Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 nóvember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fer ég yfir litlausa stjórnmálaumræðu seinustu vikna. Fer ég yfir nokkra punkta sem þar bera hæst, t.d. málefnalega fátækt Samfylkingarinnar og leiðtoga hennar, fangaflugið, forsætisráðherrann, för forsetahjónanna til Mónakó við embættistöku furstans, skrifin á vef SUS og vegsauka Alfreðs Þorsteinssonar er hann hættir stjórnmálaþátttöku. Nokkur deyfð hefur verið yfir þinginu. Átök hafa þó verið um fjárlög. Þar er nýlega lokið annarri umræðu og stefnir í að fjárlögin verði samþykkt vel fyrir jólaleyfi þingmanna. Stjórnarandstaðan er í sama gírnum og venjulega í þeirri umræðu.

Frumvarpið er vandað og gott – mikill afgangur fyrirsjáanlegur á ríkiskassanum og því úr litlu að moða fyrir stjórnarandstöðuna. Það er þó reynt að tjalda til öllum mögulegum og ómögulegum nöldurpunktum og skreyta andstæðingarnir sig með þeim lítt veglega búnaði í umræðunni. Sérstaklega fannst mér koma vel fram að stjórnarandstaðan er algjörlega málefnalega fátæk þegar það eina sem þau gátu fundið að í umræðunni væri að menntamálaráðherra væri stödd erlendis í embættiserindum og að nokkrir ráðherrar væru ekki staddir í salnum. Þar voru þó bæði forsætis- og fjármálaráðherra sem auðvitað gátu svarað öllum spurningum um fjárlögin og tekið umræðuna frá öllum þeim hliðum sem máli skiptir. Stjórnarandstaðan sannaði með tali sínu hversu illa hún stendur.

- í öðru lagi fjalla ég um þau þáttaskil sem fylgja því að Angela Merkel hefur tekið við kanslaraembættinu í Þýskalandi, fyrst kvenna. Er hún áttundi stjórnmálamaðurinn sem er kanslari frá stríðslokum. Forverar hennar í embættinu eru: Konrad Adenauer, Ludwig Erhard, Kurt Georg Kiesinger, Willy Brandt, Helmut Schmidt, Helmut Kohl og Gerhard Schröder. Angela Merkel er þriðji kanslari sameinaðs Þýskalands - en austrið og vestrið voru sameinuð árið 1990 eftir fall Berlínarmúrsins árið áður. Það er því enginn vafi á því að söguleg þáttaskil verða með því að hún tekur við æðsta valdaembættinu í landinu.


Stjórnarmyndanir í forsetatíð
dr. Kristjáns Eldjárns


Dr. Kristján Eldjárn forseti

Nýlega kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggist bókin á ítarlegum minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980. Er þar sjónum einkum beint að stjórnarmyndunum í forsetatíð hans og því hvernig hann hélt á þeim málum á ferli sínum. Áður hefur verið fjallað um ævi og forsetaferil Kristjáns í ævisögu hans sem rituð var af Gylfa Gröndal og kom út árið 1991. Seinni hluti forsetaferils Kristjáns einkenndist af hörðum stjórnarkreppum og því þurfti hann sem forseti að grípa til þess að taka ákvarðanir sem leiddu til þess hvernig ferlið vannst að lokum. Er ljóst að forseti Íslands getur með aðkomu sinni að þeim málum haft veruleg söguleg áhrif. Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í gær fór ég yfir sögulega þróun stjórnarmyndana í forsetatíð Kristjáns og hvernig hann er metinn í sögubókunum eftir feril sinn í embættinu.

Dr. Kristján Eldjárn var kjörinn forseti Íslands með afgerandi hætti í forsetakosningunum 30. júní 1968. Bar hann þar sigurorð af dr. Gunnari Thoroddsen, sem verið hafði um árabil einn af helstu leiðtogum Sjálfstæðisflokksins. Hann hafði horfið úr sviðsljósi stjórnmálanna árið 1965 og látið af embætti fjármálaráðherra og varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og tekið við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Var Gunnar tengdasonur annars forseta lýðveldisins, Ásgeirs Ásgeirssonar. Hlaut Kristján 2/3 greiddra atkvæða og komu yfirburðir hans mörgum að óvörum á sínum tíma. Tók Kristján við embætti þann 1. ágúst 1968. Strax þá varð ljóst að þáttaskil höfðu átt sér stað. Vel menntaður alþýðumaður norðan úr landi hafði sigrað þekktan stjórnmálamann til fjölda áratuga. Einkennandi þóttu með þessu áhrif tíðarandans. Þá þótti í tísku að vera á móti ráðandi öflum og varð Kristján holdgervingur þess að fólk vildi aðrar áherslur og aðra nálgun á forsetaembættið en hefðu ella orðið með kjöri Gunnars í embættið.

Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947 og gegndi embættinu allt þar til hann tók við forsetaembætti. Kristján þótti á tólf ára forsetaferli vera forseti fólksins – alþýðumaður sem auðnaðist að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Hann var ólíkur því sem við kynntumst síðar í embættinu. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.

Ég hvet alla lesendur til að líta á pistilinn og kynna sér stjórnarmyndanir í forsetatíð Kristjáns og skoðanir mínar á þeim málum. Ennfremur hvet ég auðvitað alla til að lesa bók Guðna Th. og ævisögu Kristjáns eftir Gylfa Gröndal.

Saga gærdagsins
1594 Tilskipun þess efnis að Grallarinn (Graduale) skyldi notaður sem messusöngbók á Hólum og Skálholti tók gildi - bókin var gefin út hérlendis af Guðbrandi Þorlákssyni biskup á Hólum í Hjaltadal.
1943 Kvikmyndin Casablanca sem skartaði Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum, var frumsýnd - myndin sló mjög í gegn um allan heim og hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1944.
1981 Útgáfa DV hófst - þá sameinuðust Dagblaðið og Vísir í eitt blað - Vísir hafði komið út frá 1910 en Dagblaðið frá 1975. DV varð svo gjaldþrota 2003 en hélt áfram að koma út af hálfu nýrra eigenda.
1981 Veitinga- og skemmtistaðurinn Broadway við Álfabakka í Reykjavík var opnaður - lokaði 1990.
1992 Tilkynnt í breska þinginu að Elísabet II Englandsdrottning, hafi ákveðið að eigin ósk að borga skatta. Fram að þeim tíma hafði aldrei tíðkast að þjóðhöfðingi Englands borgaði skatta til ríkissjóðs.

Saga dagsins
1896 Grímur Thomsen skáld, lést, 76 ára að aldri. Hann starfaði mjög lengi í utanríkisþjónustu Dana, bjó síðar á Bessastöðum og sat t.d. á Alþingi. Meðal þekktustu kvæða Gríms er t.d. Á Sprengisandi.
1956 Vilhjálmur Einarsson, 22 ára háskólanemi, vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Vilhjálmur stökk þá 16,25 metra, sem var þá bæði Íslands- og Norðurlandamet.
1975 Sjónvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Ross McWhirter var myrtur fyrir utan heimili sitt í London - McWhirter var mikill gagnrýnandi IRA og var hann myrtur af leigumorðingjum samtakanna.
1981 Halldóra Bjarnadóttir lést á Blönduósi, 108 ára gömul. Halldóra er sá Íslendingur sem hefur náð hæstum aldri. Hún var kennari og skólastjóri til fjölda ára og gaf svo út ársritið Hlín í marga áratugi.
1990 John Major kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins í stað Margaret Thatcher sem verið hafði leiðtogi flokksins í 15 ár og forsætisráðherra Bretlands í 11 ár - Major tók við embætti daginn eftir.

Snjallyrðið
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)