Nú þegar ár er til sveitarstjórnarkosninga blasir við að skipulagsmálin muni verða aðalmál kosningabaráttunnar í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Enginn vafi leikur á því að ferskar hugmyndir sjálfstæðismanna varðandi byggð á eyjunum við borgina og markviss sýn til næstu áratuga í þeim efnum hafi tekið umræðuna á nýtt plan. Það er enda engin furða að borgarfulltrúum R-listans hafi sviðið það mjög að hafa misst frumkvæðið og aflið í umræðunni frá sér. R-listinn hefur núna stjórnað borginni í ellefu ár, sem er vissulega mjög langur tími. Hvað stendur eftir í málefnum borgarinnar skipulagslega séð eftir þrjú kjörtímabil R-listans? Ekki er það mikið. Staðan er þannig að mörg verkefni standa eftir óleyst og margt í því sem skiptir máli er í hreinu klúðri. Skipulagsmálefni borgarinnar eru í óttalegu fokki, hreint út sagt. Hvernig er staðan á Vatnsmýrinni? Allt í veseni, nákvæmlega ekkert hefur gerst nema eymdarákvarðanir undir forystu þeirra. Málið er alveg í rusli.
Það klúður segir margt um stöðuna bæði innan R-listans og varðandi forystu þeirra í skipulagsmálum. Það eru algjörar bútasaumslausnir á öllum stigum, forysta vinstrimanna í Reykjavík hefur skilað af sér nægum verkefnum sem R-listinn hefur ekki verið bógur að leysa. Nú koma borgarfulltrúar R-listans svo fram einn af öðrum í fjölmiðla þessa dagana til að svara tillögum sjálfstæðismanna - ferskum hugmyndum inn í nýja tíma. Og hverjar eru lausnir R-listans? Engar í heildina. Það kemur einn borgarfulltrúinn með eina tillögu, annar með aðra og svona koll af kolli. R-listinn er ekki samhentur í skipulagsmálunum. Í gær kom Stefán Jón fram algjörlega að því er virtist prívat og persónulega fram með hugmyndir um byggð í Vatnsmýrinni og ennfremur hringveg um miðborgarsvæðið með tengingu frá Vatnsmýrarbyggðinni yfir á Álftanes. Gott og vel, en er þetta stefna R-listans? Ef svo er fór það framhjá mér.
Þessar tillögur virkuðu á mig bara eins og prívatvinnsla nafna míns sem unnið hafði verið við eldhúsborðið heima. R-listinn eftir ellefu ára valdasetu og forystu í skipulagsmálum borgarinnar allan þann tíma er ekki samhentur og þar liggur vandinn í málinu. Skipta þarf um áherslur og fólk í forystu málaflokksins. Það vantar nýja sýn - ferska sýn til framtíðar. Sú sýn er í tillögum sjálfstæðismanna um byggð á eyjunum og því að tryggja samstöðu um Vatnsmýrina. En fyrst og síðast þarf að tryggja flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Hvort hann sé í Vatnsmýri er ekki úrslitaatriði. Ef fórna á Vatnsmýrarsvæðinu verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.
Ja sei sei, nú berast þær fréttir frá Færeyjum að færeyski þorskstofninn sé hruninn og alþjóða hafrannsóknarráðið leggi til að dregið verði úr sókn um 50% á næsta fiskveiðiári. Í fréttum sem borist hafa hingað til lands hefur yfirmaður fiskirannsókna í Færeyjum sagt að um sé að kenna ofveiði vegna rangar veiðistefnu sem byggð sé á fiskveiðiráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings. Það er einmitt það já, varð mér að orði þegar ég heyrði þessar fréttir. Er það ekki sami maður og sama kerfi og einn íslenskur stjórnmálaflokkur, einsmálsflokkur allra tíma, Frjálslyndi flokkurinn, leggur til umfram aðra að farið verði eftir hér á landi? Ég veit ekki betur en að svo sé. Frjálslyndir ganga um með veggjum núna og reyna frekar að þegja það af sér en taka á því.
Hvað ætli varaformaðurinn kjaftagleiði segi núna á sjónum þar sem hann er að drýgja þingmannstekjurnar á síldarveiðum? Ætli Frjálslyndir verði ekki að finna sér nýjan fiskifræðing núna til að trúa á? Það veit ég allavega að frjálslyndir hafa básúnað það að minnkandi þorskur hér á okkar miðum sé fiskveiðistjórnkerfi okkar að kenna en nú segja þeir sem tala að minnkandi þorskur við Færeyjar sé ekki fiskveiðistjórnkerfi þeirra að kenna. Þetta tel ég vera þversögn í málflutningi - skal engan undra!
Ekki batnar mikið óráðsían sem grasserar í Orkuveitu Reykjavíkur undir forystu R-lista vinstri manna og er leidd í þeirra umboði af Alfreð Þorsteinssyni, framsóknarjálkinum í hópnum. Seinustu árin höfum við orðið vitni að því að þetta fyrirtæki í opinberri eigu væri í að reisa sumarhúsabyggð, stundi undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og væri þátttakandi í fyrirtækjarekstri á sviði gagnamiðlunar. Allt er þetta vel kunnugt og blasir við öllum að vekji spurningar. Er vart undarlegt að spurt sé hvort opinbert fyrirtæki eigi að blanda sér í áhættufjárfestingar og sukk af þessu tagi. Ekki batnar það eins og fyrr segir, enda hefur nú kvisast út að OR sé að verða þátttakandi í því að til komi heilsuhótel á Nesjavallasvæðinu. Og auðvitað er OR þar í fararbroddi. Það er ekki nema von að sú spurning vakni hvort engin takmörk séu á ruglinu þarna. Hvað er næst eiginlega? Ætli Alfreð Þorsteinsson fari ekki brátt að fá þá flugu í hausinn að verka harðfisk og selja á opnum markaði, allt í nafni þess að það komi Orkuveitunni við. Það má svei mér þá alveg búast við því. En jæja, mín vegna má Alfreð svosem standa í Kolaportinu og selja hertan steinbít og bitaýsu. :)
Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Anne Bancroft lést í gær, 73 ára að aldri. Bancroft var ein af litríkustu leikkonum sinnar kynslóðar. Anna Maria Italiano fæddist í Bronx-hverfinu í New York þann 17. september 1931, dóttir ítalskra innflytjendahjóna. Hún ákvað ung að verða leikkona og skráði sig í leiklistarskóla eftir að grunnnámi lauk. Hún var ráðin til Twentieth Century Fox árið 1952 og skipti þá um nafn. Hún náði heimsathygli með túlkun sinni á Annie Sullivan í The Miracle Worker árið 1962 og hlaut óskarsverðlaunin fyrir leik sinn. Litríkasta hlutverk ferils hennar var frú Robinson í The Graduate árið 1967. Þar fór hún algjörlega á kostum. Frábær mynd, sem er og verður alla tíð algjör klassík. Önnur eftirminnileg hlutverk ferils hennar voru í The Turning Point, The Elephant Man, Agnes of God og The Pumpkin Eater. Hún giftist leikstjóranum og handritshöfundinum Mel Brooks árið 1964. Anne Bancroft var dýnamísk og glæsileg leikkona sem setti sterkan svip á þær myndir sem hún var í, gríðarlega sterk í túlkun alla tíð. Hún náði að gæða persónur sínar öflugu lífi og setti mark sitt á kvikmyndasögu 20. aldarinnar.
Á mánudag var ég beðinn af góðu fólki um að velja þau tíu lög sem stæðu mér næst og ég myndi grípa til - lög er stæðu mér nærri í hjartanu. Listinn varð til á þrem mínútum. Margt komst þar ekki á blað skiljanlega. Það er oft erfitt að velja og hafna. En ég tel listann góðan. Allavega eru þetta lög sem ég tel mér mikils virði. Þetta er fjölbreytt val og litríkt, blanda innlends sem erlends og stuðsins og alvarleikans í hjartarótinni minni. En hér er listinn:
Afgan - Bubbi Morthens (partýlag allra tíma - mjög sterkt lag)
The Final Countdown - Europe (stuðlagið sem hittir í mark)
Du Hast - Rammstein (eldhresst rokklag sem tengir mig á liðið tímabil)
Tvær stjörnur - Megas (fær mann til að hugsa um lífið og tilveruna)
In My Life - The Beatles (stendur mjög nærri hjartanu mínu)
God Only Knows - The Beach Boys (alltaf heillandi og hugljúft)
Fallegur dagur - Bubbi Morthens (kemur mér í gott skap)
Songbird - Hildur Vala (róandi og einstaklega fallegt)
Jokerman - Bob Dylan (sterkt lag sem hefur alltaf höfðað til mín)
Stairway to Heaven - Led Zeppelin (gríðarlega öflugt lag)
Næst inn:
Nína - Stefán og Eyfi (hugljúfara verður það ekki - beint frá hjartanu)
Intermezzo - Pietro Mascagni (sannar tilfinningar í gegn - og það án allra orða)
Hjá þér - Sálin (lag sem fær mig til að hugsa um hluti sem eru mér nærri)
Imagine - John Lennon (öflugt lag um hluti sem skipta mjög miklu máli - snilld)
Both Sides Now - Hildur Vala (hefur áhrif á mig sem ég get ekki lýst)
Love Theme (Cinema Paradiso) - Ennio Morricone (alvöru tilfinningar án orða)
Won't Go Back - Jet Black Joe (lag sem fékk mig til að halda áfram frá sáru tímabili)
It Must Have Been Love - Roxette (öflugt lag sem færir mér merkilega tilfinningu)
Bridge Over Troubled Water - Simon og Garfunkel (glæsilegt, fullt af tilfinningum og næmri túlkun)
You'll be in my heart - Phil Collins (gríðarlega sterkt lag með tilfinningu)
Saga gærdagsins
1904 Íslandsbanki, hinn eldri, tók til starfa - bankanum var lokað í kjölfar gjaldþrots í febrúar 1930.
1905 Konungssamband Noregs og Svíþjóðar var afnumið - Hákon VII verður fyrsti konungur Noregs.
1942 Japanir eru sigraðir í sjóorrustu um Midway eyju í Kyrrahafi - orrustan stóð í 3 sólarhringa.
1977 Elísabet II Englandsdrottning, fagnar 25 ára valdaafmæli sínu - Elísabet hefur ríkt allt frá 1952.
1981 Ísraelska stjórnin fyrirskipar að kjarnorkuvinnslustöð í Írak sé eyðilögð - óttast hafði verið um að í vinnslustöðinni væru Írakar að vinna að atómsprengjum til að ráðast að nágrannalöndum sínum.
Saga dagsins
1783 Skaftáreldar hófust með eldgosi úr Lakagígum - það er eitt mesta eldgos sögunnar á Íslandi.
1866 Kanadíska þingið kemur saman í fyrsta skipti í Ottawa - Kanada er undir stjórn frá Englandi.
1968 James Earl Ray handtekinn fyrir morðið á Martin Luther King - hann lést í fangelsi árið 1999.
1982 50 breskir hermenn farast í loftárás argentínska hersins á tvö birgðaskip á Falklandseyjum.
1986 Kurt Waldheim fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kjörinn forseti Austurríkis - kjör hans í embættið varð umdeilt enda var haldið fram að hann hefði verið í liði nasista í seinna stríðinu.
Snjallyrðið
Ég les allar bækur
og Dylan hlusta á,
best er þó að gleyma
þegar ljósið fellur frá.
Forðum gat ég flogið
draumum mínum í,
nú verð ég að bera
þann þunga sem blý.
Tíminn er vinur þinn
lifðu alltaf rétt,
því ástin getur aldrei
orðið gömul frétt.
Ég á engan skjöld - ég á ekkert sverð
ég verð bara einmana þegar þú ferð.
Tíminn er vinur þinn - lærðu að lifa rétt
því ástin getur aldrei orðið gömul frétt.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (1956) (Ástin getur aldrei orðið gömul frétt)
<< Heim