Rainier III fursti í Mónakó, lést í gærmorgun, 81 árs að aldri, á sjúkrahúsi í Monte Carlo. Hann hafði legið þar seinustu vikurnar mikið veikur og var í dái undir lokin og því ljóst að hverju dró seinustu vikurnar og að hann lægi banaleguna. Tekur Albert sonur hans við furstadæminu við fráfall föður síns, en Albert hafði tekið við skyldustörfum föður síns í síðustu viku, er ljóst var hvert stefndi. Rainier fursti ríkti í Mónakó í 56 ár, eða allt frá árinu 1949. Er hann lést, var hann einn af þeim þjóðarleiðtogum heims, sem lengst höfðu ríkt. Rainier var af Grimaldi-ættinni, sem ráðið hefur ríkjum í Mónakó í rúmar sjö aldir. Hann tók við furstadæminu árið 1949, af afa sínum, Louis II. 19. apríl 1956 kvæntist Rainier fursti, bandarísku óskarsverðlaunaleikkonunni Grace Kelly.
Það þóttu stórtíðindi þegar furstinn kvæntist Grace. Að flestra mati var Grace ein þokkafyllsta kona 20. aldarinnar og var rómuð fyrir glæsileika. Gifting Rainiers og hennar þótti styrkja mjög undirstöður furstadæmisins og tryggja áframhaldandi líf þess og ekki síður bæta ímynd þess verulega. Grace var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug 20. aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum og var rómuð fyrir glæsilega túlkun sína á litríkum kvenpersónum. Hún hlaut óskarsverðlaunin í mars 1955 fyrir leik sinn í The Country Girl, en hún og Rainier kynntust við gerð kvikmyndarinnar To Catch a Thief í Mónakó. Var hún aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og enginn vafi á því í mínum huga að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar og gott betur en það.
Grace hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood ári síðar. Eftirsjá þótti af henni af hvíta tjaldinu. Leikstjórinn Sir Alfred Hitchcock var heillaður af Grace og harmaði mjög þegar hún tók þá ákvörðun að hætta leik, enda var hún af honum sem mörgum öðrum talin mesta stjarna þess tíma og náttúrutalent í leik. Fyrir Grace var það erfið ákvörðun og bitur að þurfa að hætta að leika og er sagt í ævisögu hennar að hún hafi í raun aldrei komist yfir það að fórna ferlinum fyrir Rainier. Engu að síður var hjónaband þeirra ástríkt og eignuðust þau þrjú börn: Karólínu, Albert og Stefaníu. Þar sem furstadæmið hefur byggst lengst af á því að karlkyns þjóðhöfðingi sé í Mónakó varð Albert ríkisarfi og því fremri í erfðaröð en systir hans, þó hún væri eldri. Rainier og börn hans urðu fyrir miklu áfalli er Grace fórst í bílslysi 14. september 1982, 52 ára að aldri. Hún hafði verið að keyra í hæðóttum beygjum ofan við Monte Carlo með Stefaníu og misst stjórn á bílnum. Stefanía lifði slysið af en Grace komst aldrei til meðvitundar. Hún varð fyrir innvortis meiðslum og banamein hennar var heilablóðfall. Kaldhæðnislegt var að slysið gerðist á svo til sama stað og hið fræga bílaatriði Grace og Cary Grant í To Catch a Thief árið 1955.
Sviplegt fráfall Grace varð Rainier mikið áfall og fullyrða kunnugir að hann hafi aldrei náð sér af að hafa misst hana. Eftir lát hennar var Rainier mun minna í sviðsljósinu og lét börnum sínum það eftir að eiga sviðsljósið og athygli fjölmiðla. Sem dæmi um tryggð hans við Grace var að aldrei voru teknar fjölskyldumyndir án þess að í bakgrunni væru málverk eða ljósmyndir af Grace. Nú er Rainier hefur kvatt eftir langan valdaferil tekur við nýr kafli í sögu furstadæmisins. Albert hefur verið umdeildur alla tíð og eru margir fullir efasemda um hvernig hann muni standa sig. Hann er 47 ára gamall og hefur aldrei kvænst og á engin börn. Var lögum um furstadæmið breytt árið 2002 til að tryggja framtíð þess og mun erfðarétturinn halda sér þó Albert eignist engin börn, fram að þeim tíma varð hann að eignast sjálfur börn til að halda furstadæminu á lífi og tryggja framgang þess. Nú er Karólína fremst í erfðaröðinni og næst koma börn hennar og Stefano Casiraghi, sem lést 1990: þau Andrea, Charlotte og Pierre. Það verður því líklega Andrea sem tekur við af móðurbróður sínum þegar sá tími kemur. Rainier verður jarðsunginn 15. apríl nk. og mun hann verða lagður til hinstu hvíldar í dómkirkju Monte Carlo við hlið eiginkonu sinnar.
Jóhannes Páll páfi II verður jarðsunginn í Róm á morgun. Lík páfa hefur legið á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju frá því á mánudag. Hafa rúmlega 2 milljónir manna þegar vottað honum virðingu sína með því að fara að líkbörunum. Er talið að um milljón manns sé enn í biðröðum í miðborg Rómar og bíði eftir að komast inn í kirkjuna. Öngþveiti hefur skapast seinustu daga í borginni og ljóst að færri komast að en vilja til að votta páfanum virðingu sína. Í gærkvöldi var sú erfiða ákvörðun tekin að loka fyrir biðraðirnar, enda þá ljóst að aðeins takmarkaður fjöldi myndi ná að kirkjunni og fara að líkbörunum áður en loka þyrfti henni aðfararnótt föstudags til að undirbúa kirkjuna fyrir athöfnina og sinna lokafrágangi á líki páfa og færa það í kistu. Hefur verið með ólíkindum að fylgjast með fréttum af fólksfjöldanum í Rómarborg. Fyrirfram var vitað að fjöldinn yrði mikill en nú blasir við að vel á fjórða milljón manns muni ná að fara að líkbörunum áður en loka verður kirkjunni og ekki nærri því allir sem fá ósk sína uppfyllta. Hefur fjöldinn sprengt af sér allar spádóma um mögulegar tölur og enn streymir fólk til borgarinnar. Ljóst er að mesti mannfjöldi í sögu Rómar mun verða í miðborginni á morgun til að votta páfa hinstu virðingu sína.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans, Laura Bush, komu í gærkvöldi til Rómar ásamt Condoleezzu Rice utanríkisráðherra, og fyrrum forsetunum George H. W. Bush og Bill Clinton. Mun Bush forseti, verða einn af tæplega 200 þjóðarleiðtogum og stjórnarerindrekum við útför páfa. Fóru þau beint í St. Péturskirkju til að votta páfa virðingu sína. Stöldruðu þau við þar í fimm mínútur og kraup Bush á kné fyrir framan kistu páfans. Verður Bush fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem er viðstaddur útför trúarleiðtoga kaþólskra. Tilkynnt var í gær að páfakjör myndi hefjast að loknu sorgartímabilinu Novemdialis, sem hefst eftir útför páfa. Munu kardinálarnir koma saman þann 18. apríl til að velja nýjan páfa. Sú nýbreytni verður á vali páfa að þessu sinni að ekki mun aðeins hvítur reykur marka kjör nýs páfa, heldur mun bjöllum Vatíkansins verða hringt til merkis um að kardinálarnir hafi náð samstöðu. Í dag var erfðaskrá páfa kynnt opinberlega. Þar kemur fram að páfi íhugaði að segja af sér embætti árið 2000 og hugleiddi mjög stöðu sína. Tók hann þá ákvörðun að halda áfram, í þágu Guðs, eins og segir í erfðaskránni. Kemur þar ennfremur fram að páfinn hafi ekki ákveðið hvar hann vildi hvíla, hann taldi réttast að kardinálarnir réðu því. Töldu margir að páfi yrði jarðsettur í heimalandi sínu, Póllandi, en kardinálarnir hafa ákveðið að hann muni hvíla með öðrum páfum í grafhvelfingu basilikunnar í St. Péturskirkju. Fram kemur ennfremur að páfi skilji ekki eftir neinar veraldlegar eigur og að brenna eigi öll persónuleg skrif hans.
Kosningabaráttan fyrir bresku þingkosningarnar, þann 5. maí nk. er komin á fullan skrið og allt hefur verið sett af stað af hálfu flokkanna. Er tekist á af mikilli hörku og öllu beitt í slagnum. Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, var um leið og Blair hafði tilkynnt um kosningarnar, kominn á fullt í ferðalög um landið og að kynna stefnu flokksins. Howard og íhaldið hefur í raun tekist að taka alla taktísku baráttuna og hafa betur í henni að þessu sinni. Mestu skiptir þar innkoma áróðursmeistara íhaldsmanna, Lynton Cosby. Sérstaklega hefur þeim tekist að taka innflytjendamálin upp og gera þau að kosningamáli og leiða umræðuna þar. Cosby hefur löngum þótt snillingur í að finna málefni, halda þeim með því að leiða umræðuna og snúa jafnvel tapaðri kosningabaráttu í unnið spil. Fyrir þessu eru mörg dæmi, hin bestu kosningabaráttan í Ástralíu er John Howard tókst að komast til valda. Það vekur mesta athygli nú að íhaldsmönnum hefur tekist með glæsibrag að vinna allar taktísku og mikilvægustu orrusturnar. Innflytjendamálin eru skólabókardæmi um þessi mál. Hið besta við það af þeirra hálfu að Verkamannaflokkurinn getur varla höggvið til baka á íhaldsmenn í þeirri rimmu. Howard er enda af innflytjendaættum sjálfur og því eiga kratarnir mjög óhægt um vik í rimmunni. Bendi áhugafólki um breska pólitík sérstaklega á kosningavef BBC.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Karl Axelsson formaður nefndar um eignarhald á fjölmiðlum, kynntu í dag niðurstöður nefndarinnar á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra flokka og hefur nú náðst þverpólitísk samstaða um niðurstöðu. Sannkölluð söguleg sátt, eftir fyrri deilur. Nefndin leggur í skýrslu sinni til að settar verði reglur um að enginn einn aðili eða tengdir aðilar geti átt ráðandi hlut í fjölmiðli, sem hafi þá stöðu að í það minnsta þriðjungur þjóðarinnar notfærir sér miðilinn að jafnaði á degi hverjum eða markaðshlutdeild fjölmiðilsins fari yfir þriðjung af heildarupplagi, heildaráhorfi eða heildarhlustun á hverjum fjölmiðlamarkaði fyrir sig. Leggur nefndin til að þessi eignarmörk verði 25%. Nefndin leggur til að almennar takmarkanir verði settar á eignarhald ljósvaka- og prentmiðla sem starfa hér á landi, þó þannig að takmörkunin nái aðeins til fjölmiðla sem náð hafi ákveðinni útbreiðslu og þar með ákveðnu áhrifavaldi. Leggur nefndin til að öllum aðilum í þeim fjölmiðlarekstri, sem umræddar takmarkanir nái til, verði veittur tveggja ára aðlögunarfrestur að nýrri löggjöf, verði hún sett. Blasir við að þetta eigi við um Morgunblaðið, 365 og Skjá einn, því þurfi að stokka eignarhald þar eitthvað upp. Renndi ég yfir niðurstöðurnar síðdegis og hvet alla til að líta á skýrsluna. Ég fjalla nánar um niðurstöður hennar í pistli mínum á sunnudag.
Tónlistarmaðurinn Megas, Magnús Þór Jónsson, er sextugur í dag. Fullyrða má að Megas sé merkilegur tónlistarmaður í tónlistarsögu landsins. Hann er snillingur orðsins í nútíma ljóðlist og hefur tekist með undraverðum hætti að tjá sig með næmleika og merkilegri fegurð um daglegt líf og getur tjáð sig með svipmiklum hætti um samtíma sinn. Umfram allt er þó Megas kaldhæðinn og napur í yrkisefnum, það er viss ádeila í honum sem alltaf er gaman af. Það hefur líka verið gaman af því hvernig hann hefur notað heimsbókmenntirnar, sagnaarfinn okkar og þá hefð sem hann byggist á og kveðskap fyrri tíma sem efnivið í verk sín. Hann hefur með merkilegum hætti náð að flétta saman slangri, rokkfrösum seinustu áratuga, nýyrðum og sett saman við gullaldarmál fyrri tíma, svo úr verði næm meistaraverk. Hef ég lengi borið mikla virðingu fyrir verkum hans og tónverkum. Með vinnubrögðum sínum hefur hann tekist bæði að heilla og hneyksla. Hvað sem segja má þó um Megas leikur þó enginn vafi á því að hann hefur náð til fólks og hreyft við samtímanum með merkilegum hætti. Það er hans afrek og verður það sem mun ávallt setja mestan svip á feril hans.
Hvernig er annars hægt að gera upp tónlistarsögu 20. aldarinnar án þess að taka fyrir plötur hans, t.d. Millilendingu, Fram og aftur blindgötuna, Á bleikum náttkjólum, Drög að sjálfsmorði og síðast en ekki síst Loftmynd. Árið 2000 hlaut Megas verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir kveðskap sinn. Mörgum kom það verulega á óvart en varla þarf að undrast það, sé litið á verk hans og kveðskap. Í rökstuðningi nefndarinnar á þeim tíma sagði svo: "Megas hefur með skáldskap sínum auðgað íslenskt mál. Ljóðmál hans er frumlegt og nýtt og sækir líf sitt í hversdagsleika borgarinnar, fegurð og ljótleika mannlífsins og skeikula ásýnd náttúrunnar. Ljóð hans hafa sérstæða rödd, kímna og kaldhæðna. Íslenska menningu og menningararf skoðar hann með gagnrýnum og hvössum hætti og veitir hlustendum og lesendum sínum nýja sýn á viðteknar hugmyndir. Megas hefur haft mikil áhrif á skáldskap, tónlist og ekki síst á gerð dægurlagatexta á síðustu áratugum og hvatt ungt fólk til að kanna möguleika móðurmálsins í stað þess að flýja á náðir enskunnar." Svo sannarlega orð að sönnu. Sérstaklega bendi ég að lokum lesendum á ítarlega umfjöllun Jónatans Garðarssonar um Megas.
Stjórn Varðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í gærkvöldi:
Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur að Norðlendingar eigi að sameinast um það markmið að tryggja að næsta stóriðja verði reist á Norðurlandi. Á meðan Norðlendingar deila um mögulegar staðsetningar er hættan á því að fjárfestar snúi sér annað og reisi næstu stóriðju á öðrum stað. Hentugast er að þeir staðir sem komi til greina á Norðurlandi séu kynntir saman og kynni kosti sína fyrir fjárfestum. Ef Norðlendingar sameina krafta sína í stað þess að deila um staðsetninguna innbyrðis eiga þeir mun meiri möguleika á að tryggja að farsæl lausn náist fyrir Norðlendinga alla.
Saga dagsins
1906 Ingvarsslysið - 20 menn fórust er þilskipið Ingvar RE 100 strandaði í ofsaveðri skammt undan Viðey. Í sama ofsaveðri fórst alls 48 menn með tveimur skipum við Mýrar, Sophie Wheatly og Emilie
1943 Laugarnesspítali í Reykjavík brann - hann var byggður í kringum 1900 sem holdsveikraspítali
1968 Formúlukappinn Jim Clark, lætur lífið í alvarlegu slysi á Hockenheim-brautinni í Þýskalandi
1970 Leikarinn John Wayne hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Rooster Cogburn í kvikmyndinni True Grit - Wayne var einn af litríkustu leikurum Bandaríkjanna á 20. öld og varð hann heimsfrægur fyrir leik sinn í ýmsum helstu gullaldarvestrum Hollywood á öldinni. Hann lést úr krabbameini í júní 1979
1979 Fjögur systkini frá Vestmannaeyjum gengu í hjónaband við sömu athöfn - einsdæmi hérlendis
Snjallyrðið
You can't help getting older, but you don't have to get old.
George Burns leikari (1896-1996)
<< Heim