Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 ágúst 2005

Punktar dagsins
Díana, prinsessa af Wales (1961-1997)

Átta ár eru í dag liðin frá því að Díana prinsessa af Wales, fórst í hörmulegu bílslysi í París. Mikið hefur verið rætt og ritað um ævi og örlög Díönu prinsessu, bæði fyrir og eftir sviplegt andlát hennar. Óhætt er að fullyrða að hún hafi verið ein mest áberandi kona 20. aldarinnar og sett svip sinn á samtíð sína með mjög miklum hætti. Eins og frægt var sagt í blöðum er hún lést var hún mest myndaða kona sögunnar. Hún var sannkölluð fjölmiðlastjarna sem skreytti bresku konungsfjölskylduna og var áberandi bæði fyrir og eftir að hún giftist inn í fjölskylduna. Hún heillaði allan almenning um leið og hún var kynnt fyrst fyrir fjölmiðlum fyrir 24 árum og var athyglisvert mótvægi við Karl Bretaprins, sem hún giftist hinn 29. júlí 1981. Sögulega séð verður hennar sennilega helst minnst fyrir að hafa gifst Karli, ríkiserfingja Bretlands, og að vera móðir væntanlegs konungs Bretlands, Vilhjálms Bretaprins. Brúðkaup Díönu og Karls í St. Paul's dómkirkjunni í London í júlí 1981 var á þeim tíma kallað brúðkaup aldarinnar. Hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau synina William og Harry á fyrri hluta níunda áratugarins. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna.

Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa gerði grein fyrir sinni hlið fallandi hjónabands síns í frægri bók árið 1992. Á þeim tíma var ekki gefið upp að hún væri heimildarmaður bókarinnar en Andrew Morton ljóstraði loks formlega upp um það eftir lát hennar. Þó varð öllum ljóst að Díana sjálf hefði veitt viðtöl vegna bókarinnar og hún hafði leyft nánustu vinum sínum að tjá sig um hjónaband hennar og árin ellefu í hjónabandinu við Karl. Í bókinni kom fyrst fram opinberlega að Díana hefði verið haldin átröskunarsjúkdómnum búlimíu og strítt jafnframt við sjálfmorðshugsanir á tímabili. Á síðasta ári voru fyrst birtar opinberlega hljóðupptökur af samtölum Díönu við Andrew Morton ævisöguhöfund hennar, en samtölin voru hljóðrituð 1991, ári fyrir útgáfu bókarinnar. Árið 1995 tjáði hún sig svo opinberlega í fyrsta skipti um hjónabandið í viðtali í þættinum Panorama og lét ekkert eftir liggja í frásögnum. Bæði bókin og sjónvarpsviðtalið sýndi ævintýraprinsessuna í nýju ljósi. Á bakvið brosin og gleðina sem á yfirborðinu voru sýnileg í fjölmiðlum var eymd og sársauki. Þetta kom vel fram seinustu æviár hennar. Í raun má segja að uppljóstrun þessara þátta hafi sýnt Díönu í öðru ljósi og haft áhrif á það hvernig sagan metur hana.

Allir sem upplifðu sunnudaginn 31. ágúst 1997 muna eftir því hversu mjög andlát hennar kom á óvart. Segja má að flesta hafi sett hljóða við fregnina um dauða hennar. Fráfall hennar snerti marga. Það er sennilega best að segja sem svo að andlát hennar hafi sett mark sitt á almenning allan. Um London var blómahafið ótrúlegt, fólk kom með blóm í miðborg London við heimili hennar í Kensington-höll og við Buckingham-höll til minningar um hana, og sorgin var ólýsanleg. Vikan sem leið frá sviplegu fráfalli hennar til jarðarfararinnar var ólýsanlegur tími sorgar og hluttekningar almennra borgara í garð konu sem fallið hafði frá - konu sem flest þeirra höfðu aldrei talað við en töldu sig þekkja af kynnum sínum af henni í fjölmiðlum og í fjarlægð meðan hún var eiginkona ríkisarfa Bretlands og móðir væntanlegs konungs Bretlands. Persónulega hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir Díönu prinsessu. Það mun sennilega líða á löngu áður en ein manneskja mun hafa jafnmikil áhrif á jafnmarga og hún gerði, bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Þeim sem vilja kynna sér ævi Díönu bendi ég á bók Andrew Morton um hana frá árinu 1992 og minningabók Anthony Holden um hana, sem kom út árið 1998.

Kenneth Clarke

Leiðtogakjör er framundan í breska Íhaldsflokknum. Reglum vegna kjörsins hefur nú verið breytt. Nú er það þingflokkur Íhaldsflokksins og áhrifamenn innan flokksins sem velja leiðtogann. Þannig var það allt til ársins 2001 er Iain Duncan Smith var kjörinn leiðtogi af öllum flokksmönnum í póstkosningu. Reglunum hafði verið breytt árið áður og var þeim ætlað að breyta ásýnd flokksins. Er Duncan Smith var steypt af stóli innan flokksins fyrir tveim árum varð Michael Howard sjálfkjörinn sem eftirmaður hans á leiðtogastóli. Hann boðaði brotthvarf sitt af leiðtogastóli eftir að Íhaldsflokknum mistókst að vinna þingkosningarnar fyrr á þessu ári og afla flokknum fleiri en 300 þingsæti. Stefnir allt í mikil átök um val á eftirmanni hans. Í gær lýsti Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, yfir framboði sínu til leiðtogastöðunnar. Er þetta í þriðja skiptið sem hann fer fram, en hann tapaði í leiðtogakjöri árin 1997 og 2001. Hefur hann lengi verið umdeildur innan flokksins vegna skoðana hans á Evrópumálunum. Ennfremur hefur Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnt um framboð sitt. Er hann almennt talinn í vinstriarmi flokksins. Er öruggt að David Davis muni gefa kost á sér, en hann er framarlega í núverandi skuggaráðuneyti flokksins. Jafnframt bendir flest til þess að Liam Fox og David Cameron munu ennfremur gefa kost á sér. Framundan er því án nokkurs vafa mjög spennandi kjör í Íhaldsflokknum á nýjum leiðtoga flokksins.

Árni Þór Sigurðsson

Óhætt er að segja að Árni Þór Sigurðsson leiðtogi VG í borgarstjórn og fyrrum forseti borgarstjórnar, hafi komið mörgum á óvart í gær með því að bjóða sig fram í annað sætið á framboðslista VG fyrir væntanlegar borgarstjórnarkosningar. Hann ætlar greinilega að leggja allt undir og leggur áherslu á að VG sækist hið minnsta eftir tveim borgarfulltrúum og leggur sig að veði, hann fari þá út ef flokkurinn nær ekki þeim fjölda í borgarstjórn sem hann hefur nú innan R-listans, semsagt tveim. Nær öruggt er að Svandís Svavarsdóttir fari fram í fyrsta sætið. Svandís er vel ættuð pólitískt. Faðir hennar er Svavar Gestsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins. Hún er móðir Odds Ástráðssonar formanns ungra vinstri grænna. Hún er núverandi formaður VG í borginni. Engum þarf að blandast hugur um það hversu sterk hún er innan flokkskjarnans. Svo er staða Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, með öllu óljós eftir að hún varð undir á frægum félagsfundi VG um daginn. Katrín Jakobsdóttir ætlar væntanlega ekki að fara fram í borgarmálunum. Væntanlega stefnir hún á þingframboð árið 2007. Nú hefur Árni Þór minnt á sig og opnað heimasíðu á netinu. Byrjar hann með krafti með skondnum pistli um vefskrif Össurar.

Eyðileggingin í New Orleans

Fellibylurinn Katrín gekk yfir Louisiana, Mississippi og Alabama í byrjun vikunnar og olli gríðarlegu tjóni og eyðileggingu. Talið er að Katrín sé umfangsmesti fellibylur og ofsaveður sem yfir Bandaríkin hafi gengið í manna minnum. Glundroði ríkir í New Orleans og er óttast um að mörg hundruð manns, jafnvel þúsundir, hafi farist í flóðum eftir hamfarir Katrínar. Flætt hefur um meginpart borgarinnar og eyðileggingin er gríðarleg. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flýtti lokum sumarfrís síns í Crawford í Texas og hélt til Louisiana og flaug yfir hamfarasvæðin. Tjáði hann sig um málið að því loknu og lofaði yfirvöldum á svæðinu allri mögulegri aðstoð sem til þyrfti. Sagði forsetinn að náttúruhamfarirnar séu með því versta sem yfir Bandaríkin hafi dunið í manna minnum. Ljóst er að uppbyggingarstarf muni taka mörg ár, jafnvel áratugi. Ljóst er að Katrín hefur valdið mun meira eigna- og fjártjóni en aðrar náttúruhamfarir síðustu árin. Hugur allra er þessa dagana hjá íbúum suðurríkja Bandaríkjanna sem orðið hefur fyrir eignatjóni og misst aðstandendur sína í hamförunum.

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, lætur af störfum í dag. Við blasir að nokkur þáttaskil eru framundan hjá RÚV samhliða útvarpsstjóraskiptum. Það hefur komið vel fram í fjölmiðlum eftir að tilkynnt var um skipan Páls Magnússonar í þetta embætti að hann hefur um margt ólíkar skoðanir á hlutverki RÚV og stefnu þess en forverinn. Hvaða skoðanir sem menn hafa svosem á verkum Markúsar Arnar má fullyrða að hann hafi sett mikið mark á Ríkisútvarpið. Hefur hann enda starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Eftir störf að stjórnmálum og setu í útvarpsráði var hann skipaður útvarpsstjóri árið 1985. Hann var borgarstjóri í Reykjavík í þrjú ár, 1991-1994, og varð svo aftur útvarpsstjóri árið 1997. Hefur RÚV breyst mjög á starfstíma hans og við blasa enn meiri breytingar á fjölmiðlalandslaginu. Á þessum tímamótum hjá RÚV samhliða því að Markús Örn hættir og heldur til starfa í utanríkisþjónustunni blasir nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði við eftirmanni hans.

Saga dagsins
1919 Jóhann Sigurjónsson skáld og rithöfundur, deyr í Kaupmannahöfn. Hann var þá 39 ára að aldri.
1980 Silfursjóður fannst við Miðhús á Fljótsdalshéraði - hefur verið deilt um aldur silfursins síðan þá.
1980 Verkalýðssamtökin Samstaða voru stofnuð í Póllandi - leiddi uppreisn gegn stjórn kommúnista.
1994 Írski lýðveldisherinn lýsir yfir fullu vopnahléi, eftir rúmlega 25 ára baráttu með sprengjuárásum.
1997 Díana prinsessa af Wales, deyr, í bílslysi í París. Díana prinsessa var 36 ára gömul er hún lést.

Snjallyrðið
Fyrir löngu, löngu bjó
ljúflingsmey í steini,
hjúfraði og hörpu sló
svo hljómurinn barst út að sjó
til eyrna ungum sveini;
eitthvert töfraafl hann dró
yfir skriður, holt og mó
að Ljúflingasteini.
En þó varð hörpuhljómurinn
að heitu, sáru veini;

Opna steininn ei ég má
aldrei færð þú mig að sjá
en hug minn áttu og hjartans þrá
heillavinurinn eini.
Margur er þeim að meini,
sem búa í steini.

Sveinninn hlýddi hljóður á
og hugsaði margt í leyni.
Í steininum heyrði hann hjarta slá
og utan um hann örmum brá,
kyssti hann og kreisti hold frá beini.
Margt er þeim að meini
sem eiga það, sem þeir elska mest,
inni í steini.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Margt er þeim að meini)

Þakka þeim sem hafa sent komment á ljóðin sem ég hef birt á vefnum. Það er ánægjulegt að fleiri hafa haft gaman af þessum ljóðum en ég.