Það blasir við flestöllum eftir úrslit þingkosninganna í Bretlandi í síðustu viku að pólitísk staða og valdarými Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur rýrnað til muna. Þetta er að koma sífellt betur í ljós þessa dagana. Þannig er nú mál með vexti að í ítarlegum pistli mínum á föstudag um úrslitin fjallaði ég ítarlega um þessa breyttu stöðu og að forsætisráðherranum myndi reynast erfitt að hafa stjórn á mannskapnum, einkum andstöðuöflunum á síðasta kjörtímabili og halda völdunum með sama hætti og áður. Strax á föstudag fékk ég tölvupóst frá krata í íslenska flokkalitrófinu þar sem reynt var í löngu máli að hnekkja skrifum mínum og koma með punkta í þá átt að þetta væri nú ekki rétt hjá mér. Þar var sagt að sigur Blair væri nokkur og forysta hans biði ekki skaða af naumari meirihluta og breyttum forsendum. Í svari til baka endurtók ég fyrri skrif og minnti á grunnpunkta alls málsins. Þeir eru skýrir og tala sínu mál alveg vel. Það þarf svosem ekki mig til að sýna fram á stöðu mála, en ég skal fúslega segja þá aftur og aftur við kratana ef þeim er það ómögulegt að sjá ljósið við enda ganganna.
Um helgina hefur allt sem ég sagði er ég greindi úrslitin á föstudag verið staðfest með afgerandi hætti. Ekki af mér (það virðist ekki þurfa pólitíska andstæðinga kratanna til að tjá staðreyndir málsins) heldur þingmönnum breska Verkamannaflokksins sjálfum. Það þarf ekki aðra en andstöðuöflin innan Verkamannaflokksins, sem hafa setið á sér í kosningabaráttu seinustu vikna, til að tjá stöðu mála. Aðeins þrem dögum eftir kosningasigur Verkamannaflokksins komu nefnilega lykilforystumenn þessa óánægjuhóps innan flokksins í fjölmiðla og tjáðu sig. Þeir vilja að Blair víki af valdastóli eins fljótt og auðið má vera og að Gordon Brown verði færð völdin. Það er einfaldlega strax allt að sjóða upp úr milli forsætisráðherrans og óánægjuaflanna sem nú hefur í ljósi rýrnandi meirihluta í breska þinginu, örlög forsætisráðherrans að mestu í höndum sér og getur ráðið í raun stefnumótun hans og forystu næstu árin. Það þarf jú ekki nema 35-40 þingmenn kratanna að leggjast á sveif með minnihlutanum til að allt sé komið í gíslingu hjá Blair með að ná málum í gegn. Enda nú koma þau öll fram í fjölmiðlum, t.d. þau Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra, Frank Dobson fyrrum heilbrigðisráðherra, Clare Short fyrrum þróunarmálaráðherra, og þingmennirnir John Austin og Jeremy Corbyn, og öll eiga þau það sameiginlegt að geta nú minnt á sig og andstöðuna og tala nú bara hreint út. Staða Blairs er orðin mjög veik og á ekki eftir að batna auðvitað.
Blair þegir gagnrýnina af sér en hefur sent nokkra ráðherra út af örkinni til að verja sig. Nægir þar að nefna David Blunkett, sem nú hefur verið endurskipaður í stjórnina. Svo talaði í dag Alastair Campbell einn helsti spunameistari Blair, og sagði að forsætisráðherrann ætlaði sér að sitja út kjörtímabilið. En hvað svo sem segja má um þessa gæðinga Blair sem nú stíga fram til að verja hann, má öllum vera ljóst hversu staða hans hefur breyst. Það sást strax á kosninganótt og staðfestist enn þessa seinustu daga þegar þeir sem eiga harma að hefna gegn Blair snúa aftur fram á sviðið og minna á sig og andstöðu sína og það sem meira er afl sitt í baráttunni. Þau hafa nefnilega núna þann slagkraft sem þeim hefur skort til að höggva í Blair og veikja hann endanlega. Við eigum eftir að sjá svona sundrungu og óánægju koma fram oftar fram í umræðuna en verið hefur og með mun óvægnari hætti. Nú er rætt um það í innsta hring Blair að hann ætli sér að víkja árið 2008. Hann ætli að tilkynna afsögn í júlí það ár, en nýr leiðtogi verði svo kjörinn undir lok ársins. Er talað um að miða valdaskiptin í desember 2008. Varla er það tilviljun, en ef Blair situr enn í embætti þann 26. nóvember 2008 slær hann met Margaret Thatcher. Að því stefnir hann vissulega - en nær hann því? Það ræðst væntanlega brátt.
Tæpur hálfur mánuður er nú í landsfund Samfylkingarinnar. Laugardaginn 21. maí nk. verður formlega tilkynnt hvort að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eða Össur Skarphéðinsson verði formaður Samfylkingarinnar næstu tvö árin. Eins og vel hefur sést seinustu vikurnar hefur verið mikil ólga og læti í slagnum og harkalega barist um hylli flokksmanna. Verður merkilegt að fylgjast með þessum slag seinustu dagana og ekki síður að honum loknum, hvort eftirmálar verði og ólga með úrslitin er þau liggja fyrir. Ekki er þó hægt að segja annað en að frambjóðendurnir hafi á að skipa öflugri hirð í kringum sig sem skrifar í blöðin og dekkar hverja síðuna á fætur annarri, t.d. í Mogganum. Svo er merkilegt að líta á vef annars frambjóðandans og skrif þar um hana. Lofið flýtur þar yfir svo mörgum þykir nóg um.
Mér fannst eiginlega fyndnast að sjá skrif Elínar G. Ólafsdóttur um daginn þar sem hún allt að því nefnir Guð og Ingibjörgu á nafn í sömu andrá. Þessi persónudýrkun eins og sést í herbúðum ISG er með ólíkindum. Þetta kemur skemmtilega fyrir í ljósi þess að vinstrimennirnir hafa sakað okkur í Sjálfstæðisflokknum um óeðlilega persónudýrkun. Væri eflaust vel við hæfi að Samfylkingarfólkið liti í eigin barm áður en þeir saka okkur sjálfstæðismenn framar um persónudýrkun eftir skrif seinustu vikna. Fyndnast af öllu lofinu fannst mér skrif Jóns Björnssonar fyrrum félagsmálastjóra hér á Akureyri og síðar í Reykjavíkurborg. Hann segir svo á vef ISG: "Ég vann með Ingibjörgu Sólrúnu í fimm ár og hef ekki lent í öðru eins. Hún er sprettharðari en hrygna, víðsýnni en haförn og þolnari en hreindýr. Hún hefur mörg hundruð gígabæta minni. Veikleikar hennar eru bæði fáir og ómerkilegir. Svo er hún skynsöm, réttsýn og heiðarleg og tekur örugglega ekki nema í mesta lagi eitt feilspor á ævinni. Hún á að stjórna Samfylkingunni, Íslandi og helst allri Evrópu - ekki spurning." Þvílíkt lof, það er eiginlega svo að eftir lestur þessara skrifa er rétt að hlæja vel og innilega. Það voru allavega mín viðbrögð fyrst við þessu.
Er svo orðið komið að vefur ISG með orðum stuðningsmanna hennar er farið að minna mig á veisluhald þar sem maður situr til borðs með rjómatertusneið sem vellur yfir af rjóma: semsagt fullmikið af hinu góða. Greinilegt er að skjallið og oflofið um ISG eru farin að virka öðruvísi á almenning. Fólk sér að þar er talað um manneskju með svo fögrum hætti að það hvarflar að fólki að glansmyndin sé sett fram til að hylja sprungur og veikleika á öðrum sviðum. Altént er skjallið gríðarlegt og þessi skrif Jóns Björnssonar hafa valdið meiri hlátri meðal almennra stjórnmálaspekúlanta en margt annað sem sagt hefur verið og ritað um þennan slag. Þessi skrif eru bara fyndin, enda eru svo kostuleg að nær öllu leyti. Enda er það svo að of mikið skjall getur endað sem háð eða húmorískur brandari. Eða hvað finnst þér um þessi skrif Jóns, lesandi góður? Eru þau ekki kaldhæðni af bestu sort eða skjall sem minnir mann á grínfarsa sem er svo fyndinn að það er ekki annað hægt en að skella uppúr?
Hætt hefur verið við að afgreiða frumvarp menntamálaráðherra til laga um Ríkisútvarpið fyrir sumarleyfi þingsins. Jafnframt verður hætt við lagasetningu nýrra vatnalaga en hinsvegar verða ný samkeppnislög afgreidd fyrir þinglok í þessari viku. Fagna ég því mjög að ætlunin sé að salta frumvarp um RÚV fram á haustið. Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum þann 20. mars tel ég sem hægrisinnaður einstaklingur þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verður að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að leggja fram frumvarp á sínum vegum sem styrkir enn frekar grundvöll RÚV og það sem það byggir á. Það er full þörf á að stöðva málið og íhuga grunn þess betur og síðast en ekki síst ræða það samhliða lagasetningu um eignarhald fjölmiðla. Þetta tvennt er samtengd að verulegu leyti og á að vinnast saman. Var það auðvitað ólíðandi að RÚV hafi verið undir sérhatti í vinnsluferli málsins. En það er vonandi að menn liggi vel yfir þessum málum í sumar og geri eitthvað róttækt í málum RÚV þá, eitthvað annað en lagt er til í þessu framsóknarglúrna frumvarpi menntamálaráðherrans.
Ég horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Thirteen Days. Það er pólitísk úrvalsmynd eins og þær gerast bestar, byggð á raunverulegum atburðum og fjallar um þrettán sögulega daga í októbermánuði 1962 er alheimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar. Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 náðu Bandaríkín og Sovétríkin ekki samkomulagi sín á milli um það hvernig ætti að ganga frá málefnum heimsins sem var í sárum eftir hið langa og mannskæða stríð. Fór svo að það skall á heiftúðug milliríkjadeila milli þessara stórvelda, hið svokallaða kalda stríð sem helgaðist af því að ríkin gripu ekki til vopna gegn hvoru öðru. Þessi saga gerist eins og fyrr segir í október 1962 en þá var kalda stríðið í hámarki. Bæði Bandaríkin og Sovétríkin höfðu þá vígbúist af kappi og reyndu ákaft að fylgjast með öllu því sem hinn aðilinn gerði. Njósnir urðu sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi ríkjanna og þegar bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu (sem var hertekin af kommúnistanum Fidel Castro árið 1959) ætlar allt um koll að keyra því þeim er beint að Bandaríkjunum, vöggu kapitalismans í heiminum.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, er á báðum áttum um hvað eigi að gera í málinu en ákvörðunin um næstu aðgerðir er hans, enda er forseti Bandaríkjanna einn valdamesti maður heims. Hershöfðingarnir vilja að forsetinn heimili að ráðist verði tafarlaust inn í Kúbu og eyjan verði hertekin með valdi, en það gæti þýtt hörð viðbrögð Sovétmanna og endað í heljarinnar kjarnorkustyrjöld stórveldanna. Ef Kennedy forseti aðhefst ekkert í málinu er hins vegar sá möguleiki vel fyrir hendi að stór hluti þjóðarinnar yrði þurrkaður út á einu augnabliki. Líf milljóna jarðarbúa eru þannig sett á herðar Kennedys Bandaríkjaforseta og fylgjumst við gaumgæfilega með 13 magnþrungnum dögum í lífi John Fitzgerald Kennedy forseta og ráðgjafa hans, sem reyna að komast að þeirri niðurstöðu sem bjargar mannkyninu frá eilífri glötun. Hörkuvel leikin og vönduð úrvalsmynd leikstjórans Roger Donaldson sem segir meistaralega frá þessum magnþrungnu dögum í mannkynssögunni sem voru áhrifamiklir bæði fyrir forsetatíð Kennedys og ekki síst heimsbyggðina alla. Þessa verða allir með snefil af pólitískum áhuga að sjá.
Skemmtiþáttur Gísla Marteins Baldurssonar, Laugardagskvöld, var á dagskrá Sjónvarpsins í síðasta skipti um helgina. Eftir 110 þætti á þriggja ára tímabili var komið að leiðarlokum þáttarins. Hefur Gísli í þáttunum rætt við rúmlega þúsund manns og þangað hafa komið vinsælustu tónlistarmenn landsins og skemmt þjóðinni. Segja má með sanni að þátturinn hafi sameinað þjóðina, en þegar mest var horfðu rúm 70% landsmanna á þáttinn á laugardagskvöldi. Margir hápunktar í ferli þáttanna standa uppúr þegar hann hættir göngu sinni. Persónulega fannst mér besta viðtalið í þeim vera opinskátt viðtal Gísla Marteins við Davíð Oddsson í nóvember, þar sem þeir ræddu um veikindi Davíðs á síðasta ári og breytingar á persónulegum högum hans samhliða forsætisráðherraskiptum nokkrum vikum áður. Það var virkilega gott viðtal. Svo er ofarlega í huga viðtal Gísla Marteins í september við Önnu Pálínu Árnadóttur söngkonu, sem lést örfáum vikum síðar úr krabbameini, langt um aldur fram. Margt fleira mætti nefna af löngum ferli þáttanna sem verið hafa flaggskip Sjónvarpsins. Mun Gísli hafa í hyggju nú að snúa sér að fullu að stjórnmálaþátttöku í borginni, enda kosningar á næsta ári. Vona ég að honum muni ganga vel á nýjum vettvangi.
Í dag var haldin minningarathöfn í Moskvu til að minnast þess að sex áratugir eru liðnir frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar komu saman rúmlega 60 þjóðarleiðtogar og var fulltrúi Íslands við athöfnina Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Að athöfninni lokinni var haldið móttaka í Kreml þar sem hann hitti því flesta af helstu leiðtogum heims. Meðal þeirra voru Vladimir Putin forseti Rússlands, George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, Jacques Chirac forseti Frakklands og Junichiro Koizumi forsætisráðherra Japans. Mun Halldór þar hafa rætt við Bush forseta og kom þar fram að sögn Halldórs að Bush hefði á leið sinni til athafnarinnar flogið yfir Ísland og hann séð vel til landsins. Bush mun hafa tjáð Halldóri ennfremur að hann væri að lesa kanadíska bók um sögu þorsksins, þar sem m.a. er greint frá þorskastríðum Íslendinga og Breta til fjölda ára á 20. öld. Merkilegt það. Hér fyrir ofan er skrautleg mynd frá því er leiðtogarnir hittust á NATÓ fundinum í febrúar.
Saga dagsins
1593 Skjaldarmerki með afhöfðuðum þorsk með kórónu var formlega tekið í notkun - notað til 1903
1855 Friðrik VII Danakonungur gefur út formlega tilskipun sem lögleiðir að fullu prentfrelsi á Íslandi
1955 Vestur Þýskaland gengur formlega í NATÓ - tíu árum eftir endalok síðari heimsstyrjaldarinnar
1974 Sverrir Hermannsson talaði samfellt í rúma fimm tíma á þingi - það met var í gildi allt til 1998
1978 Aldo Moro fv. forsætisráðherra Ítalíu, finnst látinn í sendiferðabíl í Róm - honum hafði verið rænt nokkrum vikum áður af öfgasamtökum vinstrimanna og haldið í gíslingu. Hann var þá 61 árs
Snjallyrðið
Nú næðir vindur og nóttin kemur
og nú er friður í hjarta þér,
þú átt að vita það öðru fremur
að englar Drottins, þeir vaka hér.
Úti vindurinn vex og dvínar,
hann vekur öldur við kalda strönd
og ber um himininn bænir þínar
þær berast áfram um draumalönd.
Á meðan birta í brjósti lifir
þá bið ég Guð minn að vernda þig,
ég bið um ást fyrir allt sem lifir
og englar Drottins, þeir styðja mig.
Í myrkri finnur þú máttinn dofna
á meðan vindur um landið fer.
Þín augu lokast, þú ert að sofna
og englar Drottins, þeir fylgja þér.
Þorvaldur Friðriksson (1923-1996) (Englar Drottins vaki)
<< Heim