Frakkar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Allar skoðanakannanir seinustu viku kosningabaráttunnar höfðu gert ráð fyrir sigri andstæðinga stjórnarskrárinnar. Segja má þó að sigur andstæðinganna hafi verið mun meira afgerandi en gert hafði verið ráð fyrir. Síðustu kannanir höfðu bent til þess að staðan væri 52-48 andstæðingunum í vil og bjuggust stjórnmálaskýrendur við að hvað sem er gæti gerst. Það fór svo að 55% felldu stjórnarskrána en 45% samþykktu hana. Kjörsókn var rúmlega 70% og kusu fleiri Frakkar í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú en fyrir þrettán árum þegar kosið var um Maastricht-samninginn. Þessi úrslit eru í senn bæði áfall fyrir Jacques Chirac forseta Frakklands, og Evrópusambandið í heild sinni. Forsetinn hafði lagt mikið undir með því að efna til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu og treyst á að almenningur myndi samþykkja stjórnarskrána, þrátt fyrir andstöðu við hana.
Það fór á aðra lund og eflaust nagar forsetinn sig í handarbökin fyrir að hafa ekki farið með stjórnarskrána fyrir þjóðþingið eins og mörg önnur Evrópulöndin. Með því hefði hann getað klárað málið fljótt og örugglega en dalað vissulega í vinsældum. Eftir stendur hann nú eftir þessar veikari að velli að öllu leyti. Það var klukkan 22:00 að staðartíma í gærkvöldi (20:00 að íslenskum tíma) sem fyrstu tölur birtust og útgönguspár fjölmiðlanna voru þá kynntar ennfremur opinberlega. Allt frá fyrstu mínútu var staðan ljós. Munurinn var það mikill að enginn vafi lék á niðurstöðunni. Stjórnarskránni var hafnað með nokkuð afgerandi hætti. Hálftíma eftir að fyrstu tölur voru kynntar, eða klukkan 22:30 að staðartíma flutti Chirac forseti, ávarp til almennings. Bar hann sig vel þrátt fyrir tapið en það duldist engum sem á ávarpið horfði að forsetinn var vonsvikinn með úrslitin og skal engan undra. Þessi úrslit eru án nokkurs vafa mesta pólitíska áfall litríks og langs stjórnmálaferils Chiracs forseta.
Þetta er aðeins í annað skipti sem franskur forseti bíður ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Árið 1969 beið Charles De Gaulle forseti, mikinn persónulegan og pólitískan ósigur er tillögur hans um breytingar á stjórnarskránni voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að kvöldi kjördags brást De Gaulle, kempan mikla sem leitt hafði Frakkland í gegnum stríðið og verið öflugasti stjórnmálamaður landsins á 20. öld, við með því að boða afsögn sína af forsetastóli. Pólitískir andstæðingar hans stóðu eftir orðlausir. Öllum að óvörum sté þessi aldni forystumaður af stól sínum og fór. Á hádegi daginn eftir hafði svo afsögn hans tekið gildi og hann hafði yfirgefið Elysée-höll í hinsta skipti. Þessi öflugi stjórnmálaleiðtogi yfirgaf stjórnmálasviðið hljótt en þó með snörpum hætti. Er hann lést ári síðar var hans minnst sem eins öflugasta pólitíska leiðtoga landsins, en árinu áður var hann óvinsæll og hafði beðið sögulegt tap. Hann var vissulega forseti á umbrotatímum og því ekki svo gott að jafna saman frægu tapi De Gaulle og endalokum stjórnmálaferils hans við þetta tap Chiracs.
Þrátt fyrir mikið tap er Chirac ekki að fara neitt. Hinn 73 ára gamli forseti hefur upplifað marga slæma tíma og oft komist í hann krappan á fjögurra áratuga löngum stjórnmálaferli. En þetta tap er hið versta á ferli hans og fullyrða má að hann nái ekki að rétta úr kútnum og verði lamaður á valdastóli fram að næstu kosningum. Segja má að franskir kjósendur hafi sent honum rauða spjaldið í þessum kosningum og lýst yfir vantrausti á verk hans og ríkisstjórnarinnar. Á síðasta ári biðu stjórnarflokkarnir afhroð í byggðakosningunum og misstu völdin í mörgum af lykilfylkjum sínum. Þá var uppi orðrómur um að Chirac myndi bregðast við með því að skipta um forsætisráðherra og víkja Jean-Pierre Raffarin úr embætti. Hann gerði það ekki og stólaði á að Raffarin myndi takast að styrkja sig og stjórnina þrátt fyrir deilurnar vegna breytingarinnar umdeildu á vinnulöggjöfinni. Það hefur ekki gerst, fylgi stjórnarinnar hefur lítið aukist og Raffarin er orðinn óvinsælli nú en hann var á sínum tíma. Það blasir við að tapið nú sé ekki síður vantraust almennings á stjórnina og verk hennar.
Fullyrða má að pólitísk framtíð Raffarin sé ráðin. Honum verði fórnað til að vinna í haginn fyrir forsetann. Hefur blasað við nokkurn tíma að pólitísk örlög hans ráðist af kosningunni um stjórnarskrána. Chirac forseti hefur ekki í hyggju að víkja sjálfur og mun stefna að því að klára kjörtímabil sitt. Þessi úrslit eru það afdráttarlaus að fullyrða má að þau séu rothögg fyrir ríkisstjórn Raffarin og forsetann sjálfan. Umboð beggja er vart lengur til staðar. Það er eiginlega með ólíkindum hvað Chirac hefur tekist illa að halda glæsilegu umboði sínu eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Í báðum kosningunum stóð Chirac eftir með pálmann í höndunum. Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með glæsilegum hætti. Í fyrri umferð kosninganna hafði Lionel Jospin forsætisráðherra og leiðtoga Sósíalistaflokksins, mistekist að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum hafði það verið þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen sem varð mótherji Chiracs í seinni umferðinni. Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að.
Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Raffarin tók við embætti í júní 2002. Þá var hann afburðavinsæll og sterkur að velli. Nú er hann aðeins svipur hjá sjón og ljóst að hann verður látinn gjalda fyrir þetta tap. Hann verður blóraböggullinn fyrir Chirac. Þó er algjörlega ljóst að forsætisráðherraskipti breyti litlu fyrir stöðuna. Kjósendur eru ekkert síður að senda Chirac rauða spjaldið og vilja breytingar. Þetta er ekki ólíklegt því og var í kosningunni um Maastricht fyrir 13 árum er munaði nær engu að sáttmálanum yrði hafnað vegna óvinsælda François Mitterrand. Er ljóst að Chirac stendur mjög höllum fæti vegna tapsins. Er merkilegt hvernig hann hefur misst stuðning landsmanna á þessum þrem árum eftir sögulegan sigur sinn og hægriflokkanna.
Gríðarlegur fögnuður braust út á Bastillutorginu í París er úrslitin urðu ljós í gærkvöldi. Andstæðingar stjórnarskrárinnar héldu þar mikla sigurhátíð og fögnuðu sigrinum af miklum krafti. Ekki er það óeðlilegt. Þetta er stór sigur almennings á Evrópusambandinu og reglugerðafarganinu þar. Fólkið tók afstöðu og tók stjórnarskrárferlið í sínar hendur. Það er mjög ánægjulegt. Eftir þessa niðurstöðu er stjórnarskráin í lausu lofti og ljóst að stjórnarskrárferlið allt er komið í annað ferli og alls óvíst hver örlög þess verður. Enginn vafi er á því að jarðskjálfi leikur eftir þessa niðurstöðu í stjórnkerfi bæði Frakklands og Evrópusambandsins. Óhætt er að fullyrða að Evrópusambandið hafi ekki gengið í gegnum meiri kreppu í sögu sinni. Og ekki er víst að vandræðin séu að baki. Á miðvikudag munu Hollendingar ganga að kjörborðinu og taka afstöðu til stjórnarskrárinnar. Allar skoðanakannanir benda til þess að þeir hafni stjórnarskránni. Hafni Hollendingar henni eins og Frakkar eru allar líkur á að þar með verði saga stjórnarskrárinnar sé öll.
Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni Hollendingar eins og Frakkar er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Án samþykkis Hollendinga tekur við flókið og erfitt ferli. Hinsvegar er afstaða Frakka mesta áfall sem mögulega gat riðið yfir ESB. Með þessu hefur ein meginþjóð sambandsins hafnað tilögunum frægu og í raun sett málið allt út af sporinu. Á því leikur enginn vafi. Viðbrögð forystumanna ESB og leiðtoga þjóðanna sem leiða starfið þar bar öll merki vonbrigða í gærkvöldi. Sem er engin furða. Öll vinna seinustu ára að stjórnarskránni og forystuferli sambandsins hefur verið sett á ís. Ekkert er þar lengur öruggt. Synjun Frakka sem lykilþjóðar þar setur allt starf þess í vafa og erfitt er að spá í framtíðina. Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Hollendingar eiga næsta leik og beðið verður eftir niðurstöðu mála þar.
Mér fannst merkilegt að sjá afneitunina sem kom fram í gær í orðum forseta ESB, krataþingmannanna á Evrópuþinginu og forsætisráðherra Lúxemborgar sem leiðir nú starf ESB fram á sumarið. Þar töluðu allir eins og þetta væri bara eins og hvert annað tap og hvert annað vandamálið að vinna úr. Að mínu mati er það ekki svo. Það er merkilegt að sjá að Össur Skarphéðinsson alþingismaður og fyrrum formaður Samfylkingarinnar, er öllu raunsærri í orðavali um úrslitin en flokksbræður hans um Evrópu alla. Staðan er einfaldlega sú að málið er allt í vandræðum og ekkert lengur öruggt. Enda segir Össur í skrifum sínum: "Drögin að stjórnarskrá Evrópusambandsins verða annaðhvort söltuð um langa hríð og síðan breytt verulega áður en lagt er í næsta ferðalag með þau, eða stjórnarskráin verður einfaldlega send rakleiðis í líkhúsið. Það er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við eftir að Frakkar höfnuðu stjórnarskránni með afgerandi hætti í gær. Í því sambandi skiptir óskhyggja þeirra forystumanna ESB sem töpuðu í kjörkössum Frakklands engu máli." Orð að sönnu - gleðiefni að sjá svona skrif hjá fyrrum leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna.
Í gærkvöldi fór Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, yfir stöðu mála í ítarlegum pistli á vef sínum. Þar segir hann orðrétt: "Fyrir kosningarnar í Frakklandi hefur almennt verið kveðið svo fast að orði, að sigur nei-liðsins, sérstaklega ef hann yrði afgerandi, þýddi hið sama og dauði stjórnarskrárinnar í núverandi mynd. Sé munurinn 10% á jái og neii er um afgerandi neitun að ræða. Þegar minniháttar ríki fella eitthvað ESB-skjal í þjóðaratkvæðagreiðslu er beðið um tíma og síðan kosið aftur, þegar talið er víst, að já-liðinu hafi aukist fylgi, eða samið er um takmarkaða aðild viðkomandi ríkis að einhverju samstarfi á vettvangi ESB. Öðrum augum er litið á Frakka og þess verður áreiðanlega langt að bíða að póltíska-elítan, sem fór fyrir já-liðinu í Frakklandi vilji aftur láta á það reyna, hvort afstaða hennar nýtur hylli almennings eða ekki." Þetta er alveg rétt hjá Birni, í raun kjarni málsins að mínu mati. Staða stjórnarskrárinnar er þannig að málið er strandað. Frakkar höfnuðu henni afdráttarlaust og settu málið af sporinu. Hvernig menn ná áttum eftir það er svo næsta spurning. Forystumenn ESB og franskra stjórnmála eiga erfitt með að horfast í augu við það en verða að gera það nú.
Um miðjan þennan mánuð hafði Chirac setið á valdastóli í áratug. Ekki er hægt að segja að hann hafi getað fagnað þeim áfanga. Hann lagði allt sitt af mörkum til að stjórnarskrárin færi í gegn og yrði samþykkt. Ávarpaði hann þjóðina þrisvar til að reyna að hafa áhrif á afstöðu almennings. Hann hafði ekki erindi sem erfiði. Tap hans er mikið. Eins og fyrr segir er þetta mesta pólitíska krísa Chiracs á löngum valdaferli og hefur hann þó oft átt við ramman reip að draga. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Þrátt fyrir mikinn sigur í forsetakosningunum fyrir þrem árum er ljóst að hann hefur misst umboð almennings. Chirac hefur í gegnum tíðina verið með ímynd baráttumannsins og talinn hafa níu líf eins og kötturinn þegar kemur að pólitískri forystu. Forsetanum hefur alltaf tekist að koma standandi niður úr hverju fallinu á eftir öðru, þrátt fyrir að blásið hafi á hann. Honum tókst fyrir áratug að vinna forsetaembættið í þriðju atrennu sinni að því.
Ljóst er eftir þetta mikla tap að Chirac er á krossgötum og enginn vafi að ósigur hans hefur mikil áhrif á arfleifð hans og næstu ár á valdastóli. Hætt er við að þeir 23 mánuðir sem framundan eru til forsetakosninga verði honum erfiðir. Chirac-isminn sem svo hefur verið kallaður er alvarlega skaddaður eftir vantraust fransks almennings á forsetanum og pólitískri forystu hans, bæði í Evrópumálunum og í innanríkismálum. Nú er það forsetans að bregðast við þessu mikla tapi. Ljóst var af ræðu hans í gærkvöldi að hann ætlar sér að fara rólega í næstu skref. Tapið er mikið og áfallið er honum erfitt verkefni að vinna úr. Telja má öruggt að forsetinn víki af valdastóli í næstu kosningum. Þó er erfitt að afskrifa Chirac eftir tapið, en aldrei hefur blásið eins á hann og nú og ljóst að hann hefur aldrei verið veikari að velli. En við fáum brátt að sjá hvernig hann vinnur úr stöðunni, væntanlega í kjölfar ráðherrahrókeringa og breytinga í stefnuáherslum.
Hvert stefnir svo Evrópusambandið á þessum maídegi eftir þennan gríðarlega jarðskjálfta á svæði þess? Menn eru að meta skemmdirnar og eflaust eru margir postularnir þar innbyrðis komnir í heljarinnar áfallahjálp. Sumir forystumennirnir þar neituðu lengi vel að horfast í augu við það að Frakkar myndu fella. Nú verða þeir að vakna og horfast í augu við að stjórnarskrármálið er komið af sporinu og blasir við að Hollendingar felli. Það að Frakkar felli er þó lykiláfallið. Það er meiriháttar kjaftshögg. Annars var merkilegast að heyra viðbrögð Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands. Hann var eiginlega eini leiðtoginn þarna sem var raunsær í gær og talaði hreint út. Hann leit svo á að úrslitin leiddu til óvissuskeiðs innan sambandsins. Taldi hann ESB þurfa að fara í vissa naflaskoðun.
Það blasir við að það sé rétt. En það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarás næstu daga eftir þessi þáttaskil málsins. Pólitíska forystan í Frakklandi verður undir smásjá allra fjölmiðla næstu daga og ESB-elítan eftir kosningarnar í Hollandi á miðvikudag. Þar ræðst væntanlega hvað gerist. Felli þeir erum við án vafa að horfa á skipbrot vinnuferlisins að stjórnarskrárpælingunum. Þá er útilokað væntanlega að Bretar fari í þjóðaratkvæði og allur grunnur málsins mun væntanlega annaðhvort bresta alveg eða allavega kikna eitthvað af þunga málsins. Við fylgjumst öll spennt með jarðskjálftavirkninni á heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.
Saga dagsins
1431 Jóhanna af Örk brennd á báli - var þá 19 ára gömul. Jóhanna var gerð að dýrlingi 16. maí 1920
1768 Eggert Ólafsson lögmaður og skáld, drukknaði í slysi á Breiðafirði. Hann var þá 42 ára að aldri
1851 Jón Sigurðsson var kjörinn forseti Kaupmannahafnardeildar Hins Íslenska bókmenntafélags -
Jón var lengi áberandi í starfinu þar og gegndi hann embættinu allt til dauðadags í desember 1879
1984 Sett voru stjórnskipunarlög á þingi sem kváðu á um fjölgun alþingismanna landsins úr 60 í 63
2001 Roland Dumas fyrrum utanríkisráðherra Frakklands og einn nánasti pólitíski samstarfsmaður François Mitterrand fyrrum forseta Frakklands, dæmdur til fangavistar vegna pólitískrar spillingar
Snjallyrðið
Do what you feel in your heart to be right - for you'll be criticized anyway. You'll be damned if you do, and damned if you don't.
Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna (1884-1962)
<< Heim