Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 febrúar 2005

ÓskarinnLaugardagspælingin
Óskarsverðlaunin verða afhent í 77. skipti í Los Angeles á morgun. Óskarinn er helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman. Ég ætla á þessum laugardegi að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég vona að aðrir hafi gaman af.

Kvikmynd ársins
The Aviator
Finding Neverland
Million Dollar Baby
Ray
Sideways

Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Ray er hrífandi mynd, sem skartar frábærum leik og undurfagurri tónlist meistara Ray Charles, sem var einn helsti tónlistarsnillingur síðustu aldar. Finding Neverland er grípandi og þétt mynd sem hrífur kvikmyndaáhugafólk upp úr skónum. Sideways er fágætur gullmoli sem jafnast á við gamalt og gott rauðvín, verður sífellt betri og er algjörlega ómótstæðileg. Million Dollar Baby er frábær að öllu leyti, vel leikin mynd og í senn bæði áhrifamikil og einkar átakanleg. The Aviator er svipmikil saga hins litríka Howards Hughes sem átti stór og háleit markmið og lét þau flest rætast með undraverðum hætti og náði mögnuðum hápunkti á ferli sínum, en féll svo í dimmustu dali hugans. Hér er slagurinn á milli Million Dollar Baby og The Aviator, erfitt um að spá hvor hljóti hnossið. Ég tel að The Aviator vinni verðlaunin.

Leikstjóri ársins
Clint Eastwood - Million Dollar Baby
Taylor Hackford - Ray
Mike Leigh - Vera Drake
Alexander Payne - Sideways
Martin Scorsese - The Aviator

Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2004. Clint Eastwood er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin, fyrir Unforgiven, árið 1992, og leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins, rétt eins og í fyrra þegar hann var tilnefndur fyrir Mystic River. Mike Leigh á skilið tilnefningu fyrir frábær verk sín, en Vera Drake er svipmikil mynd sem hefur hitt beint í mark. Sideways er eiginlega sú mynd sem ég heillaðist mest af í hópi hinna tilnefndu þetta árið en möguleikar hennar og Payne eru litlir þegar kemur að meistaraverkum tveggja risa í leikstjórn. Það verða þeir Eastwood og meistari Martin Scorsese sem berjast um hnossið hér. Scorsese hlýtur hér fimmtu leikstjóratilnefningu sína. Hann hefur aldrei hlotið óskarinn. Er reyndar með ólíkindum að þessi snillingur hafi ekki hlotið gullna kallinn fyrir myndir eins og Raging Bull og Goodfellas. Það er fyrir löngu kominn tími til að heiðra hann og framlag hans til leiklistar í sögu kvikmyndanna. Ég vona að hann fái verðlaunin, en Eastwood er sterkur og gæti tekið þetta. Ég hallast að Scorsese, hans tími er að mínu mati fyrir löngu kominn.

Leikari í aðalhlutverki
Don Cheadle - Hotel Rwanda
Johnny Depp - Finding Neverland
Leonardo DiCaprio - The Aviator
Clint Eastwood - Million Dollar Baby
Jamie Foxx - Ray

Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir fyrir leik í aðalhlutverki, stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Enginn þeirra hefur hlotið verðlaunin áður. Clint Eastwood gæti komið á óvart og hlotið óskar fyrir litríkan leik í kvikmynd sinni, Million Dollar Baby, þar sem hann fór á kostum í hlutverki boxþjálfarans Frankie Dunn. Clint hefur sjaldan verið betri og gæti hlotið fyrsta óskar sinn fyrir leik. Leonardo DiCaprio var litríkur í hlutverki hins svipmikla Howards Hughes og á möguleika á að fara heim með gyllta styttu. Don Cheadle vinnur mikinn leiksigur í Hotel Rwanda, eftirminnilegri kvikmynd um sögulega atburði. Johnny Depp átti stórleik í Finding Neverland og færði litríkan karakter á hvíta tjaldið. En langlíklegast er þó að Jamie Foxx hljóti óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles. Foxx verður hreinlega Ray í túlkun sinni og heillar áhorfendur, ja að minnsta kosti náði hann að heilla mig með leik sínum. Ég spái því að Jamie Foxx vinni óskarinn.

Leikkona í aðalhlutverki
Annette Bening - Being Julia
Catalina Sandino Moreno - Maria Full of Grace
Imelda Staunton - Vera Drake
Hilary Swank - Million Dollar Baby
Kate Winslet - Eternal Sunshine of the Spotless Mind

Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Aðeins Hilary Swank hefur hlotið áður óskarinn, hún hlaut verðlaunin 1999 fyrir Boys don´t Cry. Nú, rétt eins og þá, mætir hún í flokki tilnefndra, leikkonunni Annette Bening. Bening fór á kostum í American Beauty og tapaði þá fyrir Swank. Að þessu sinni er hópurinn ansi jafn. Það geislar af Annette Bening í hlutverki Juliu Lambert, glæsileg leikframmistaða. Kate Winslet var stórfengleg í Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Imelda Staunton vinnur leiksigur ferils síns í Veru Drake. Hin óþekkta Catalina Sandino Moreno er sögð fara á kostum í Maria Full of Grace, sem er hennar fyrsta kvikmynd. Hilary Swank er frábær í hlutverki Maggie í Million Dollar Baby og vinnur hug og hjarta kvikmyndaaðdáenda. Þetta er slagur milli Winslet, Bening og Swank. Allar geta þær unnið. Það er spurning hvort akademían veitir Swank sigur, svo skömmu eftir þann seinasta í sama flokki. Í raun er tími Winslet og Bening kominn. Einhvernveginn hallast ég þó að því að Swank muni fá verðlaunin, enda mjög sterk í sínu hlutverki.

Leikari í aukahlutverki
Alan Alda - The Aviator
Thomas Haden Church - Sideways
Jamie Foxx - Collateral
Morgan Freeman - Million Dollar Baby
Clive Owen - Closer

Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Allir verðskulda þeir heiður fyrir sitt verk. Jamie Foxx hlýtur sína aðra tilnefningu sama árið, aðeins Al Pacino hefur náð slíku afreki. Foxx var mjög öflugur í Collateral og heillaði mig með leik sínum. Clive Owen er stórfenglegur í hlutverki Larry í Closer og hitti beint í mark með túlkun sinni. Thomas Haden Church var alveg frábær sem Jack í Sideways og fékk allavega mig til að hlæja, mögnuð frammistaða. Alan Alda hefur oft verið sniðgenginn, t.d. var skandall að hann hlaut ekki tilnefningu fyrir leik sinn í Allen-myndinni Crimes and Misdemeanors árið 1989. Túlkun hans þá á hinum hrokafulla framleiðanda, Lester, var fyrsta flokks. Hann er svipmikill leikari, en hefur oft verið betri en í The Aviator, en er flottur sem þingmaðurinn Brewster. Eftir stendur leiksnillingurinn Morgan Freeman. Hann á að baki glæsilegan feril og hefur átt margar svipmiklar leikframmistöður. Ég spái því að hann vinni verðlaunin fyrir túlkun sína á Eddie í Million Dollar Baby. Það er svo sannarlega kominn tími til að þessi mikli meistari fái verðlaunin.

Leikkona í aukahlutverki
Cate Blanchett - The Aviator
Laura Linney - Kinsey
Virginia Madsen - Sideways
Sophie Okonedo - Hotel Rwanda
Natalie Portman - Closer

Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum myndum. Tilnefning Sophie Okonedo kom nokkuð á óvart, en hún mun vera mjög eftirminnileg í Hotel Rwanda. Virginia Madsen heillaði mig með tilþrifamiklum leik sínum í Sideways og skapaði karakter sem skiptir okkur máli. Virginia hefur aldrei verið betri á gloppóttum ferli sínum. Laura Linney er glæsileg leikkona og oft hitt í mark, hún gerir það enn einu sinni, hér fyrir túlkun sína á Clöru í Kinsey. Natalie Portman er vægast sagt stórfengleg í hlutverki Alice í Closer, mynd sem verður einhvernveginn hennar að nær öllu leyti. Stórkostleg túlkun í svipmikilli mynd. Cate Blanchett, sem átti að hljóta óskarinn 1998 fyrir Elizabeth, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og bregður sér í hlutverk óskarsverðlaunaleikkonunnar Katharine Hepburn, eftirminnilegustu og svipmestu leikkonu kvikmyndasögunnar. Blanchett leggur allt sitt í þetta stóra hlutverk og verður hreinlega Kate Hepburn. Ég spái því að Blanchett fái óskarinn, annað kemur vart til greina að mínu mati. Glæsileg túlkun!

Punktar dagsins
Lísa

Enn einu sinni kom að úrslitastund í Idol-stjörnuleit í gærkvöldi. Þá voru fjórir söngvarar eftir í keppninni: Hildur Vala, Davíð Smári, Heiða og Lísa. Í gærkvöldi var þemað: New York, enda höfðu söngvararnir fjórir farið nokkrum dögum áður til New York í eftirminnilega ferð. New York er mjög eftirminnileg borg, ég hef einu sinni komið þangað. Ferð til NY er mikil upplifun, svo vægt sé til orða tekið. Stórfengleg borg, rétt eins og Bandaríkin eru í heild sinni alveg frábær. Keppnin í gærkvöldi var óvenjujöfn og erfitt að láta einn fara, enda þau bestu í keppninni nú bara eftir. Svo fór að Lísa var send heim og féll því úr leik. Hún söng lögin As og Will you still love me tomorrow? Lísa er frábær karakter og góð söngkona. Ég hef þekkt Lísu nú tæpan áratug. Hún kemur frá Ólafsfirði og er algjör gullmoli. Leiðir okkar lágu saman í framhaldsskóla hér fyrir norðan og hefur okkar vinskapur haldist síðan. Hefur verið gaman að fylgjast með velgengni hennar í keppninni. Lísa á svo sannarlega skilið að njóta velgengni, enda hefur margt gengið á hjá henni og hún upplifað bæði skin og skúrir á æviskeiðinu sínu. Vonandi að henni gangi vel á söngbrautinni. Eftir eru semsagt þrjú í keppninni. Að mínu mati er Hildur Vala langbest af þeim sem eftir eru. Það er svo sannarlega stjarna fædd í henni. Hún vinnur vonandi keppnina.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Flokksþing framsóknarmanna heldur áfram. Virðast vera uppi átök innan raða framsóknarmanna um Evrópumálin. Eins og vel hefur komið fram hér lögðu framsóknarmenn til í drögum að ályktunum sínum að hefja aðildarviðræður að ESB á kjörtímabilinu. Heldur er það misráðið, enda er skýrt tekið fram í stjórnarsáttmálanum að ekki skuli hefja aðildarviðræður á þessu kjörtímabili. Er ágreiningur um Evrópumálin almennt og stöðu þeirra innan flokksins. Þetta hefur afhjúpast með afgerandi hætti á þinginu í dag. Er greinilegt að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, eru ekki sammála um hvaða leið skuli fara. Tókust þeir harkalega á, opinberlega, á þinginu í dag. Var formaðurinn tilbúinn að samþykkja ályktun sem gerði ráð fyrir því að vinna skyldi hefjast innan flokksins við að móta samningsmarkmið og undirbúning aðildarviðræðna. Guðni vill hinsvegar ekki að neitt verði fjallað um ESB í ályktunum og verði áhersla lögð að því á EES-samninginn. Fram hefur nú komið að Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs, hafi hringt í Halldór til að ræða Evrópumálin við hann í kjölfar umræðunnar. Er það góður vitnisburður þess að vel er fylgst á Norðurlöndunum og innan ESB með því hvað muni koma frá framsóknarmönnum í þessum málum. Mikilvægt er að framsóknarmenn fari varlega í þessum málum.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra

Árni Magnússon félagsmálaráðherra, hefur lagt fram athyglisverðar tillögur á flokksþingi framsóknarmanna, sem víkja að fækkun ráðuneyta og uppstokkun Stjórnarráðsins. Hugmyndir Árna gera ráð fyrir að ráðuneytum fækki úr 13 í 6-8. Telur Árni að forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið eigi að haldast óbreytt en önnur ráðuneyti verði með þessum hætti: innaríkisráðuneyti (sem færi með fjármál, framkvæmdir, dómsmál og fleiri verkefni), atvinnuvegaráðuneyti (þar sem færi saman iðnaður, viðskipti, landbúnaður, þjónusta, sjávarútvegur, ferðamál og annað sem viðkemur atvinnuvegum) velferðarráðuneyti (þar sem færi saman heilbrigðismál og félagsmál), og að lokum menntamálaráðuneyti (þar sem menntamál, menningarmál, íþróttir og annað tengt því kæmi saman). Ráðherrastólum mun því auðvitað fækka. Er það hugmynd Árna að taka með þessu breytta formi upp störf aðstoðarráðherra, og þá 2-3 í hverju ráðuneyti. Tek ég undir heilshugar með Árna að stokka þarf þessi mál og fækka má ráðuneytum og ráðherrastólum með markvissum hætti. Hef ég oft reifað hugmyndir um þetta, t.d. í sunnudagspistli mínum á heimasíðunni fyrir rúmu ári, 22. febrúar 2004. Bendi á þau skrif.

Reykjavíkurflugvöllur

Kostulegt hefur verið að fylgjast með framgöngu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra, hvað varðar málefni Reykjavíkurflugvallar. Talar hún fram og til baka og slær orðið úr og í. Nú er komið fram í málflutningi hennar að hún hafi, þegar hún talaði um aðlaga byggð við flugvöllinn í Vatnsmýrinni, verið að víkja að því að auðvitað færi völlurinn, en um langtímavinnubrögð sé að ræða. Það hefur því lítið breyst hjá henni í málinu. Hún er því enn sami flugvallarandstæðingurinn. Persónulega tel ég málefni flugvallarins eitt mikilvægasta umræðuefnið hér úti á landi. Án eðlilegra flugsamgangna við borgina getur staða hennar ekki haldist óbreytt í huga okkar allra. Málefni vallarins er ekki bara málefni Reykvíkinga, heldur okkar allra. Samgöngumiðstöð af þessu tagi skiptir okkur öll í landinu máli. Það er kostulegt að fylgjast með R-listanum sem flakkar í margar áttir en getur enga afgerandi afstöðu tekið í málunum, talað er út og suður. Þetta er alveg kostulegt.

Saga dagsins
1930 Stóra bomban - grein eftir Jónas Jónsson dómsmálaráðherra, birtist í Tímanum. Þar var greint frá ásökunum Helga Tómassonar yfirlæknis á Kleppi, um allslæma geðheilsu Jónasar. Miklar deilur fylgdu í kjölfarið sem leiddu til harðvítugra pólitískra átaka. Jónas var formaður Framsóknarflokksins 1934-1944 og sat sem dómsmálaráðherra 1927-1932. Jónas var mikill áhrifamaður í íslenskri pólitík
1952 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, lýsir því opinberlega yfir að Bretar hafi búið til eigin atómsprengju. Allmiklar deilur urðu vegna þessara frétta og hart tekist á um atómvæðinguna
1987 Íran-Contra hneykslismálið nær hámarki er bandarísk þingnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að bandarísk stjórnvöld hafi gerst sek um vítaverð mistök vegna málsins. Málið setti mjög slæman blett á seinustu ár embættistíðar Ronald Reagan forseta, en deilt var alla tíð um beina aðild hans að því
1993 Íslömsk hryðjuverkasamtök koma fyrir bílasprengju í World Trade Center-byggingunni í New York. 6 fórust í sprengingunni og smávægilegar skemmdir urðu. World Trade Center-tvíburaturnum var grandað í hryðjuverkaárásum al-Qaida, þann 11. september 2001. Tæplega 3000 manns fórust þá
2000 18. Heklugosið á sögulegum tíma hófst - var spáð með 18 mínútna fyrirvara í kvöldfréttum RÚV

Snjallyrðið
Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers.

Yfir heim eða himin
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðarlönd.
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.
Stephan G. Stephansson klettafjallaskáld (1853-1927) (Þótt þú langförull legðir)