Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 júní 2005

Samband ungra sjálfstæðismanna
75 ára


Samband ungra sjálfstæðismanna

Í gær voru 75 ár liðin frá stofnun Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Rúmu ári áður, eða hinn 25. maí 1929 var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Nokkur félög ungliða í flokknum eru eldri en bæði Sjálfstæðisflokkurinn og SUS. Heimdallur var t.d. stofnaður 16. febrúar 1928. Það er fyrsta stjórnmálafélag ungliða hérlendis. Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var stofnað 10. febrúar 1929, nokkrum mánuðum fyrir stofnun flokksins. Fleiri félög voru komin til sögunnar áður en SUS var formlega stofnað á Þingvöllum 27. júní 1930. Fyrsti formaður SUS var Torfi Hjartarson, síðar tollstjóri og ríkissáttasemjari, og gegndi hann formennsku í fjögur ár. Með honum í fyrstu stjórn SUS voru Sigríður Auðuns, Ísafirði, Kristján Steingrímsson, Akureyri, Árni Mathiesen, Hafnarfirði og Guðni Jónsson, Reykjavík. Í varastjórn voru Gunnar Thoroddsen, Jóhann Möller, Sigurður Jóhannsson, Guðmundur Benediktsson og Thor Thors.

Í sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna hafa 23 einstaklingar gegnt formennsku. Lengst á formannsstóli í sögu SUS hafa setið Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson frá Mel. Báðir voru þeir formenn í sex ár samfleytt. Jóhann varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra við fráfall dr. Bjarna Benediktssonar sumarið 1970. Áður hafði hann verið lengi borgarfulltrúi, ráðherra og þingmaður flokksins. Hann var um tíma ennfremur formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Magnús frá Mel var lengi alþingismaður og ráðherra og var forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Eyjafjarðarsýslu og Norðurlandskjördæmi eystra til fjölda ára. Undir lok stjórnmálaferils síns var hann varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Alls hafa verið haldin 37 sambandsþing frá stofnun Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þau eru jafnaði haldin á tveggja ára fresti. Næsta sambandsþing SUS verður haldið í septembermánuði. Í stjórn SUS sitja 27 einstaklingar og 14 eru til vara.

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Fór ég suður um helgina til að fagna afmæli SUS með góðum félögum. Afmælinu var fagnað með ýmsum hætti. Á sunnudag var afmæliskaffi í Valhöll þar sem haldið var formlega upp á þennan merka áfanga í sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna. Flutti Hafsteinn Þór Hauksson formaður, þar stutta ræðu. Heiðursgestur við þetta tilefni, Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður og fyrrum formaður SUS, flutti þar hátíðarávarp. Fór hann yfir punkta í sögu SUS og minnti á grunnstefnu flokksins og SUS í gegnum tíðina: baráttuna fyrir frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Í gær, á afmælisdeginum, héldum við í stjórn SUS svo til Þingvalla og héldum hátíðarstjórnarfund í Hvannagjá, þar sem SUS var formlega stofnað 75 árum áður. Heiðursgestur á fundinum var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður SUS, og flutti hann ávarp. Á þessum hátíðarstjórnarfundi voru samþykktar tvær ályktanir.

Sú fyrri hljómar svo: "Í dag, hinn 27. júní 2005, eru 75 ár liðin síðan Samband ungra sjálfstæðismanna var stofnað í Hvannagjá á Þingvöllum af ungum sjálfstæðismönnum hvaðanæva að af landinu. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur ávallt staðið vörð um hugsjónina um sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi einstaklinga og atvinnulífs. Sú hugsjón hefur ætíð reynst vel. Sjálfstæðismenn skoða því sögu sína stoltir og þurfa ekki að fela hana eða flýja, líkt og önnur stjórnmálaöfl hafa þurft að gera. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna óskar sjálfstæðismönnum um land allt til hamingju með daginn og færir öllum þeim er lagt hafa hönd á plóg í starfi ungra sjálfstæðismanna í gegnum tíðina innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf. Baráttunni fyrir frelsi lýkur hins vegar aldrei þótt árangurinn hafi verið góður hingað til. Í framsæknu þjóðfélagi spretta sífellt upp ný viðfangsefni er kalla á lausnir í anda sjálfstæðisstefnunnar. Ungir sjálfstæðismenn strengja þess heit að taka áfram þátt í þeirri baráttu og víkja hvergi frá hugsjónum um sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi til orðs og athafna."

Sú seinni hljómar svo: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna telur að á 75 ára afmæli sambandsins og í tilefni þeirra tímamóta að 90 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi hlutu kosningarétt sé viðeigandi að minnast þeirrar konu sem fyrst kvenna varð borgarstjóri í Reykjavík og settist fyrst kvenna í ríkisstjórn á Íslandi. Auður Auðuns var atkvæðamikil stjórnmálakona sem hafði raunveruleg áhrif á íslenskt samfélag. Hún ruddi braut jafnréttis með framgöngu sinni og verður ævinlega minnst fyrir glæsilega og skörulega framkomu. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna vill kanna möguleika á því að ráðist verði í uppbyggingu minnisvarða um Auði Auðuns í þakklæti fyrir þau störf sem hún vann, þjóð sinni og Sjálfstæðisflokknum til heilla." Tvær glæsilegar ályktanir og vel við hæfi á þessum tímamótum að hvatt sé til þess að stytta sé reist af frú Auði, til að heiðra hennar merka framlag í stjórnmálabaráttu og minna á sögulegan sess hennar í íslenskum stjórnmálum.

Blómsveigur lagður að minnisvarðanum um dr. Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann flokksins

Að fundinum loknum héldu stjórnarmenn í SUS að minnisvarðanum um dr. Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Björnsdóttur eiginkonu hans, og dótturson þeirra, Benedikt Vilmundarson. Þau létust hinn 10. júlí 1970 er forsætisráðherrabústaðurinn að Þingvöllum brann. Lögðu Hafsteinn Þór og Þorbjörg Helga blómsveig að minnisvarðanum við þetta tilefni. 35 ár eru í sumar frá þessum skelfilega atburði er dr. Bjarni, Sigríður og Benedikt létust. Þótti okkur við hæfi að minnast forystu dr. Bjarna í íslenskum stjórnmálum og starfa hans í þágu Sjálfstæðisflokksins og Sambands ungra sjálfstæðismanna á afmælisdegi SUS. dr. Bjarni er sá stjórnmálamaður 20. aldarinnar sem er í mestum metum hjá mér. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á stjórnmálamanninum Bjarna og stjórnmálastefnu hans sem varð meginstef Sjálfstæðisflokksins þann langa tíma sem hann starfaði í forystusveit hans. Hef ég lesið margoft greinasafn hans, Land og lýðveldi, og jafnan þótt mikið til þess koma.

Dr. Bjarni Benediktsson var arkitekt utanríkisstefnu Íslendinga og markaði söguleg áhrif í senn bæði á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Forysta hans var Sjálfstæðisflokknum mikilvæg. Það mun vonandi aldrei gleymast hversu mikilvægur forystumaður dr. Bjarni var okkur sjálfstæðismönnum. Hann markaði stór skref í stjórnmálasögu landsins að mínu mati. Allir þeir sem kynna sér stjórnmálaferil dr. Bjarna komast fljótt að því hversu öflugur hann var, hann var sá forystumaður íslenskra stjórnmála á 20. öld sem hafði mest áhrif á að móta lýðveldinu Íslandi framtíðarstefnuna, færa Ísland fyrstu skrefin í átt að forystu í eigin málum og móta utanríkisstefnu landsins, sem hefur haldist að mestu óbreytt síðan. Íslenskt stjórnmálalitróf varð litlausara við snögglegt og ótímabært fráfall hans fyrir 35 árum. Brátt kemur út ævisaga hans sem mun rekja æviferil dr. Bjarna í ítarlegu máli. Verður ánægjulegt að lesa þá bók. Við minnisvarðann flutti Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, stutt ávarp og minntist dr. Bjarna.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Afmælisins verður minnst næstu vikuna með sérstökum hátíðarpistlum á vef SUS þar sem nokkrir fyrrum formenn SUS rita hugleiðingar sínar í tilefni afmælisins. Þegar hafa birst góðar greinar eftir Ásgeir Pétursson fyrrum bæjarfógeta og sýslumann, og Árna Grétar Finnsson hæstaréttarlögmann. Hvet ég alla til að lesa þau skrif og þá pistla sem framundan eru á vefnum. Í sunnudagspistli um helgina fjallaði ég ítarlega um afmæli SUS og fór þar yfir það sem ég tel mestu skipta þegar saga SUS er skoðuð og þegar litið er inn í framtíðina.

Saga dagsins
1914 Franz Ferdinand hertogi, myrtur ásamt eiginkonu sinni, Sophie, af Gavrilo Princip, í Sarajevo. Morðið á þeim leiddi til upphafs deilna og að lokum varð upphafspunktur fyrri heimsstyrjaldarinnar.
1919 Versalasáttmálinn formlega undirritaður - með því lauk fyrri heimsstyrjöldinni sem stóð í 5 ár.
1991 Margaret Thatcher tilkynnir að hún gefi ekki kost á sér í bresku þingkosningunum 1992 eftir
33 ára þingferil - Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands í nóvembermánuði 1990.
1997 Mike Tyson dæmdur úr leik í hnefaleikabardaga við Evander Holyfield, í kjölfar þess að hann bítur bita úr eyra hans. Tyson og Holyfield voru að keppa um heimsmeistaratitil í boxi í þungavigt.
2001 Slobodan Milosevic fv. forseti Júgóslavíu, framseldur til stríðsglæpadómstóls í Haag í Hollandi.

Snjallyrðið
Moon river, wider than a mile,
I'm crossing you in style someday,
Oh, dream maker, you heartbreaker,
Wherever you're goin',
I'm goin' your way.

Two drifters, off to see the world,
There's such a lot of world to see,
We're after the same rainbow's end
Waitin' round the bend
My Huckleberry friend,
Moon river and me.
Johnny Mercer tónskáld (1909-1976) (Moon River)