Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 ágúst 2005

Punktar dagsins
Ráðhúsið í Reykjavík

Samfylkingin í Reykjavík ákvað á félagsfundi sínum í gærkvöldi að flokkurinn myndi bjóða fram á eigin vegum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík, þann 27. maí nk. Með þessari ákvörðun fetar flokkurinn í fótspor Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem ákvað eigið framboð á stormasömum félagsfundi sínum á mánudagskvöldið. Nú stendur því aðeins Framsóknarflokkurinn eftir innan R-listans, það er eina aflið sem stendur að R-listanum sem hefur ekki lýst yfir eigin framboði undir flokksmerki í stað kosningabandalagsins. Það er því nokkuð ljóst að R-listinn hefur liðið undir lok og ekkert verður um sameiginlegt framboð flokka undir einum fána eins og verið hefur í borginni, af hálfu félagshyggjumanna, allt frá árinu 1994. Reyndar er Framsóknarflokkurinn, eins og fjöldi framsóknarmanna hefur bent svo réttilega á, eini flokkurinn sem hefur allan tímann verið stoð undir R-listanum. Uppstokkunin á vinstrivængnum undir lok 20. aldarinnar með endalokum A-flokkanna og stofnun Samfylkingar og VG breytti liðsskipan innan R-listans og Framsókn var allan tímann ein helsta stoðin undir valdakerfinu. Nú er bara beðið eftir tíðindum úr herbúðum framsóknarmanna og blasir auðvitað við eigið framboð á þeim bænum. Allavega verður enginn R-listi.

Eins og ég benti á í gær voru nokkrir helstu leiðtogar afgangsins af R-listanum, t.d. borgarstjóri, formaður borgarráðs og forseti borgarstjórnar, með þá skoðun uppi fyrst í stað eftir ákvörðun vinstri grænna að hinir tveir flokkarnir gætu bara haldið áfram eins og ekkert hefði gerst. Það voru auðvitað bara órar og það var afneitun vissra aðila að neita að sætta sig við stöðu mála. Í skrifum mínum í gær benti ég á að þó þessir flokkar gjarnan vildu halda áfram væri ekki til neins að berjast. Það væri borin von að ætla að ná hreinum meirihluta með þessa tvo flokka eina innanborðs gegn VG og auðvitað stóla flokkarnir tveir ekki á Frjálslynda flokkinn sem þriðju stoðina. Þetta voru bara tálsýnir fólks sem skynjaði veikari stöðu en áður með hruni hins gamalkunna R-lista. Eins og staðan er orðin verða bara flokkaframboð og þar munu flokksstofnanirnar láta einfaldlega reyna á stöðu sína. Það þarf ekki samningaviðræður um völd, plott og áhrif, til að sjá grunnstöðuna eftir þær kosningar. Þar fer fram raunhæf og eðlileg mæling á styrkleika flokkanna á eigin vegum og ennfremur hvernig þeim gengur að keppa gegn Sjálfstæðisflokknum. En með því hætta flokkarnir auðvitað á að missa valdastöðu sína.

Í tíufréttum sjónvarps í gærkvöldi var rætt við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra. Farið yfir fyrrnefnda ákvörðun Samfylkingarinnar og kosningabaráttuna framundan - við blasir auðvitað að kosningabaráttan er hafin af krafti. Þar var hún allt í einu að tjá sig í gjörólíku hlutverki en hún hefur átt að venjast í þau ellefu ár sem hún hefur setið í borgarstjórn. Hún er nú allt í einu orðin áberandi flokksframbjóðandi í borgarstjórnarkosningum en ekki lengur á vegum kosningabandalags. Það hefur eiginlega aldrei reynt á Steinunni Valdísi sem öflugan flokksframbjóðanda. Reyndar var hún fyrst í stað frambjóðandi Kvennalista og svo Samfylkingarinnar inni í R-listanum. En hún hefur fylgt R-listanum allt frá því hún fór þar fyrst fram eftir háskólanám sitt. Hefur ekki verið mjög áberandi á flokksvettvangi, ef frá er talið að hún var um tíma ritari Samfylkingarinnar. Verður fróðlegt að fylgjast með henni höndla nýtt hlutskipti sitt. Sérframboðið veikir hiklaust stöðu Steinunnar Valdísar sem hefði með áframhaldandi R-lista getað gert frekari tilkall til borgarstjórastóls eða leiðtogastöðu innan Samfylkingar í gegnum R-listann. Við blasir að nú fær hún öfluga samkeppni. Nefna mætti Stefán Jón Hafstein og Dag B. Eggertsson (reyndar hafði hann útilokað framboð nema í gegnum R-listann).

Svo má auðvitað ekki gleyma Össuri Skarphéðinssyni leiðtoga Samfylkingarinnar í RN, sem hefur verið mjög áberandi seinustu vikurnar að tala um stöðuna innan R-listans. Hann einn þorði að tala upphátt um plottviðræðurnar frægu, meðan að öðrum var sagt að þegja! Í gærkvöldi ritaði hann merkilega bloggfærslu á vef sinn um sérframboð Samfylkingarinnar og endalok R-listans sem hefur nú svo kyrfilega verið kistulagður og allir keppast við að gleyma. Ber færslan hið merkilega nafn: "Í jarðarför hjá ókunnu líki". Þar skrifar hann nýkominn af flokksfundinum og rekur atburðarás fundarins og nefnir vissa kandidata en nefnir ekkert um hvort hann hafi áhuga sjálfur. Fari Dagur ekki fram (sem Össur greinilega vill að fari í prófkjörið) blasir jafnvel við að Össur stökkvi í slaginn. Í útvarpsviðtali í gær gaf hann þeim kosti vel undir fótinn. Flest bendir til þess að Samfó hleypi óháðum inn í prófkjörið. Í gær sá ég mig tilknúinn til að rita smá athugasemd við bloggfærslu Össurar um mögulegt samstarf VG og D og benti honum á ótrúleg komment Bjarkar hinnar vinstri grænu sem sér víst svart þegar að talað er um Sjálfstæðisflokkinn. Svaraði hann um hæl og kom með merkilegt komment á það sem ég þakka hérmeð fyrir - lítið endilega á það lesendur góðir. En eftir stendur að hasarinn er hafinn í borginni - þetta verður sko hörkuslagur!

Elizabeth Taylor og James Dean í Giant

Gærkvöldið var rólegt og gott - enginn fundur aldrei þessu vant og því var ekta popp og kók-kvöld. Horfði á eðalmyndina Giant - stórfenglegt og ógleymanlegt meistaraverk frá miðjum sjötta áratugnum þar sem sagt er frá hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Hér segir frá nautgripabóndanum Jordan Benedict sem á stærsta búgarð Texasríkis, Reata, og rekur hann búið ásamt hinni kjarnmiklu systur sinni Luz Benedict í upphafi myndarinnar. Allt hans lífsmynstur tekur miklum breytingum er hann kynnist hinni auðugu Leslie Lynnton og giftist henni. Er hann snýr aftur heim með eiginkonu sína breytist líf hans til muna er hún tekur til við að stjórna fjölskyldubúinu að sínum hætti og mislíkar systur hans ráðríki eiginkonunnar. Er hún fellur snögglega frá eftir að hafa dottið af baki á hesti eiginkonu bróður síns breytist lífsmynstrið á búgarðinum og tekur Leslie þá að fullu við húsmóðurhlutverkinu á staðnum. Er Luz Benedict fellur frá kemur í ljós að hún hefur ánafnað vinnumanninum á bænum, Jett Rink, stóran landskika af búgarði óðalseigandans.

Reynir Jordan að borga honum jafnvirði skikans til að halda því innan fjölskyldunnar. Jett hafnar því og reynist skikinn luma á ofurgnótt olíulinda. Vinnumaðurinn rís úr öskustónni og reynir að ásælast völd og áhrif óðalsbóndans - upp hefst öflug valdabarátta þar sem öllum brögðum er beitt. Óviðjafnanleg kvikmynd sem lýsir hinum miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu í Texas um miðja 20. öldina á einstaklega góðan hátt. Hér er allt til að skapa ógleymanlegt meistaraverk; handritið, myndatakan og tónlistin eru frábær, en aðall myndarinnar er leikstjórn meistarans George Stevens, sem hlaut óskarinn fyrir. Leikurinn er í klassaformi. Rock Hudson var aldrei betri og glæsilegri en í hlutverki óðalsbóndans Jordan Benedict. Mercedes McCambridge er stórfengleg í hinu litla en bitastæða hlutverki kjarnakonunnar Luz Benedict og hlaut hún óskarinn fyrir. Elizabeth Taylor er eftirminnileg í hlutverki ættmóðurinnar Leslie Lynnton Benedict og skapar eftirminnilega og heilsteypta persónu sem heldur reisn sinni og glæsileika til enda. Síðast en ekki síst er James Dean frábær í síðasta kvikmyndahlutverki sínu sem hinn áhrifagjarni og valdagráðugi Jett Rink sem fellur að lokum á eigin bragði. Hann lést í bílslysi hinn 30. september 1955, örfáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk.

Hafði ég ekki séð þessa mynd í áratug þegar ég setti hana í tækið - en ég hafði keypt myndina á DVD. Var ég satt best að segja búinn að gleyma hvað þessi mynd er ótrúlega góð og sterkbyggð lýsing á Texas, fyrir og eftir breytingarnar miklu í olíubissnessnum. Þetta þriggja tíma svipmikla meistaraverk hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Að mínu mati kunnu þeir sem gerðu myndir á fyrrihluta 20. aldarinnar betur þá miklu snilld að segja frá dramatískum stórátökum og skapa hina gullnu stórmynd en arftakar þeirra (með nokkrum undantekningum þó). Það er valinn maður á hverjum pósti í þessu epíska meistaraverki og hefur myndin jafnvel batnað með aldrinum, eins og hið allra besta rauðvín. Semsagt: gullaldarklassík sem er nauðsynlegt öllum þeim sem hafa gaman af eðalmyndum kvikmyndasögunnar. Og ekki síst öllum þeim sem vilja verða vitni að seinustu töfrum hinnar gömlu kynslóðar sem gerði Hollywood að því stórveldi sem það er í dag. Ómótstæðilegt tímamótaverk - þessa verða allir að sjá (og upplifa með sínum hætti).

Jóhannes Jónsson

Eins og varla hefur farið framhjá neinum sem fylgist með þjóðmálunum og fréttunum var mál ákæruvaldsins á hendur lykileigendum og forystumönnum Baugs þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þetta er gríðarlega umfangsmikið og stórt mál og blasir við að það verði fyrir dómi næstu mánuðina. Búast má við niðurstöðu í réttinum fyrir áramótin. Fór ég í gær ítarlega yfir það sem gerst hefur í málinu seinustu dagana og fátt svosem við það að bæta. En vissulega var þetta merkileg sjón að sjá í fréttunum er Jóhannes Jónsson kom þar til réttarins ásamt börnum sínum tveim og öðrum sem ákærðir eru með honum. Þetta er mjög umfangsmikið og sögulegt mál - niðurstaða þess fyrir dómi mun hafa áhrif á hvorn veginn sem fara mun. Það blasir við. Merkilegt hefur verið að fylgjast með atburðum seinustu dagana. Baugur er greinilega með massavörn, sem fer ekki á milli mála. Þeir eru ekki að sækja fram með tali sínu og þeirra sem þeim tengjast. Þetta er gríðarleg vörn skiljanlega, enda málið mjög erfitt fyrir þá. Reyndar vekur mesta athygli hvernig komið er fram og hversu víðtæk vörnin er og þá á hvaða vettvangi. Að mestu leyti fer hún fram utan réttarsalarins virðist vera. Hefur verið merkilegt að fylgjast með framsetningu Baugs í málinu - það er ýmsu beitt.

Sérstaka athygli vakti að hinn margumtalaði Jón Gerald Sullenberger gerði sér ferð til Íslands til að vera viðstaddur þingfestingu málsins í gær. Var óneitanlega táknrænt að sjá þá fjandvini Baugsfeðga og Jón Gerald samankomna í sama herberginu í Héraðsdóminum. Táknrænt var vissulega að hann horfði framan í þá feðga allan tímann en þeir litu aldrei framan í hann til baka. Heyrðust margar skondnar sögur af þessu í pressunni í gær. Í gærkvöldi var svo Jón Gerald gestur þeirra Svansíar og Þórhalls í ítarlegu viðtali í Íslandi í dag. Þar fór hann yfir málið frá sínum bæjardyrum. Hvet ég alla lesendur vefsins til að horfa á viðtalið - hafi þeir ekki gert það. Fannst mér sérstaklega merkilegt að sjá hversu einbeittur hann var og sjálfsöruggur. Fullyrti hann að hann hafi í sínum fórum afrit tölvupósta frá ákærðu og ýmsar aðrar sannanir fyrir sínum fullyrðingum. Ef svo er þá blasir við að húsleitin hjá Baugi hafi verið fullkomlega réttlætanleg. Þar með hrynja að sjálfsögðu allar fullyrðingar Baugsfeðga um aðkomu fyrrum forsætisráðherra. Það var ekki til hik hjá honum í tali eða töktum. Einnig er ekki hægt að segja annað en að framkoma hans í réttinum hafi vakið verðskuldaða athygli. Þetta mál er stórt og mikið og verður mjög merkilegt að fylgjast með því næstu vikurnar.

Akureyrarkirkja

Valnefnd sóknarnefndar Akureyrarprestakalls ákvað á fundi sínum á þriðjudag að mæla með sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni sóknarpresti í Ólafsvík, í stöðu sóknarprests við Akureyrarkirkju. Mun hann taka við prestsembætti í kirkjunni af sr. Jónu Lísu Þorsteinsdóttur sem lætur af störfum um miðjan septembermánuð. Jafnframt mælti nefndin með því að Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, skyldi hljóta nýtt embætti prests með áherslu á barna- og unglingastarf. Með þessu verða þrír prestar starfandi við Akureyrarkirkju, en þar starfar fyrir sr. Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur prestur hér frá því að sr. Þórhallur Höskuldsson lést með sviplegum hætti fyrir áratug. Sr. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt og sannað að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg. Vil ég nota tækifærið og þakka Jónu Lísu góð störf í þágu okkar hér í Akureyrarsókn.

Bernard Herrmann

Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi kvikmynda og ekki síður tónlistarinnar í þeim. Nýlega keypti ég mér stórfenglega safndiska með bestu verkum fjölda snillinga. Mun ég fjalla um þá næstu dagana. Fyrstnefndur er meistari Bernard Herrmann. Hann var eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda 20. aldar. Safn hans er á geislaplötunni: Bernard Herrmann's Complete Film Scores. Fremst í flokki verka hans eru tónverk í myndum Sir Alfred Hitchcock, t.d. North by Northwest, The Man Who Knew Too Much, Vertigo og Psycho. Fullyrða má að áhrifstónlist hans í seinastnefndu myndinni hafi haft mikið að segja um hversu hrollköld hún varð - hryllingurinn sést ekki en hann er fenginn fram með tónlistinni. Ennfremur átti hann tónlist í t.d. Citizen Kane, The Longest Day, Cape Fear, Laura og The Ghost and Mrs. Muir. Seinasta tónverk BH var saxófónstefið ódauðlega í Taxi Driver. Herrmann varð bráðkvaddur á aðfangadag 24. desember 1975, örfáum klukkutímum eftir að saxófónstefið var tekið upp undir stjórn hans. Þessi geislaplata er fágæt perla með mörgum af eftirminnilegustu kvikmyndastefum sögunnar á einum og sama staðnum. Allir sem hlusta á verkin og sjá myndirnar ennfremur finna áhrifamátt tónlistarinnar. Það er á við hið allra besta rauðvínsstaup að hlusta á verk þessa mæta snillings. Herrmann var einn af þeim bestu - enginn vafi á því.

(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum Bernard Herrmann)

Saga dagsins
1786 Reykjavík, Eskifjörður og Grindavík fengu kaupstaðarréttindi - landsmenn voru þá um 40.000.
1964 S-Afríku var úthýst af Ólympíuleikunum vegna aðskilnaðarstefnu landsins - það fékk svo aftur inngöngu að leikunum árið 1992 eftir að aðskilnaðarsstefnunni hafði verið úthýst og Nelson Mandela hafði verið sleppt úr varðhaldi yfirvalda eftir tæplega þriggja áratuga fangelsisvist á Robben-eyjunni.
1986 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar minnst með veglegum hátíðarhöldum - 70-80.000 manns voru
þá í miðborginni og borðuðu m.a. stærstu tertu sem bökuð hafði verið hérlendis, 200 metra langa.
1996 Menningarnótt var haldin í fyrsta skipti í Reykjavík, á 210 ára afmælisdegi Reykjavíkurborgar.
2004 Gylfi Þ. Gíslason fyrrum ráðherra og prófessor við HÍ, lést, 87 ára að aldri. Gylfi var formaður Alþýðuflokksins 1968-1974 og sat á þingi fyrir flokkinn 1946-1978. Hann var menntamálaráðherra landsins, lengur en nokkur annar, samfleytt í fimmtán ár, 1956-1971, og iðnaðarráðherra 1956-1958. Hann var forseti Alþingis á hátíðarfundi þingsins á Þingvöllum sumarið 1974, er fagnað var 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Gylfi ritaði mörg athyglisverð rit um hagfræði og stjórnmál, sérstaklega er eftirminnileg bók hans um viðreisnarárin, 1959-1971, sem kom út 1993, en Gylfi Þ. sat sem ráðherra viðreisnarstjórnarinnar allan valdaferil hennar. Einnig var Gylfi Þ. höfundur margra þekktra sönglaga.

Snjallyrðið
Við sjáum að dýrð á djúpið slær,
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær
og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,
að þar heyrast englarnir tala,
og einn þeirra blakar bleikum væng,
svo brjóstið þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,
svo blaktir hann síðasti lífsins loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt
og svanur á bláan voginn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Við dánarbeð)