Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 maí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um inngöngu Gunnars Örlygssonar í Sjálfstæðisflokkinn en hann hefur nú sagt skilið við Frjálslynda flokkinn, sem hann var kjörinn á þing fyrir í þingkosningunum 2003. Fer ég yfir meginpunkta þess sem leiddi til þess að Gunnar tók þessa ákvörðun og það sem helst stendur eftir í umræðu seinustu daga um átökin um stefnuáherslur Frjálslynda flokksins og deilur milli Gunnars og forystumanna frjálslyndra. Með þessu stækkar því þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og sitja nú því 23 þingmenn af hálfu flokksins. Þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar eykst samhliða þessu, nú styðja 35 þingmenn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í stað 34 áður. Samhliða þessu fækkar auðvitað stjórnarandstöðuþingmönnum og eru þeir nú 28. Greinileg gremja er innan stjórnarandstöðunnar með þann liðsauka sem við sjálfstæðismenn fáum með innkomu Gunnars í Sjálfstæðisflokkinn. Það er svosem varla undrunarefni í ljósi þess að tilfærsla jafnvel eins þingsætis getur haft áhrif á nefndakapalinn er þing kemur saman að nýju í haust. Með þessu auðvitað rýrnar þingflokkur Frjálslynda flokksins um fjórðung og þar eru því þrír þingmenn eftir nú. Þeim munar eflaust um hvert þingsætið á þeim bænum.

- í öðru lagi fjalla ég um væntanlegan landsfund Samfylkingarinnar, en það er nú tæp vika í að úrslit í formannskjöri flokksins verði kynnt formlega. Á ýmsu hefur gengið seinustu daga. Stuðningsmenn formannsefnanna keppast við að tala fyrir sínu formannsefni og baráttan hefur tekið á sig ýmsar myndir seinustu vikur og mánuði í baráttu svilanna fyrir formannsstólnum. Á dögunum spurðist út að framsóknarkonan Helga Jónsdóttir borgarritari, hefði gengið í flokkinn til að styðja ISG, en það mætti hvergi koma fram. Er eiginlega fyndnast við uppljóstrunina um inngöngu Helgu í Samfylkinguna til málamynda til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu að með henni kemur umræða ISG-liða um að verið væri að smala sjálfstæðismönnum í flokkinn til að hygla Össuri að þau hafa gert það sama með því að safna framsóknarmönnum í flokkinn. Er greinilegt að þessi taktík liðsmanna Ingibjargar Sólrúnar og baráttutaktur þeirra hefur tekið snarlega beygju og hætt hefur verið að tala um þessa hluti. Skiljanlega, enda hefur Ingibjörg Sólrún og hennar kosningamiðstöð greinilega smalað til sín fólki úr öðrum flokkum og ekki beitt neinum öðrum aðferðum en Össur og stuðningsmannasveit hans hefur verið sökuð um. Skondið, ekki satt?

- í þriðja lagi fjalla ég um athyglisvert svar utanríkisráðherra á þingi í vikunni sem sannaði með afgerandi hætti það að ESB-sinnar hafa vaðið mjög í staðreyndavillum lengi vel til að reyna að tala fyrir aðild að reglugerðasambandinu mikla í Brussel. Upplýst var að 6,5% af heildarfjölda Evrópusambandsreglugerða undanfarinn áratug hefðu verið tekin inn í EES-samninginn. Þessi svör koma sem merkileg andstæða við allt tal stuðningsmanna ESB-aðildar, um að Íslendingar innleiði 80% af öllu regluverki Evrópusambandsins inn í íslenskt kerfi. Þetta hafa þingmenn t.d. Samfylkingarinnar haldið fram til fjölda ára og vissir fræðimenn af þeirra hálfu hafa leikið sig frjálsa og óháða við að tjá þessa skoðun. Nú kemur svo ljóslifandi í ljós að þetta er langt í frá rétt og menn eru að fara með staðleysur sem halda þessu fram sem gert hefur verið.

Akureyri á hvítasunnu

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigrún Björk Jakobsdóttir í opnunarhófi í Listasafninu að morgni hvítasunnudags

Það hefur verið notalegur og góður dagur hér á Akureyri í dag, á hvítasunnudegi. Veðrið hefur verið milt og sólríkt, en gola er þó yfir. Ég tók daginn snemma og fékk mér göngutúr í Kjarnaskógi og hjóltúr samhliða því. Þægileg hreyfing samhliða því auðvitað og hið besta er að þessi tími gefur manni stund til íhugunar um marga hluti. Þetta er því holl stund með sjálfum sér á sál og líkama. Á tólfta tímanum hófst við Listasafnið hér í bænum opnunarhóf sýningarinnar Hoist sem standa mun næstu vikur í Listasafninu. Þar sýna þau Gabríela Friðriksdóttir og Matthew Barney verk sín og er sýningin hluti af Listahátíð 2005. Samhliða opnunarhófinu lentu hér í bænum tvær fullar flugvélar af fólki og voru þar margir gestir komnir norður vegna Listahátíðar. Komu gestirnir beint upp að safni. Voru þeir að koma frá Ísafirði, héldu því næst til Egilsstaða og Seyðisfjarðar og enda svo daginn nú í kvöld í Vestmannaeyjum. Sannkölluð hringferð því á þessum degi.

Í hópnum var Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Var gestum og þeim sem áttu leið um boðið upp á léttan hádegisverð í sumarblíðunni í Listagilinu og var þar um margt rætt. Myndin hér að ofan var tekin af Þorgerði Katrínu, Steinunni Valdísi og Sigrúnu Björku Jakobsdóttur bæjarfulltrúa og formanni menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, þar sem þær voru að ræða málin. Sýningin er mjög glæsileg og hvet ég alla bæjarbúa sem aðkomufólk sem á leið um bæinn til að líta á hana. Um helgina hefur jafnframt verið árleg vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri í húsnæði skólans að Kaupvangsstræti 16. Er unnið gott og gagnlegt starf í skólanum og var gaman að líta á verkin sem eru til sýnis á þessari sýningu. Skólinn varð þrítugur á síðasta ári og hefur hann verið mikilvægur þáttur menningarlífsins og verið leiddur farsællega af vini mínum, Helga Vilberg skólastjóra.

Akureyri í sumarblóma

Er sýningunni lauk var kominn tími til að fara upp í Víðilund og heilsa upp á Hönnu ömmu. Hún kom seint í gærkvöldi heim frá Vestfjörðum, þar sem Kór aldraðra var í söngferðalagi. Var kórinn með tvo tónleika um helgina fyrir vestan, á Ísafirði og Bolungarvík. Amma hefur verið í kórnum frá stofnun árið 1988 og var formaður hans í þrettán ár, og leiddi því lengi starf hans. Hún hefur nú hætt því en syngur enn með. Amma, sem verður 85 ára í ágúst, er full af krafti og þrótti og segja má að tómstundastarfið sé hennar líf og yndi og hún hefur gaman af söngnum, enda til fjölda ára verið í kór. Allavega er hún amma sannkölluð kjarnakona og er aðdáunarvert að mínu mati hversu hress hún er miðað við aldur. Ég er og verð alla tíð stoltur af henni. Það er ekki laust við að maður vonist til að verða svona hress í ellinni. Síðdegis fórum við svo í fermingarveislu að Hlíðarbæ í Hörgárbyggð, en Sigríður Ásta, stjúpdóttir Kristmundar bróður míns, var fermd í dag. Var þar góð og skemmtileg veisla.

Í kvöld fórum við svo saman út að borða á Greifanum. Það er alltaf gaman að fara út að borða og fá sér góðan mat þar. Er ekkert betra en að fara þar og fá sér góðan mat, þar er góð þjónusta og klassamatur í forgrunni. Svo má auðvitað ekki að lokum gleyma því að ég fór seinnipartinn í gær í leikhús og sá í Samkomuhúsinu sýningu Þjóðleikhússins, Græna landið, eftir Ólaf Hauk Símonarson. Sýningin hlaut fjórar tilnefningar til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, á síðasta ári. Þessi sýning er vönduð og vel gerð. Fara Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld á kostum í hlutverkunum. Góð sýning, góð ferð því í leikhúsið eftir hádegið í gær. Það má því með sanni segja að ég hafi átt góða helgi, eigum við ekki að segja að þetta hafi verið menningarlega sinnuð helgi.

Saga gærdagsins
1943 Ólafur Ragnar Grímsson fæðist á Ísafirði - Ólafur var lengi einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins og hart deilt um störf hans. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1996
1998 Söngvarinn og leikarinn Frank Sinatra deyr í Los Angeles, 82 ára að aldri - Sinatra var alla tíð mjög umdeildur en óhikað má telja hann einn besta söngvara aldarinnar og þann sem einna mestan svip setti á tónlistarsögu aldarinnar. Hann söng nær allt til dauðadags og gaf út meistaralega gerða plötu skömmu fyrir andlátið sem sló í gegn, hún skartaði dúettum hans með þekktum söngvurum
1998 Jóhanna Sigurðardóttir talaði í rúma fimm klukkutíma á Alþingi - lengsta ræða þingsögunnar
2000 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, deyr, 62 ára að aldri - hann tók formlega við embætti forsætisráðherra Japans árið 1998 og var mjög vinsæll meðal landa sinna. Það kom mjög óvænt er hann fékk heilablóðfall á skrifstofu sinni þann 2. apríl 2000. Obuchi var í dái á sjúkrahúsi í Tokyo í rúman mánuð. Hann kom til Íslands í júnímánuði 1999, heimsókn hans bætti samskipti landanna
2004 Friðrik krónprins Danmerkur, gengur að eiga hina áströlsku Mary Donaldson, við, bæði í senn, glæsilega og hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn - þau eiga von á sínu fyrsta barni síðar á þessu ári

Saga dagsins
1941 Alþingi Íslendinga samþykkir að fresta þingkosningum um allt að fjögur ár vegna hernámsins
1952 Fiskveiðilögsaga Íslendinga var færð úr þremur sjómílum í fjórar - breytt næst sex árum síðar
1967 Fyrsta sjónvarpsleikrit á dagskrá RÚV, Jón gamli, eftir Matthías Johannessen ritstjóra, frumsýnt
1972 Geðtruflaður maður skýtur í bakið á George Wallace ríkisstjóra Alabama, sem þá var í framboði til embættis Bandaríkjaforseta, á kosningafundi í Laurel í Maryland. Hann lamaðist fyrir neðan mitti
1991 Edith Cresson verður fyrsti kvenforsætisráðherra Frakklands - Cresson sat í rúmt ár á valdastóli

Snjallyrðið
A man is a success if he gets up in the morning and gets to bed at night, and in between he does what he wants to do.
Bob Dylan tónlistarmaður (1941)