Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 apríl 2005

Benedikt XVI páfi

Benedikt XVI páfi

Benedikt XVI páfi söng sína fyrstu messu sem trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar í morgun í Sixtínsku kapellunni í Páfagarði í Róm, þar sem hann var kjörinn páfi í gær. Var það í fyrsta skipti sem hann var skrýddur formlegum páfaskrúða. Tók hann í hendur starfsmanna sinna og gerði krossmark yfir þeim er hann gekk til kapellunnar. Páfinn hóf þessa fyrstu messu sína í embætti með því að fara með bæn á latínu og flutti síðan predikun á latínu. Benedikt XVI sagði í predikuninni að það yrði hans helsta verkefni í embætti að vinna að einingu allra kristinna manna. Sagðist hann hafa í hyggju að efna til opinna og einlægra viðræðna við iðkendur annarra trúarbragða og einnig sagðist hann hafa hug á því að dreifa valdi innan rómversk - kaþólsku kirkjunnar. Benedikt XVI sagðist hafa orðið undrandi á því að sigra í páfakjörinu og hljóta það verkefni að taka við embætti af Jóhannesi Páli II. Sagðist hann ekki hafa gert sér væntingar um að hljóta embættið. Sagði hann að forveri sinn hefði skilið eftir sig frjálsari, hugrakkari og yngri kirkju. Predikunar Benedikts XVI páfa hafði verið með eftirvæntingu, enda ljóst að hann myndi þar koma með grunnlínur embættisferils síns.

Við blasir að hinn nýi páfi muni í öllum meginlínum fylgja grunnáherslum forvera síns. Benedikt XVI var í rúma tvo áratugi einn nánasti samverkamaður Jóhannesar Páls II og því ljóst hvert hann sækir fyrirmynd sína í forystu kirkjunnar. Greinilegt er að það er Benedikt XVI mikið í mun að fullvissa þá sem hafa áhyggjur af kjöri hans um að hann sé víðsýnni en orð hans í fortíðinni gefa til kynna. Eins og fram kom í predikuninni í morgun að hálfu páfans sagðist hann finna fyrir návist forvera síns og að hann myndi vísa honum veginn í réttar áttir í embættinu. Virðist vera af úrslitum páfakjörsins að nýji páfinn sé álitinn millibilspáfi af kardinálunum. Sjálfur virðist hann hafa gefið til kynna við kjörið að hann yrði aðeins tenging fyrri páfa og embættistíðar hans inn í framtíðina. Hefur mikið verið rætt um heilsu páfa. Hann fékk heilablóðfall árið 1991 en náði sér fljótt af því. Orðrómur er uppi um það að nýji páfinn sé ekki heill heilsu og hann muni eiga erfitt með að sinna störfum sínum þegar líður á. Til dæmis nefna menn að hann muni ekki verða víðförull páfi í takt við forvera sinn og leggja meiri áherslu á trúarleg gildi starfsins.

Benedikt XVI páfi

Joseph Ratzinger sem nú hefur verið kjörinn sem Benedikt XVI páfi, fæddist í smábænum Markl am Inn syðst í Bæjaralandi þann 16. apríl 1927. 14 ára gamall var hann skráður gegn vilja sínum í Hitlersæskuna, sem nasistar skylduðu alla þýska drengi til, en var fljótlega sleppt úr henni þar sem hann var þá þegar kominn á þá braut að læra til prests. Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar mannaði hann loftvarnabyssur við München eins og aðrir landar hans á sama aldri, en hann hafði ekki lokið grunnherþjálfun þegar ófriðurinn var úti. Innan kirkjunnar skiptast menn mjög í tvö horn í afstöðu til Ratzingers. Fylgismenn hans segja að reynsla hans af uppvexti í Þýskalandi nasismans hafi innrætt honum sannfæringu fyrir nauðsyn þess að kirkjan láti að sér kveða og kirkjan standi vörð um sín gömlu gildi. Enn þann dag í dag er deilt um eðli þátttöku hans í Hitlersæskunni og andstæðingar hans hafa lengi haldið því fram að hann hafi verið flæktari í starf þess en hann vill vera láta. Gagnrýnendur hans segja hann standa fyrir harðlínustefnu innan kirkjunnar.

Ratzinger hlaut prestsvígslu árið 1951, þá 24 ára gamall, og var strax 1953 orðinn háskólakennari í kaþólskri guðfræði. Hann átti mjög farsælan feril sem guðfræðiprófessor í nokkrum þýskum háskólum. Þar var hann allt til ársins 1977 er hann var skipaður erkibiskup í München. Síðar sama ár var hann skipaður kardináli af Páli VI. Er hann annar tveggja kardinála sem sátu páfakjörið í vikunni sem kaus ennfremur Jóhannes Pál II sem páfa árið 1978. Jóhannes Páll II kallaði Ratzinger svo til starfa í Vatíkaninu árið 1981 og skipaði hann þá yfirmann trúarráðs kaþólsku kirkjunnar sem vakir yfir trúarkenningum og trúarlegum gildum innra starfsins. Um er að ræða eitt af áhrifamestum embættunum innan kaþólsku kirkjunnar, lykiláhrifmann í Vatíkaninu. Hann verið leiðtogi æðstaráðs Vatíkansins allt frá árinu 2002 og verið einn litríkasti forystumaður rómversk - kaþólsku kirkjunnar síðustu árin. Hann jarðsöng Jóhannes Pál II á Péturstorginu þann 8. apríl sl. Segja má að hann hafi sett mark á forystusveit kirkjunnar undanfarna þrjá áratugi og sífellt hækkað í tign og er nú orðinn trúarleiðtogi kirkjunnar.

Hann hefur skapað sér orðstír fyrir stranga íhaldssemi í útleggingu guðsorðsins, en jafnframt fyrir að vera skarpgreindur hugsuður. Hann og forveri hans voru alla tíð nánir bandamenn í íhaldssamri túlkun kenningarinnar og tóku mjög undir skoðanir Páls VI í þeim efnum, en fræg var andstaða hans við fóstureyðingar, er fram komu í riti hans árið 1968. Hefur hann verið nefndur þýski skriðdrekinn og Rottweiler Guðs af gárungum, vegna skoðana sinna og einbeitni í að halda í meginstoðir kirkjunnar og lykiltrúarsetningar hennar. Ratzinger komst snemma upp á kant við meirihluta trúsystkina sinna í heimalandinu. Ef marka má fréttir evrópskra vefmiðla er það reyndar svo að nær allir hinir þýsku kardinálarnir, sem sátu kjörfund páfa, hafi ekki viljað sjá Ratzinger í embættinu og ekki stutt hann nema þegar ljóst var orðið að hann myndi hljóta kjör í embættið. Ástæða óánægjunnar er að margir þeirra rekja það til hans að frá Vatíkaninu komu tilskipanir um að kaþólskum prestum í Þýskalandi skyldi bannað að veita þunguðum unglingsstúlkum ráðgjöf og um að kaþólskum unglingum skyldi ekki heimilt að fermast í sameiginlegri guðsþjónustu með lútherskum nágrönnum árið 2003.

Það er því óhætt að segja að nýr páfi sé umdeildur maður og ekki allir á eitt sáttir með hann. Þegar eftir kjörið heyrðust margar óánægjuraddir. Einkum hafa mannréttinda- og kvenréttindahópar gagnrýnt harkalega og segja fortíð páfa staðfesta að hann sé íhaldssamur og talsmaður rangra gilda og fylgi ekki grunnmannréttindalínum. Hef ég í dag kynnt mér vel grunnáherslur páfans og mörg ummæli hans í gegnum tíðina. Er enginn vafi á að þar fer íhaldssamur maður sem er lítið fyrir nýtískutal og tildurumræður. Hann er harður andstæðingur margra hluta sem við almennt teljum sjálfsagða í mannlífi okkar. En nú er það framhaldið að sjá hvort nýtt embætti, sem hefur margar skyldur og nýjar áherslur í för með sér, hafi einhver áhrif á grunnáherslur Ratzingers fyrir kjörið eða hvort hann einbeiti sér að innri trúarstörfum í stað ferðalaga og trúboðs um allan heim.

Það hvernig Benedikt XVI höndlar embættið og þróar það í takt við sjálfan sig verður fróðlegt að fylgjast með. Fannst mér fróðlegt að lesa messu hans í dag og það sem hann segir þar og vonast ég eftir því að þar sé gefinn sá tónn að hann verði mildari en svartsýnustu menn spá fyrir um.

Punktar dagsins
Silvio Berlusconi

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, gekk í dag á fund Carlo Azeglio Ciampi forseta Ítalíu, og baðst lausnar af hálfu ríkisstjórnar sinnar. Ekki er þó Berlusconi að fara frá fyrir fullt og allt og boða til þingkosninga, heldur er hann að leitast eftir öðru stjórnarmyndunarumboði og að mynda á ný starfhæfa ríkisstjórn í landinu. Deilur hafa verið innan hægristjórnar Berlusconi seinustu vikurnar. Deilurnar innan stjórnarinnar eiga rætur sínar að rekja til þess að samstarfsflokkar flokks forsætisráðherrans, Forza Italia, hafa þrýst á hann að segja af sér og mynda nýja ríkisstjórn á grundvelli nýs stjórnarsáttmála í kjölfar afhroðs, sem flokkarnir biðu í sveitarstjórnarkosningum fyrir skömmu. Ekki eru því deilur um málefni beint, heldur vilja flokkarnir stokka upp grunn stjórnarsáttmálans. Tekur það verkefni nú við, en við blasir að sömu flokkar verði áfram innan stjórnarinnar og samkomulag náist með þessu um áherslur að nýju og stjórnin klári kjörtímabil sitt, sem rennur út vorið 2006. Engin ríkisstjórn hefur verið jafn lengi við völd á Ítalíu frá síðari heimsstyrjöld, en hún hefur setið allt frá vorinu 2001, er hægriflokkarnir unnu glæsilegan kosningasigur. Blasir við að Ciampi forseti feli forsætisráðherranum nú aftur stjórnarmyndarumboð og samið verði um að klára kjörtímabilið, eins og fyrr segir.

ISG og Össur

Frambjóðendur til formennsku í Samfylkingunni, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, mættust í fyrsta skipti í kappræðum í Íslandi í dag, í gærkvöldi. Var merkilegt að horfa á þessar kappræður þeirra. Greinilegt var að þetta var þeim vandræðalegt og erfitt að mörgu leyti, enda vissulega í fyrsta skipti sem við horfum á svo harðvítuga baráttu um embætti milli samherja og fjölskyldufélaga til fjölda ára. Mér fannst Össur taka þessa fyrstu lotu slagsins með nokkrum glæsibrag. Hann svaraði spurningum hreint út, var með skýrar línur og öflug svör. Ingibjörg lenti í vandræðum, enda virðist hún engar skoðanir hafa á málefnum samtímans. Sérstaklega vakti þetta athygli er kom að málefnum Reykjavíkurflugvallar. Á þeim hafði hún enga skoðun og reyndi að koma sér undan umræðunni með frasablaðri, sem er við að búast af henni eftir allt klúðrið með völlinn í borgarstjóratíð hennar. Hún skynjar að hafi hún skoðun styggi hún einhvern og reynir að koma sér undan umræðunni. Svo var ekki fjarri því að ISG hafi verið hrædd við að tala um viðskilnaðinn við borgina og þingframboðið árið 2002, sem var eitt klúður, eins og við vitum öll. Reyndar fannst mér sem ISG liði illa að sitja andspænis Össuri þarna og tala um málefnin með hann sem andstæðing sinn. Annars opinberaðist þarna að málefnaágreiningur formannsefnanna er sáralítill.

Akureyri

Mjög gott veður hefur verið hér fyrir norðan í dag. Er ekki annað hægt að segja en að vetrinum ljúki með notalegum og góðum hætti. Segja má reyndar að veturinn hafi verið mildur og góður. Veðrið var með besta móti að mestu leyti á vetrinum. Fyrir jólin var að mestu hið besta veður. Um jólin kom leiðindasnjóbylur og í fyrsta skipti til fjölda ára var snarvitlaust veður á sjálfum aðfangadegi. Í kjölfar þessa var leiðindaveður megnið af janúar. Snjóaði mjög mikið og töldu margir að væri að stefna í snjóavetur á borð við 1995 og 1999, þegar var vægast sagt mikill snjór hér í firðinum, með því mesta í seinni tíð. Undir lok janúar fór snjórinn í miklu góðviðri og var veðrið að mestu með besta móti fram á vorið. Í dag, við lok sumarsins, er blíða og virkilega gott veður. Ekki mun vetur og sumar frjósa saman eins og að margra mati þykir vita á gott. Vonandi mun sumarið verða okkur gjöfult og gott þrátt fyrir það og mikil veðurblíða hér í firðinum.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag kom út Íslendingur, blað sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri. Þar eru ítarlegar greinar, fréttir um bæjarmálin og ýmislegur fróðleikur úr bæjarlífinu. Í ítarlegri grein eftir mig í blaðinu fjalla ég um skólamálin. Ennfremur eru þar greinar eftir Kristján Þór, Sigrúnu Björk og Jónu. Þema blaðsins er vöxtur. Eins og vel sést, þegar blaðið er skoðað, er staða sveitarfélagsins sterk. Það er öflugt og kraftmikið og hiklaust í öndvegi sveitarfélaga. Það er því í senn bæði ljúft og ánægjulegt að telja í blaðinu upp mikilvæga hluti sem skipta máli og gerst hafa það sem af er árinu, og ekki síst undir stjórn okkar sjálfstæðismanna allt frá 1998. Með blaðinu fjöllum við um málefnin sem skipta okkur öll miklu máli. Hér á Akureyri eru öll lífsins gæði og alltaf jafn gaman að kynna bæjarbúum stöðu mikilvægra málaflokka og þá punkta sem skipta máli.

Saga dagsins
1602 Einokunarverslun Dana á Íslandi hófst þegar konungurinn veitti borgurum Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar einkaleyfi til að versla hér á landi. Einokunin stóð allt til ársloka 1787
1950 Þjóðleikhúsið var formlega vígt - opnaði húsið með frumsýningu á Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson. Einnig var sett í fyrsta skipti á svið í húsinu leikritið Íslandsklukkan byggð á skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness. Framkvæmdir við glæsilegt leikhúsið við Hverfisgötu hófst árið 1928, en lá lengi niðri vegna seinni stríðsins og fjárskorts. Leikhúsbyggingin var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni
1972 Ellefu íslenskir námsmenn í Gautaborg og Uppsölum réðust með valdi inn í sendiráð Íslands í Stokkhólmi og héldu því í tvær stundir - þeir voru með þessu að mótmæla aðstöðu námsmannanna
1999 Fjöldamorð í Columbine skólanum í Denver í Colorado-fylki - tveir nemendur skólans, Eric Harris og Dylan Klebold, drápu 13 manns í skothríð og margir særðust. Að því loknu sviptu þeir báðir sig lífi. Michael Moore gerði umdeilda heimildarmynd um þennan atburð, Bowling for Columbine, árið 2002
2000 Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu opnað við hátíðlega athöfn - húsið var helgað menningu landsins og sögu í gegnum aldirnar. Allt frá opnuninni hafa þar verið athyglisverðar heildarsýningar

Snjallyrðið
All our dreams can come true, if we have the courage to pursue them.
Walt Disney teiknimyndajöfur (1901-1966)