Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 júní 2005

Punktar dagsins
Baldurshagi

Þessa dagana er hafin af fullum krafti jarðvegsvinna á Baldurshagareitnum svokallaða hér á Akureyri. Þar munu brátt rísa tvær sjö hæða blokkir. Vinna við að taka grunn annarrar blokkarinnar er komin langt á veg. Það var í lok síðasta árs sem bæjarstjórn Akureyrar ákvað að hafna upphaflegri tillögu sem gerði ráð fyrir 12 hæða húsi á Baldurshagareitnum. Seinasta árið hefur málefni Baldurshagareitsins verið eitt helsta umræðuefnið í bæjarmálum hér. Á fundi bæjarstjórnar, 10. ágúst sl. samþykkti meirihluti bæjarfulltrúa að heimila verktaka að láta gera deiluskipulag á lóðinni, á fundi þann 5. október sl. samþykkti svo bæjarstjórn tillögu umhverfisráðs um breytingu á aðalskipulagi svæðisins umhverfis Baldurshaga sem gerði ráð fyrir að breyta óbyggðu svæði og almennu útivistarsvæði í íbúðarsvæði. Fór tillagan þá á borð Skipulagsstofnunar til athugunar. Í desember samþykkti svo bæjarstjórn eins og fyrr segir að hætta við byggingu 12 hæða húss og þess í stað kæmi á teikniborðið tvær sjö hæða blokkir. Niðurstaða málsins liggur nú fyrir og erum við hér í hverfinu því farin að horfa á byrjun framkvæmda á reitnum.

Hart hefur verið tekist á um málið. Í margra augum var um mikið tilfinningamál að ræða, hvort reisa ætti fjölbýlishús þar sem nú stendur lítið, gamalt íbúðarhús með nafninu Baldurshagi. Það er og hefur alla tíð verið grunnatriði að minni hálfu í málinu að byggt skuli á þessum reit. Deila mátti hinsvegar um lögun þess húss sem á teikniborðinu var og hvort það hentaði inn í byggðamyndina í nánasta nágrenni, en óneitanlega stakk hugmyndin í stúf við annað í hverfinu og var þónokkuð áberandi. Hef ég búið nokkurn tíma nú í Þórunnarstrætinu og tel rétt að byggja á þessum reit. Eins og fram hefur komið er mikill áhugi fyrir því að búa á þessum stað. Ekki þarf að undrast það, stutt er í verslanir og miðbæinn. Um er að ræða hjarta bæjarins. Allir þeir sem koma á þetta svæði skilja vel af hverju fólk vill búa svo nálægt miðbænum og þjónustukjarnanum á Glerártorgi. Sjálfur bý ég á þessu svæði og tel þetta besta staðinn í bænum. Miðbærinn er í göngufjarlægð, stutt er í verslanir og alla þjónustu. Þannig að ekki undrast ég af hverju byggt er á þessu svæði og ekki er ég heldur hissa á því að íbúðirnar í þessum fjölbýlishúsum seljist svo vel sem raun ber vitni.

En þessu máli virðist nú lokið. Vinnuvélar eru komnar hér á reitinn rétt fyrir neðan þar sem ég bý og væntanlega er stutt í að þetta gamla hús hverfi. Vissulega er eftirsjá af svo gömlu húsi sem sett hefur svip á sögu bæjarins og hér á Brekkunni. En í stað þess að horfa upp á húsið drabbast niður og reitinn ekki síður mun nú þar rísa öflug byggð, tvö glæsileg fjölbýlishús sem munu ekki síður setja svip sinn á svæðið hér. Ég fagna því að þessi hús munu brátt rísa.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórn Varðar kom saman til fundar á þriðjudagskvöld, til þess að ræða málefni Sambands ungra sjálfstæðismanna, en sambandsþing SUS verður haldið í septembermánuði. Á fundinum samþykkti stjórnin eftirfarandi yfirlýsingu:

"Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir stuðningi við framboð Borgars Þórs Einarssonar til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Vörður hvetur unga sjálfstæðismenn um land allt til að vinna sameinuð af krafti að undirbúningi komandi sveitarstjórnar- og alþingiskosninga sem framundan eru á næsta starfstímabili SUS. Með samstöðu að leiðarljósi og því að vinna sameinuð að þeim verkefnum sem framundan eru munum við ná að uppskera vel fyrir flokk okkar. Ungliðar í Norðausturkjördæmi stefna að því að vinna sameinuð á næstu tveim árum að undirbúningi þessara kosninga með stofnun kjördæmasambands ungliða í flokknum á kjördæmisþingi flokksins í september."

Framundan er eins og fyrr segir í þessari yfirlýsingu stjórnar félagsins stofnun kjördæmasambands ungliða í Norðausturkjördæmi. Það mun að mati okkar í stjórninni skapa mikilvægan samstarfsvettvang fyrir öll ungliðafélögin í kjördæminu til þess að vinna að sameiginlegum verkefnum af krafti en umfram allt í sameiningu. Þar þarf að vinna sameinuð að undirbúningi tveggja gríðarlega mikilvægra kosninga sem þurfa að vinnast bæði sameinað og samhent. Hér þarf að taka til hendi og efla starfið og það verður að vinnast með samhentum hætti. Það er von mín að ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins beri gæfa til að vinna sameiginlega að þeim verkefnum sem mestu skipta. Ég hef alla tíð unnið í Sjálfstæðisflokknum af heilindum og með það að leiðarljósi að vinna flokknum gagn, skrifað þar greinar og unnið af krafti að þeim verkefnum sem skipt hafa flokkinn miklu máli.

The China Syndrome

Ég horfði í gærkvöldi á kvikmyndina The China Syndrome. Vel gerð kvikmynd sem vann hug og hjörtu kvikmyndaaðdáenda árið 1979, og var ennfremur tilnefnd til sex óskarsverðlauna. Í henni er sagt frá tilraun yfirmanna kjarnorkuvers í Kaliforníu til að hylma yfir bilun í verinu en sjónvarpsfréttamenn komast brátt á snoðir um að eitthvað mikið sé að. Sérlega spennandi og vönduð dramatísk mynd í bland með stórkostlegum leik allra aðalleikaranna sem hittir beint og ákveðið í mark. Sérlega áhrifarík stórmynd sem er ekki einungis fagur velluboðskapur heldur raunsæ og ákveðin í allri túlkun og setur fram blákaldar staðreyndir um hörmungar sem myndu hljótast af (mögulega eða jafnvel) væntanlegu kjarnorkuslysi og af eyðileggingarmætti kjarnorkunnar og af vita vonlausu samsæri yfirmanna kjarnorkuversins til þess að reyna að þegja málið í hel. Myndin verður enn áhrifameiri vegna þess hversu látlaus hún er í uppbyggingu og framsetningu. Til dæmis er engin kvikmyndatónlist í myndinni. Lokahluti myndarinnar er mjög áhrifaríkur og í heildina má segja að myndin sé þrælpólitísk og einlæg allt í gegn.

Hér fara þau öll á kostum óskarsverðlaunaleikarnir: Jack Lemmon, Jane Fonda og Michael Douglas. Lemmon er stórfenglegur í hlutverki hins samviskusama og úrræðagóða yfirmanns í kjarnorkuverinu. Stjörnuleikur hjá einum af bestu leikurum seinustu aldar. Glansar í erfiðu hlutverki. Ekki er Fonda síðri í hlutverki hinnar gallhörðu og úrræðagóðu sjónvarpsfréttakonu, og vinnur hún sífellt betur á með hverri þraut. Eitt af bestu hlutverkum hennar. Douglas er sterkur í hlutverki hins traustlynda og vinnufúsa sjónvarpsupptökumanns. Það er semsagt úrvalsleikur sem ekki síst einkennir og mótar þessa úrvalsmynd. Þau eru öll mjög sannfærandi og gera það að verkum að myndin er sífellt spennandi og vel úr garði gerð. Lokamínúturnar eru mjög spennandi og eru með áhrifaríkustu lokamínútum í kvikmynd. Myndin fékk aukið vægi þegar alvöru kjarnorkuslys átti sér stað tæpri viku eftir frumsýningu myndarinnar, á Þriggja mílna eyju, og orsakaði að myndin setti sýningarmet yfir frumsýningavikuna, sem hélst allt þar til stjörnustríðsmyndin The Empire Strikes Back var frumsýnd, árið eftir. Sterk og öflug mynd - fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Bob Woodward - Plan of Attack

Undanfarna daga hef ég verið að lesa athyglisverða bók, Plan of Attack eftir Bob Woodward. Bókin fjallar um aðdraganda innrásar Bandamanna í Írak og eftirmála falls stjórnar Saddams Husseins í apríl 2003. Bókin er virkilega vönduð og skemmtileg til lestrar og fræðandi. Fer Woodward yfir marga þætti tengda málinu og veltir upp atriðum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir áður. Fjallar hann um málið frá hlið bæði þeirra sem voru hlynntir og andvígir innrásinni í Írak og kemur með athyglisverðan vinkil á málið. Woodward er einn þekktasti blaðamaður og fréttaskýrandi Bandaríkjanna. Woodward er kunnastur fyrir að hafa ásamt félaga sínum á The Washington Post, Carl Bernstein, náð að vekja athygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, í ágúst 1974. Sú saga var sögð í verðlaunamyndinni All the President?s Men, árið 1976. Ég hvet alla til að kynna sér feril Woodwards með því að horfa á myndina og ekki síður lesa bókina, sem er mögnuð heimild um eitt mesta hitamál seinustu ára á vettvangi alheimsstjórnmála.

Pólitísk krísa í ESB :)

Vandræðin og pólitíska krísan í ESB þessar vikurnar blasir við öllum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian eru oft fljótir að sjá meginpunkta stjórnmálanna með gamansömum hætti. Það tókst þeim svo sannarlega í þessari kostulegu mynd. :)

Saga gærdagsins
1906 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Billy Wilder fæðist í Póllandi - Wilder lést í marsmánuði 2002.
1939 Mesti hiti sem þá hafði mælst á Íslandi, 30,5°C, mælist í Berufirði - metið stóð allt til 1976.
1941 Nasistar ráðast inn í Sovétríkin - þeir náðu fyrst miklum árangri þar en hörfuðu síðan frá.
1963 Páll VI kjörinn páfi í kosningu kardinála í Róm - hann sat á páfastóli til dauðadags árið 1978.
1987 Óskarsverðlaunaleikarinn og dansarinn Fred Astaire deyr í Los Angeles, 88 ára að aldri.

Saga dagsins
1926 Jón Magnússon forsætisráðherra, deyr sviplega á Norðfirði, 67 ára að aldri. Hann hafði fylgt Kristjáni 10. Danakonungi í ferð um Norður- og Austurland. Jón varð fyrst forsætisráðherra 1917 og sat til 1922 og frá 1924 til dánardags. Eftirmaður Jóns á forsætisráðherrastóli varð Jón Þorláksson.
1974 Mesti hiti sem mælst hefur á Akureyri, 29,4°C - þetta met í hita hér á Akureyri stendur enn.
1977 Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal opnaður - var reistur í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar.
1985 Boeing 747 flugvél springur í loft upp yfir Írlandi - 329 manns létu lífið í þessu mikla flugslysi.
1995 Björgunarþyrlan TF-Líf kom til landsins - koma hennar markaði þáttaskil í björgunarmálum hér.

Snjallyrðið
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheima-spil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld á Akureyri (1835-1920) (Leiðsla)