breyst við vistina á bakvið rimlana, enda dvaldist hún á svokölluðu fyrirmyndarfangelsi, en ekki í almennu fangelsi.

Rafiðnaðarsambandið

Svo virðist vera sem að verkalýðshreyfingin sé farin að íhuga loks að stokka upp formið á 1. maí hátíðarhöldunum. Nú hefur miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands samþykkt ályktun þess efnis að tímabært sé að verkalýðshreyfingin endurskoði hvernig staðið sé að dagskránni vegna verkalýðsdagsins. Telur miðstjórnin að kröfugangan sé barn síns tíma og fari fjarri að hún standi undir væntingum sem hinn almenni félagsmaður geri í nútímanum. Vill miðstjórn RSÍ að farið verði til nútímans með hátíðarhöldin og telja eldra fyrirkomulag ekki verkalýðshreyfingunni til framdráttar. Leggur miðstjórnin til að í stað núverandi hátíðarhalda sameinist stéttarfélögin um að halda fjölmenna fjölskylduhátíð í Laugardalnum. Vill ennfremur RSÍ að verkalýðshreyfingin sameinist um ásamt Samtökum atvinnulífsins að 1. maí verði aflagður sem fastur frídagur þann dag. Vill RSÍ að fríið verði fastsett á fyrsta föstudag í maí í stað þess fyrirkomulags sem nú er. Róttækar tillögur og góðar. Verður fróðlegt hvað ASÍ segir við þessum breytingarhugmyndum.

Saga dagsins
1213 Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmaður á Eyri (Hrafnseyri) við Arnarfjörð, var veginn, 47 ára að aldri. Hrafn var bæði annálaðasti læknir hér á þjóðveldisöld og einn af áhrifamestu mönnum landsins
1937 Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Frank Capra hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í Mr. Deeds goes to Town - þetta var annar leikstjóraóskar Capra, en hann vann þrjá á glæsilegum ferli
1971 Uppstoppaður geirfugl, sá síðasti í heiminum, var sleginn Íslendingum á uppboði í London, en safnað hafði verið fyrir honum um land allt fyrir uppboðið. Fuglinn er nú á Náttúrufræðistofnuninni
1975 Breski leikarinn og leikstjórinn Charles Chaplin var aðlaður af Elísabetu Englandsdrottningu - Chaplin var þá loks heiðraður eftir að hafa verið sniðgenginn til fjölda ára. Hann lést á jóladag 1977
1987 Happaþrenna Happdrættis Háskólans kom á markað - fyrsta skafmiðahappdrættið hérlendis

Snjallyrðið
Communism doesn't work because people like to own stuff.
Frank Zappa tónlistarmaður (1940-1993)