Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 júní 2005

Punktar dagsins
Halldór Kiljan Laxness (1902-1998)

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á þá kröfu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors, um að máli sem Auður Sveinsdóttir Laxness, ekkja nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, höfðaði gegn honum fyrir höfundalagabrot skyldi vísað frá dómi vegna þess að annmarkar hafi verið á máltilbúnaði stefnanda. Mikið hefur á seinustu árum verið rætt og ritað um nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxness. Allt frá andláti hans í febrúar 1998 hefur Halldór verið áberandi bæði í ræðu og ekki síst á riti. Hefur þetta verið áberandi einkum seinustu þrjú árin, en fyrir seinustu jól og eins árið 2003 hafa komið út ítarlegar og umdeildar ævisögur um Halldór eftir Hannes Hólmstein. Mun seinasta ritið væntanlega koma út í nóvember og lýkur þá umfjöllun Hannesar Hólmsteins um skáldið. Fjölskylda skáldsins var mjög andvíg því frá upphafi að Hannes ritaði um Halldór. Reyndi hún að hindra aðgang hans að skrifum skáldsins með því að loka bréfasafni hans næstu þrjú árin. Einungis Halldóri Guðmundssyni og Helgu Kress prófessor var veittur aðgangur að því.

Eins og flestir vita er Hannes umdeildur vegna skoðana sinna, hann hefur aldrei farið leynt með skoðanir sínar. Væntanlega vegna þess tók fjölskylda skáldsins þá ákvörðun að loka bréfasafninu og gat ekki sætt sig við það að hann ritaði um ævi hans. Um er að ræða þjóðskáld Íslendinga, að mínu mati merkasta rithöfund 20. aldarinnar, og hann settur á þann stall af vissum hópi þannig að ekki megi skrifa um hann nema af útvöldum. Mikið var rætt og ritað um fyrsta bindið eftir Hannes. Margir höfðu á því skoðanir, eins og gefur að skilja, enda bók skrifuð af umdeildum manni um enn umdeildari mann í sögu landsins. Athygli vakti þó jafnan að þegar spekingarnir sem dæmdu bók Hannesar fyrir ári voru spurðir að því hvort viðkomandi hefðu lesið bókina sem málið snýst um kom fram að svo var ekki. Var fróðlegt að margir höfðu skoðun á ritinu en ekki lesið það eða kynnt sér ítarlega áður en það felldi dóma yfir því. Það er merkileg umræða sem geisað í samfélaginu vegna þessara bóka. Sjálfur hef ég ósjaldan lent í spjalli við fólk um það.

Merkilegt er að það fólk sem gagnrýnt hefur skrif Hannesar sem mest hefur ekki lesið bækurnar. Það er hreint óþolandi að eiga umræðu um þessi mál við fólk sem ekki hefur kynnt sér bækurnar og farið yfir þær nákvæmlega. Ég hef lesið þau bæði, og það af miklum áhuga. Sérstaklega þótti mér annað bindið, Kiljan, sem kom út í fyrra mjög gott og umfangsmikið. Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Sú bók spannaði 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn. Allt rennur þetta ljúflega saman og fullyrði ég að þetta er ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur næstu jóla og útgáfu þriðja og seinasta hlutans sem mun fjalla um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998.

Skrifar Hannes að mínu mati af mikilli virðingu um skáldið. Ég hvet alla þá sem ekki hafa lesið ritið og hafa býsnast sem mest yfir því og farið hátt í tali en ekki enn lesið það að gera það einmitt. Í bókunum er farið ítarlega yfir ævi merks manns og ritað um hann af virðingu. Allavega hef ég ekki enn heyrt gagnrýni á ritun Hannesar um Laxness á þeim forsendum að rangt sé farið með eða illa staðið að umfjöllun um ævi Halldórs Kiljans Laxness, nóbelsskáldsins frá Gljúfrasteini. Það segir svo sannarlega sína sögu að mínu mati.

Clint Eastwood og Rene Russo í In the Line of Fire

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina In the Line of Fire. Hörkugóð og vel leikin úrvalsmynd, frá árinu 1993, sem segir frá Frank Horrigan, sem er lífvörður forseta Bandaríkjanna. Hann er í sögubyrjun kominn á sjötugsaldurinn og hefur ótvírætt umfangsmikla reynslu í starfi sínu eftir tæplega þrjátíu og fimm ára starf í leyniþjónustunni sem lífvörður forsetans. Hefur hann í raun aldrei jafnað sig á því að hafa mistekist að vernda John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, sem myrtur var í Dallas í Texas, 22. nóvember 1963. En allt í einu hefur samband við hann maður sem hefur í hyggju að myrða yfirmann Franks, núverandi forseta Bandaríkjanna, sem er nú í hörðum kosningaslag um lyklavöldin í Hvíta húsinu og er undir í baráttunni er sagan hefst. Er Frank áttar sig á að honum er alvara leggur hann til atlögu gegn skaðvaldinum.

En spurningin að lokum er óneitanlega tvíþætt: tekst Frank að bjarga lífi forsetans eða tekst tilræðismanninum að myrða hann og mistekst Frank rétt eins og í Texas hinn heita vetrarmorgun er JFK féll fyrir morðingjahendi. Clint Eastwood er alveg frábær sem hinn einmana leyniþjónustumaður sem lifir kyrrlátu lífi, sinnir vinnu sinni en fær sér einn kaldan bjór og hlustar á og spilar jazz utan vinnutíma. John Malkovich hefur aldrei verið betri en hér í hlutverki tilræðismannsins, Mitch Leary. Hann er alveg stórfenglegur í túlkun sinni, meistaralega góður er hann tjáir hið brenglaða eðli Leary. Hér gengur allt upp: frábær leikur, vandað handrit og meistaraleg leikstjórn (þjóðverjans Wolfgang Petersen). Rúsínan í pylsuendanum er svo hin frábæra tónlist meistara Ennio Morricone. Semsagt: hörkugóð og ógleymanleg hasarmynd sem fær áhorfandann til að gleyma stað og stund og tryggir spennandi kvöldstund.

Akureyrarkirkja

Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir sóknarprestur í Akureyrarkirkju, hefur sagt starfi sínu lausu. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt það og sannað að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af miklum krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Allir þeir sem kynna sér verk hennar í þeim málefnum og almennt varðandi samskipti við fólk vita að Jóna Lísa er ákveðin en um leið traust og hefur starfað með miklum sóma að þeim verkum sem skipta máli. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg, en þá bók skrifaði hún eftir sviplegt lát manns hennar, Vignis Friðþjófssonar. Það er bók sem er öllum lexía að lesa. Einnig hefur hún ritað margt almennt um mörg málefni. Vil ég nota tækifærið til að þakka sr. Jónu Lísu Þorsteinsdóttur góð störf í þágu okkar hér í Akureyrarsókn.

Skipulagstillögur D-listans

Í dag heldur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík íbúaþing um tillögur sínar í skipulagsmálum. Jafnframt er þar fólki gefið tækifæri til að koma með sínar hugmyndir og ábendingar á tillögurnar í málefnavinnu sem þar fer fram. Þetta ferli sjálfstæðismanna er þeim mjög til sóma. Með þessu gefst fólki, hinum almenna kjósanda, færi á að segja sínar skoðanir og vera aktívir þátttakendur í að móta betri borg. Er alveg ljóst að fara þarf nýjar leiðir í skipulagsmálum sem fleiri málaflokkum á komandi árum. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil hefur skilað nægum verkefnum og fjölda úrlausnarefna sem þarf að leysa. Þeir sem kynna sér þessi mál sjá ekkert nema ókláruð verkefni og áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Þessari vinnu sjálfstæðismanna, vinnu að betri borg, lýkur ekki í dag með þessu íbúaþingi - öðru nær. Framundan eru svo fleiri íbúaþing, fundir um skipulagsmálin í öllum hverfum borgarinnar, á næstu mánuðum. Er gott að Sjálfstæðisflokkurinn fer þessa leið við að vinna málin. Enda er ekki furða að R-listinn sé í fýlu með stöðu mála.

Orkuveita Reykjavíkur - Royal Alfreð Hall

Það líður varla orðin sú vika og eða bara dagur að ekki sé hægt að finna að óráðsíunni í Orkuveitu Reykjavíkur. Í gær skrifaði ég um það. Í dag er mikil ástæða til að vekja máls á því enn eina ferðina. Í fréttum í gær kom fram að kostnaður við frágang á lóðum fyrirtækisins við Réttarháls og Bæjarháls væri rúmlega 250 milljónir króna en upphafleg fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir að kostnaður yrði vel innan við 100 milljónir króna. Í dag sendir svo forstjóri OR frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að heildarkostnaðurinn muni vera nálægt 300 milljónum króna. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum. Og svo sendir auðvitað stjórnarformaðurinn forstjórann í fjölmiðla. Enda ekki þægilegt að face-a svona umfjöllun með góðu. Skal heldur engan undra - þetta er óverjandi rugl og óráðsía. Enda heldur Alfreð sér saman vegna þessa, enda ekki beinlínis fallinn til vinsælda þessi hallargarður Orkuveituguðsins.

Saga dagsins
1880 Hornsteinn lagður að Alþingishúsinu við Austurvöll í Reykjavík - þinghúsið var svo vígt ári síðar.
1970 Hussein Jórdaníukonungur, sleppur naumlega lifandi úr banatilræði - konunginum, sem ríkti í Jórdaníu í hálfa öld, var oft sýnt banatilræði. Hussein konungur lést úr krabbameini í febrúar 1999.
1975 Sjónvarpað í fyrsta skipti beint frá breska þinginu - nú er almennt sýnt frá breska þinginu og BBC sýnir fyrirspurnartíma forsætisráðherra, þar sem tekist er á, alla miðvikudaga á stöðvum sínum.
1983 Margaret Thatcher leiðir breska Íhaldsflokkinn til stærsta sigurs síns í kosningum í Bretlandi - Thatcher sat á valdastóli í rúm 11 ár, til nóvember 1990, og Íhaldsflokkurinn leiddi stjórn til 1997.
2002 Hálfrar aldar valdaafmæli Elísabetar II Englandsdrottningar, fagnað með hátíðum um Bretland.

Snjallyrðið
There are places I remember all my life,
Though some have changed,
Some forever, not for better,
Some have gone and some remain.

All these places had their moments
With lovers and friends I still can recall.
Some are dead and some are living.
In my life I've loved them all.

But of all these friends and lovers,
There is no one compares with you,
And these memories lose their meaning
When I think of love as something new.

Though I know I'll never lose affection
For people and things that went before,
I know I'll often stop and think about them,
In my life I'll love you more.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980) (In My Life)