Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 maí 2005

Michael HowardHeitast í umræðunni
Þingkosningar verða í Bretlandi eftir tvo sólarhringa, á fimmtudag. Allar skoðanakannanir benda enn til öruggs sigurs Verkamannaflokksins. Það sem vekur þó mikla athygli nú á lokasprettinum er að fjöldi óákveðinna hefur aukist mjög. Rúm 30% segjast í einni könnun dagsins vera óákveðin og svipað hlutfall er í þeim fleiri. Ljóst er að flokksleiðtogarnir reyna allt til að heilla almenning og hafa áhrif á afstöðu þeirra í kosningunum þessa dagana. Þeir eru á ferð og flugi um landið og ræða við almenning og læta taka af sér myndir í hinum ýmsu stellingum. Mikla athygli vakti í gær þegar Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, fór í strætó og ræddi við fólk, hljóp með kosningableðla í hús í hverfi í Manchester og setti í bréfalúgur og bankaði upp á hjá fólki. Ennfremur vakti mikla athygli að hann ferðaðist stóran hluta gærdagsins í laxableikri skyrtu, með efstu töluna fráhneppta og var bindislaus. Það er greinilega margt reynt þessa dagana til að breyta ímyndinni. Löngum hefur þótt helsti akkilesarhæll hans, hvað hann hefur verið litlaus og kuldalegur og eru ímyndaspekúlantarnir greinilega að vinna með að breyta frambjóðandanum og það með einbeittum hætti.

Óneitanlega fannst mörgum skondið að sjá leiðtogann í laxableikri skyrtu og hlaupandi með kosningabæklinga í hús. Ekki síður fannst mörgum það allkostulegt að sjá Tony Blair leiðtoga Verkamannaflokksins, í mannþvögu í verslun að skoða farsíma með Gordon Brown og kaupa sér ís með flokksfélögum að loknum útifundi í miðborg Sheffield. Það er eitthvað sem veldur því að ég fæ mikið hláturskast þegar ég sé þá félaga Brown og Blair saman á kosningarúntinum. Það er óneitanlega húmorískt að sjá þessa tvo kappa orðna svona kammó og vinalega og reyna að brosa í takt saman. Það að þeir tveir ferðist saman nærri því um allt eru eins og ég sagði í gær tíðindi kosningabaráttunnar. Það sýnir okkur ljóslega að Blair er ekki lengur meginfókus flokksins og að Brown er svona seldur með. Eða eins og einn gárunginn sagði í gær á breskum vef: Vote Mr. Blair - Get Mr. Brown!. Þannig er þetta. Annars má ekki gleyma þriðja flokksleiðtoganum, Charles Kennedy. Hann er á fullu um allt og vakti athygli í gær með því að fara á krá með Greg Dyke fyrrum forstjóra BBC, og halda þar blaðamannafund. Þar gagnrýndu þeir harkalega báðir Blair og stjórn hans. Kennedy hefur seinustu vikur vakið mesta athygli fyrir að hafa nýlega eignast sitt fyrsta barn og hefur flokkurinn notað það óspart í baráttu sinni. En kosningabaráttan er semsagt á fullum swing og nóg um að vera, þó auðvitað blasi við af könnunum að spurningin sé um hversu stór þingmeirihluti kratanna verði næstu árin. En það má þó ekki gleyma því að allt getur gerst og svo gæti farið að Blair vinni, en verði í spennitreyju órólegu deildar flokksins á næstunni.

Eiður Smári GuðjohnsenEiður Smári Guðjohnsen varð um síðustu helgi Englandsmeistari í knattspyrnu með liði sínu, Chelsea. Var það glæsilegur árangur hjá honum og hans liði. Enginn vafi leikur á að Chelsea hefur spilað glæsilean bolta á þessari leiktíð og ættu allir knattspyrnuáhugamenn að geta tekið undir það að þeir eiga titilinn skilið. Þó að ég hafi alla tíð haldið með öðru liði samgleðst ég með Eið og hans félögum í Chelsea. Titillinn er þeirra og er það einfaldlega verðskuldað. Eiður hefur átt glæsilegan feril síðasta árið og var það auðvitað endanlega staðfest í desembermánuði í fyrra er hann hlaut titilinn íþróttamaður ársins 2004. Hann var fyrsti knattspyrnumaðurinn sem hlaut titilinn í 17 ár, eða frá því að faðir hans, Arnór Guðjohnsen, hlaut þennan titil.

Eiður átti mjög gott ár í fyrra með Chelsea og mörk hans áttu þátt í því að liðið hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni 2004 og að það komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Titillinn núna er svo auðvitað toppurinn á ferli þessa frábæra knattspyrnumanns. Hann hefur verið yfirburðamaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins í undankeppni EM. Eiður Smári var fimmti knattspyrnumaðurinn sem hlaut titil íþróttamanns ársins, en áður höfðu auk Arnórs og Eiðs hlotið titilinn þeir Ásgeir Sigurvinsson (tvisvar), Guðni Kjartansson og Jóhannes Eðvaldsson. Það verður gaman að fylgjast með Chelsea og Eiði Smára næstu vikurnar, sérstaklega núna í Meistaradeildinni þessa dagana og hvort þeir nái að hampa titlinum þar að þessu sinni.

Punktar dagsins
Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú

Eins og ég sagði frá í gær hefur heimasíða forsetaembættisins nú loksins opnað. Er ekki hægt að segja annað en að vefurinn sé allur hinn glæsilegasti. Gleymdi ég mér gjörsamlega seint í gærkvöldi eftir fund og spjall við góðan vin við að skoða vefinn, líta á myndasöfnin og æviágrip forseta lýðveldisins í gegnum tíðina og ýmsan fróðleik sem þarna er. Gaman er að lesa gömul nýársávörp fyrri forseta, innsetningarræður þeirra og margt fleira fróðlegt sem þarna er. Hafa nú verið settar þarna inn flestar ræður núverandi forseta frá því að hann tók við embætti fyrir tæpum áratug. Jafnframt er gaman að líta þarna á upplýsingar um fálkaorðuna, sögu Bessastaða, fánans og margs fleira. Vefurinn er semsagt í alla staði góður og veglegur. Mikið til hans vandað. Sérstaklega hafði ég gaman af að skoða myndasafn og æviágrip frænda míns, dr. Kristjáns Eldjárns, sem var þriðji forseti lýðveldisins og sat á forsetastóli í tólf ár. Það var kominn tími til að æviágrip hans og ekki síður myndir af þessum merka manni væru aðgengilegar á netinu. Hvorugt var þar að finna áður.

Þegar forsetaferill núverandi forseta verður rakinn síðar meir mun vonandi aldrei gleymast framlag Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, fyrri konu hans, sem var forsetafrú fyrstu tvö ár forsetaferils hans, en hún lést úr hvítblæði, í Bandaríkjunum, haustið 1998. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Guðrún hafi verið sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún kom, sá og sigraði. Framlag hennar í sigrinum þá var mikill og hún markaði sér spor í sögu þessa embættis, þó hennar nyti við alltof skamma stund. Ég gleymi aldrei þegar Guðrún kom hingað á listaviðburð í apríl 1998, skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana því miður að velli síðar sama ár. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu.

Dalvík

Allt virðist loga þessa dagana í ólgu og látum í Dalvíkurbyggð. Lætin krauma undir vegna ákvörðunar bæjarstjórnarinnar þar um að loka Húsabakkaskóla, sveitaskólanum í Svarfaðardal. Vegna þess gengur nú undirskriftalisti um Svarfaðardal, þess efnis um að hvetja til þess að slitin verði tengslin milli dalsins og Dalvíkurbyggðar. Sveitarfélagið var stofnað með sameiningu Dalvíkurbæjar, Árskógshrepps og Svarfaðardals árið 1998. Það er vel skiljanlegt að sú ákvörðun um að loka skólanum sé erfið fólki í sveitinni þarna út með firði. En sú ákvörðun var nauðsynleg. Staða sveitarfélagsins er með þeim hætti að fólk verður að horfa framan í stöðuna þar, en getur ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það voru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal. Á það ber að minnast að 6 kílómetrar eru á milli skólanna tveggja sem um ræðir. Þannig að allir sjá hvers eðlis málið er, alltsvo þeir sem vilja sjá það. Komi til sameiningarkosninga hér í firðinum er grunnatriði þess að ég samþykki slíka sameiningu að sveitarfélögin reyni eftir fremsta megni að taka til í fjármálum sínum. Það gera Dalvíkingar núna og það er mikilvægt. Það er skammarlegt fyrir fólk í dalnum að láta eins og það lætur, ég segi það bara hreint út.

Catch Me If You Can

Seint í gærkvöldi var horft á góða kvikmynd. Að þessu sinni var litið á hina mögnuðu mynd Catch Me If You Can, í leikstjórn meistara Steven Spielberg. Frábær mynd þar sem sögð er ótrúleg saga eins snjallasta svikahrapps sögunnar, Frank Abagnale Jr. Hann ólst upp við gott uppeldi foreldra sinna, Paulu og Franks. Við skilnað foreldra sinna tók hann að blekkja alla í kringum sig. Hann strauk að heiman og tókst með eintómum blekkingum að verða t.d. læknir og flugmaður, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í nokkurt nám. Hann giftist meira að segja Brendu, dóttur saksóknara, en Frank varð t.d. aðstoðarmaður hans. Í gegnum þetta allt er hann hundeltur um landið af alríkislögreglumanninum Carl Hanratty. Spennandi eltingaleikur lögreglumannsins á eftir hinum útsmogna Abagnale, tekur á sig margar myndir. Létt og skemmtileg kvikmynd frá Spielberg sem gerir hér mynd sem er gjörólík því sem hann hefur verið að fást við almennt á ferlinum. Úr verður áhugaverð mynd sem allir ættu að hafa gaman af. Leonardo DiCaprio og Tom Hanks eru flottir í aðalhlutverkunum. Senuþjófurinn er þó óskarsverðlaunaleikarinn Christopher Walken sem á sannkallaðan stórleik í hlutverki Franks eldri og hlaut verðskuldaða óskarsverðlaunatilnefningu sem besti aukaleikarinn fyrir vikið. Góð afþreying.

Mótmæli á Akureyri - 29. apríl 2005

Eins og vel hefur komið fram hér á vefnum stóðum við bæjarbúar hér á Akureyri fyrir þögulli mótmælastöðu sl. föstudag gegn ofbeldis- og glæpaþróun hér í bænum. Þangað mættu um 1500 manns og tóku til hendinni og lyftu á loft rauðu dómaraspjaldi - táknræn mótmæli semsagt. Í dag klukkan 17:00 verður borgarafundur í Ketilhúsinu þar sem þessi mál verða áfram rædd. Baráttan heldur áfram og við skulum þar öll koma saman og fara yfir þessi mál - ég hvet því alla Akureyringa til að fara í Ketilhúsið í dag.

Saga dagsins
1943 14 bandarískir hermenn fórust er flugvél fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi, m.a. Frank M. Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjanna - eftirmaður hans varð Dwight D. Eisenhower, síðar forseti
1970 Álver Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík vígt við hátíðlega athöfn af Kristjáni Eldjárn forseta
1979 Bundinn endi á 5 ára valdatíð vinstrimanna á Bretlandi - breskir íhaldsmenn vinna mikinn sigur - Margaret Thatcher verður forsætisráðherra í stað James Callaghan sem setið hafði í embætti í 3 ár
1986 Flugvél er grandað í hryðjuverki Tamíl Tígra á eyjunni Sri Lanka - 21 lætur lífið í hryðjuverkinu
1986 Íslendingar taka í fyrsta skipti þátt í Eurovision-keppninni - lagið Gleðibankinn lendir í 16. sæti

Snjallyrðið
Look at a day when you are supremely satisfied at the end. It's not a day when you lounge around doing nothing; its when you had everything to do, and you've done it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)