Til fjölda ára hefur verið draumur margra hér á Norðurlandi að til sögunnar komi stóriðja hér í fjórðungnum. Við hér í Eyjafirði höfum mörg hver lengi barist fyrir þessu. Segja má að allt frá því að ég fór að fylgjast með stjórnmálum fyrir mörgum árum hafi þetta verið baráttumál. Man ég vel að fyrir þingkosningarnar 1991 var mikil umræða um þessi mál, en áður höfðum við barist fyrir því að fá stóriðju hingað við Dysnes í Eyjafirði ásamt Reyðarfirði en við bæði lotið í lægra haldi fyrir Keilisnesi. Ekkert varð nú af því álveri og það varð aðeins hugmyndin og vonin ein. Undir lok tíunda áratugarins hófst umræða um stóriðju að nýju og þá varð Reyðarfjörður fyrir valinu. Eftir mikinn mótvind lengi vel náðust loks samningar við Alcoa um byggingu álvers þar og þann 15. mars 2003 náðist lokatakmarkið. Sá dagur var sannkallaður sigurdagur þeirra Austfirðinga sem barist höfðu til fjölda ára og jafnvel áratuga fyrir álveri við Reyðarfjörð.
Sögu þessa máls rakti ég alla mjög ítarlega í löngum pistli í nóvember 2004. Fullyrði ég að sú barátta hefði ekki skilað árangri nema vegna baráttuanda Austfirðinga og samstöðu. Fyrir það fyrsta markaðist vegurinn rétta leið af því að sveitarfélög á svæðinu sameinuðust og stofnuð voru samtök Austfirðinga, Afl fyrir Austurland, sem vann að málinu og var sannkallað leiðarljós fólksins í baráttunni og var allt í senn málsvari almennings og baráttuafl þeirra í málinu. Þessi samtök voru ófeimin í baráttunni og leiddu vagninn að mjög miklu leyti. Það besta við þetta félag var einmitt að það var stofnað af fólkinu og málsvari fólksins, að minnsta kosti þess öfluga meirihluta Austfirðinga sem studdi álver og virkjun á Austfjörðum og vildi byggja upp stóriðju til að tryggja undirstöður mannlífs þar af krafti. Þótt ótrúlegt megi virðast var engin samstaða um þessa uppbyggingu. Listaspírur á höfuðborgarsvæðinu og afdalakommar víðsvegar um landið og á Austfjörðum auðvitað barðist hatrammlega gegn þessari hugmynd. Sigur vannst að lokum - uppbyggingin á Austfjörðum nú er vonandi góð lexía fyrir þá sem börðust gegn þessari hugmynd.
Ég er stuðningsmaður þess að stóriðja komi hingað í fjórðunginn. Ég vil helst að þessi stóriðja rísi við Dysnes hér í firðinum. Lykilatriði er þó að hún komi í fjórðunginn. Ég hef aldrei farið leynt með þessa skoðun mína og ég veit sem er að við erum mörg hér á svæðinu sem styðjum þessa hugmynd. Nú er komið að okkur að taka til okkar ráða, bindast samtökum og tjá okkar skoðun af krafti og á réttum vettvangi. Við fetum í fótspor Austfirðinganna og stofnum samtök utan um þessa hugmynd og ætlum okkur að tala af krafti í málinu. Í gærkvöldi voru þessi samtök stofnuð á fundi á Hótel KEA. Aðalsalur Hótelsins var sneisafullur tíu mínútum fyrir fundinn og er fundurinn hófst var hvert sæti skipað. Þessi fundur var mjög gagnlegur. Hann hófst með ávarpi fundarstjóra, Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra. Að því loknu tóku við ítarleg erindi um málið. Meðal þeirra sem töluðu voru, Ásgeir Magnússon forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins, sem fór yfir grunnpunkta málsins, Einar Rafn Haraldsson kynnti starf Afls fyrir Austurland á sínum tíma, Smári Geirsson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sem kynnti stöðu mála fyrir austan með öflugum hætti, Magnús Þór Ásgeirsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, sem fjallaði um ávinning stóriðju fyrir fjórðunginn, og Bjarni Már Gylfason hagfræðingur, er fór yfir efnahagslegar staðreyndir um álver á Íslandi.
Fundinum lauk með því að stofnfélagar fundarins sem höfðu skráð sig mörkuðu stefnu félagsins og kusu því tíu manna stjórn. Við blasir að tilgangur félagsins verði að stuðla að uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi og að vatns- og gufuafl á Norðurlandi verði nýtt og beislað í því skyni. Félagið leggur höfuðáherslu á að kynna kosti Eyjafjarðar sem heppilegs staðar fyrir stóriðju. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að standa fyrir opinni umræðu um málið og með útgáfu á kynningarefni. Eins og við vitum vel er hér í fjórðungnum mikið af óbeislaðri orku, bæði í fallvötnum og í jarðvarma. Mun það því auðvitað verða meginstefna þessa nýja félags okkar sem styðjum stóriðjuhugmyndir hér að beita sér fyrir því að þessi orka verði beisluð og nýtt til eflingar atvinnulífs. Á stofndegi þessara samtaka okkar bárust svo þær gleðilegu fréttir að álfyrirtækið Alcoa hefði lýst yfir áhuga á að byggja álver á Norðurlandi og hefur sent stjórnvöldum formlegt erindi þessa efnis. Nú er komið að okkur að berjast fyrir því að næsta álver komi til sögunnar hér fyrir norðan og nú höfum við þann vettvang til baráttunnar sem okkur hefur skort.
Ég hlakka til þess að taka þátt í starfi þessara samtaka og mun stoltur síðar meir verða af því að vera stofnfélagi í þeim. Spennandi tímar eru framundan í þessu máli!
Í gær flutti Elísabet II Englandsdrottning, stefnuræðu ríkisstjórnar Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, við hátíðlega athöfn í breska þinginu. Samhliða þessu var breska þingið, sem kjörið var í þingkosningunum þann 5. maí sl, sett formlega við hátíðlega athöfn í þinghúsinu í Westminster. Það er gömul hefð að þjóðhöfðinginn komi til þinghússins í hestvagni og sé í fullum skrúða og með kórónu á höfði. Við komuna þangað flytur hann ræðu samda af forsætisráðherranum og ríkisstjórninni þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er kynnt ítarlega. Þingsetningin fer öll fram eftir gömlum hefðum og venjum og hefur lítið breyst seinustu aldir. Í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar kemur fram hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir á næstu mánuðum og á kjörtímabilinu. Eftir þrennar kosningar og átta ár við stjórnvölinn vekur óneitanlega mesta athygli er farið er yfir ræðuna að enn er rætt um lykilstefnumál Verkamannaflokksins frá árinu 1997 í stefnumótuninni. Það er því verið að endurvinna margt enn einu sinni.
Virðing (Respect) er að segja má lykilorð þessarar ræðu. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að auka virðingu innan samfélagsins á þriðja kjörtímabilinu undir forystu sinni og ætlar að leggja til atlögu með miklum krafti gegn glæpastarfsemi og óspektir. Endurbætur á samfélagsþjónustu eru framarlega á stefnuskránni. Þar stendur hæst ný gerð persónuskilríkja, ný viðurlög við trúarníði eða hvatningu til þess og ítrekað er að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram um stjórnarskrá Evrópusambandsins á næsta ári, eins og áður hafði verið lofað af forsætisráðherranum. Einnig kom fram að ríkisstjórnin vill að öllu leyti banna reykingar á mörgum opinberum stöðum, hún vill grípa til forvarna gegn sjúkdómum sem kalla á sjúkrahússinnlögn og styrkja skólakerfið til muna. Segja má að fyndnast af öllu við þessa ræðu sé að forsætisráðherrann noti Respect sem leiðarljós og meginstef. Eins og flestir vita bauð George Galloway fyrrum þingmaður Verkamannaflokksins í Skotlandi, sig fram gegn hinni þeldökku Oonu King í Bethnal Green og náði að fella þessa stuðningskonu Blair-stjórnarinnar af þingi og hefndi fyrir það að hann var rekinn úr flokknum vegna Íraksmálsins. Hann gagnrýndi Blair mjög og notaði sem meginkosningaslagorð orðið Respect. Mikil kaldhæðni í þessu hjá Blair að nota þetta slagorð nú.
Í gær var áratugur liðinn frá því að Jacques Chirac tók formlega við embætti forseta Frakklands. Chirac hefur til fjölda ára verið einn litríkasti stjórnmálamaður Frakklands og verið mikið í sviðsljósinu. Hann var leiðtogi franska Gaullistaflokksins til fjölda ára og leiddi starf hans af miklum krafti. Hann var forsætisráðherra Frakklands tvívegis: í fyrra skiptið 1974-1976 og aftur 1986-1988. Hann var borgarstjóri í París í tæpa tvo áratugi, frá árinu 1977 og gegndi embætti allt til ársins 1995 er hann var kjörinn forseti. Hann var borgarstjóri samhliða forsætisráðherraembættinu í tvö ár á níunda áratugnum en lét af því embætti eftir að hann beið lægri hlut í forsetakosningum árið 1988 fyrir François Mitterrand. Var það ekki í fyrsta skiptið sem hann gaf kost á sér, hann hafði áður verið í framboði 1981 og tapað þá áður fyrir Mitterrand. Hann gaf kost á sér til embættisins þriðja sinni árið 1995 og var kjörinn í kosningunum sem fram fóru 7. maí og tók hann við embætti 17. maí 1995 og hefur því setið í áratug á valdastóli. Í kosningunum 1995 sigraði hann Lionel Jospin. Eftir óvæntar þingkosningar 1997 sem Chirac boðaði til, til að styrkja hægristjórn sína komst Jospin til valda, þvert á stefnuna framan af. Neyddist Chirac til að deila völdum með Jospin í fimm ár.
Í forsetakosningunum 2002 áttust þeir aftur við en þá datt Jospin út í fyrri umferð öllum að óvörum, en þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen komst áfram í seinni umferðina. Pólitískum ferli Jospin lauk því með dramatískum hætti, ekki alveg með þeim takti sem hann hafði átt von á. Chirac var endurkjörinn forseti í seinni umferðinni og vann Le Pen með miklum yfirburðum. Ef marka má orðróminn er búist við að Chirac dragi sig í hlé árið 2007 er seinna tímabilinu lýkur. Kjörtímabil forseta er nú fimm ár í stað sjö áður og styttist því óðum í forsetakosningar. Hann er 73 ára gamall og því vart búist við að hann fari fram eftir tvö ár til annars fimm ára kjörtímabils. Menn tala almennt um að Nicholas Sarkozy fyrrum ráðherra, fari þá fram og benda kannanir til þess að hann yrði kjörinn forseti færi hann fram. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Ljóst er að Chirac er á krossgötum og enginn vafi að væntanleg kosning um stjórnarskrá ESB þann 29. maí ræður miklu um pólitíska framtíð hans. Ljóst má vera að Chirac reyni allt þessa dagana til að fá Frakka til að styðja stjórnarskrána. Er ekki laust við að vakni upp sú tilhugsun að hann sé í sömu sporum og forveri hans var 1992 í Maastricht-málinu.
Í dag eru 85 ár liðin frá fæðingu Jóhannesar Páls II páfa. Hann lést fyrr á þessu ári eftir að hafa verið trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar í tæp 27 ár. Hann var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og sat á páfastóli allt til dauðadags, 2. apríl 2005. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Píus IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli VI og varð með því einn af forystumönnum Vatikansins. Hann var svo kjörinn páfi ellefu árum síðar. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Við andlát hans í síðasta mánuði skrifaði ég ítarlegan pistil um ævi Jóhannesar Páls II og feril hans.
Líf kanadísku ríkisstjórnarinnar hefur hangið á bláþræði seinustu vikur, en hún hefur í raun verið minnihlutastjórn allt frá þingkosningunum í landinu í júní í fyrra. Eftir að þingið samþykkti ekki stuðningsyfirlýsingu við stjórnina í síðustu viku hefur þinghald verið í gíslingu. Hægrimenn í þinginu og aðrir flokkar á þinginu tóku yfir stjórn þess og samþykktu að ljúka þingfundum og kröfðust að boðuð yrði kosning um traust til stjórnarinnar samhliða kosningu um fjárlagafrumvarp stjórnarinnar á fimmtudag. Hefur Paul Martin forsætisráðherra og leiðtogi Frjálslynda flokksins, samþykkt það. Blasað hefur við að stjórnin myndi falla þar, þó naumt sé vissulega á munum. Í gær urðu svo þau stórtíðindi að Belinda Stronach sem er einn virtasti þingmaður Íhaldsflokksins, hafi sagt sig úr flokknum og gengið til liðs við frjálslynda. Belinda tapaði leiðtogaslag í flokknum í fyrra fyrir Stephen Harper og hefur síðan verið í órólegu deildinni innan flokksins. Telja má nær öruggt að þessi vistaskipti hennar muni bjarga ríkisstjórninni frá falli. Hefur Martin launað henni stuðninginn með því að skipa hana í embætti þróunarmálaráðherra. Stronach er 39 ára gömul og hefur lengi verið talin meðal efnilegustu stjórnmálamanna Kanada og hefur hún löngum vakið athygli fyrir afdráttarlausa framkomu og að vera einn öflugasti forystumaður stjórnarandstöðunnar. Fullyrða má að vistaskipti hennar muni styrkja Frjálslynda flokkinn til muna.
Í dag er mánuður liðinn frá því að frænka mín, Hugrún Stefánsdóttir, var jarðsungin frá Akureyrarkirkju. Þann dag birtist minningargrein eftir mig um hana í Morgunblaðinu, sem ég hef nú sett inn á heimasíðu mína. Hugrún frænka var mér alla tíð mjög kær. Allt frá því ég man eftir mér hefur hún verið stór hluti minnar tilveru, eða okkar í fjölskyldunni. Hún var elst barna langafa og langömmu, Stefáns Jónassonar útgerðarmanns og skipstjóra hér á Akureyri, og eiginkonu hans, Gíslínu Friðriksdóttur. Segja má að tengslin milli hennar, Hönnu ömmu minnar og Kristjáns bróður þeirra hafi haldið í gegnum þykkt og þunnt. Þau voru og hafa alla tíð verið ótrúlega samhent. Ég held að ég eigi aldrei eftir að kynnast samhentari systkinum. Amma, Huja og Benni maður hennar og Kiddi frændi og Stína kona hans voru alla tíð sem eitt.
Fjölskyldan mín sem jafnan er kennd við æskuheimili ömmu að Strandgötu 43 er og hefur alla tíð verið mjög samhent og þar skipta fjölskylduböndin öllu máli. Hugrún frænka var samnefnari fjölskyldunnar alla tíð að mínu mati, hún var alltaf til staðar. Það framlag hennar fyrir mig og okkur öll skiptir mig miklu máli og það gleymist mér aldrei. Nær alla ævi sína var hún heilsuhraust og kraftmikil, alltaf forystukona í félags-, trúar- og menningarstarfi. Seinustu þrjú árin barðist hún við hinn óvægna Alzheimer-sjúkdóm. Það var mér sárt að horfa á þessa öflugu konu hverfa inn í móðu þessa sjúkdóms og glata í senn reisn sinni og glæsileika. En dauðinn er ekki verstur þegar svo er komið. Þá er hann lausn frá lífi sem er ekki lengur þess virði að lifa því. En eftir standa minningar, sem gleymast ekki. Eins og einn mætur maður sagði getur fólk dáið en minningar ekki.
Saga dagsins
1804 Napoleon Bonaparte skipaður keisari í Frakklandi af franska þinginu - hann ríkti í landinu með hléum allt til ársins 1815, er hann tapaði völdum í kjölfar frægrar orrustu við Waterloo. Hann lést í útlegð á eyjunni St. Helenu árið 1821. Saga Napóleon er goðsagnakennd, þrátt fyrir ólán undir lokin
1920 Jóhannes Páll II páfi fæðist í Wadowice í Póllandi - hann sat á páfastóli í 27 ár, allt frá árinu 1978 til dauðadags, 2. apríl 2005 - aðeins 2 páfar sátu lengur sem trúarleiðtogar kaþólskra en hann
1933 Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna, undirritar hinn víðþekkta New Deal samning
1985 Dagur ljóðsins var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti að frumkvæði Rithöfundasambands Íslands
2000 Nýtt hafrannsóknaskip, Árni Friðriksson, kom til landsins - smíðað í Chile og var 70 metra langt
Snjallyrðið
No one would remember the Good Samaritan if he'd only had good intentions - he had money, too, of course.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
<< Heim