Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 janúar 2006

Stefán Friðrik

Prófkjör flokksfélaga okkar í Kópavogi var öflugt og gott að mínu mati. Listinn sem út úr prófkjörinu kom er sigurstranglegur. Það er allavega ljóst að ekki verður hægt að saka sjálfstæðismenn í Kópavogi um að úthýsa konunum sínum, enda eru sjö konur í tíu efstu sætunum. Semsagt allar konurnar sem gáfu kost á sér lenda í tíu efstu sætunum. Það er við hæfi að óska þeim til hamingju með það. Gunnar Ingi Birgisson hlaut, eins og við var að búast, afgerandi umboð flokksmanna til forystu á framboðslistanum. Hann hefur leitt flokkinn nú í sextán ár, við allar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi, frá árinu 1990. Hann var formaður bæjarráðs samfellt í fimmtán ár, 1990-2005, en hefur verið bæjarstjóri í Kópavogi frá 1. júní 2005. Gunnari tókst ásamt Sigurði Geirdal að koma vinstrimönnum frá völdum eftir kosningarnar 1990 og mynda sterkt bandalag til að stuðla að breytingum og eflingu bæjarins.

Sú uppbygging sem þeir leiddu saman í tæpan einn og hálfan áratug sést hvar sem farið er um bæinn. Kópavogur er kraftmikið og öflugt sveitarfélag - heldur áfram í öfluga átt undir farsælli forystu Gunnars sem bæjarstjóra. Hans staða er mjög sterk, eins og sést af úrslitum þessa prófkjörs. Það er alveg ljóst að Kópavogsbúar meta verk Gunnars - hann er öflugur forystumaður sem hefur til fjölda ára unnið að því að styrkja sitt nánasta umhverfi og leiða það af krafti. Hann er kraftmikill baráttumaður fyrir hag sveitarfélags síns, eins og sést hefur í störfum hans. Í öðru sætinu í prófkjörinu varð Gunnsteinn Sigurðsson skólastjóri. Hann kom nýr inn í bæjarstjórn árið 2002 og hlaut þá fimmta sætið á framboðslistanum. Með því fellur Ármann Kr. Ólafsson niður úr því öðru í það þriðja. Ármann er mætur maður og við hér fyrir norðan höfum kynnst honum í kosningabaráttu frá þeim tíma er hann var í starfinu hér. Það er leitt að hann hafi ekki haldið sínum hlut.

Í fjórða sætinu varð sigurvegari þessa prófkjörs, Ásthildur Helgadóttir. Hún hafði aldrei starfað í stjórnmálum er hún tók þátt í prófkjörinu og verið þekkt fyrir störf sín í íþróttamálum, en hún hefur verið fótboltakona frá æskuárum og spilað með landsliðinu í rúmlega sextíu leikjum. Það er ljóst að hún nýtur mikils stuðnings og hún mun verða flokknum góður liðsauki. Hún tekur sæti í bæjarstjórn með vorinu og það er gleðiefni að SUS-ari fari inn í bæjarstjórn í vor. Óska ég Ásthildi góðs gengis í verkum sínum í bæjarstjórn. Fimmta varð svo Sigurrós Þorgrímsdóttir. Hún hefur verið lengi í bæjarstjórn og er sem stendur á þingi í fjarveru Gunnars Birgissonar. Í sjötta sætinu varð svo Margrét Björnsdóttir varabæjarfulltrúi. Þekki ég félaga mína í Kópavogi rétt munu þeir stimpla á hana sem baráttukonuna - sjálfstæðismenn hljóta að stefna á hreinan meirihluta í vor. Óska þeim góðs gengis í kosningabaráttunni með þennan öfluga lista.


Í gærkvöldi hófst undankeppnin hér heima fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Vel er til keppninnar vandað að þessu sinni. Enda tilefni til - á þessu ári eru tveir áratugir liðnir frá því að við tókum fyrst þátt í keppninni. Það var í maímánuði árið 1986 sem Icy-söngflokkurinn (Pálmi Gunnarsson, Helga Möller og Eiríkur Hauksson) héldu til Bergen og fluttu Gleðibankann - glæsilegt lag Magnúsar Eiríkssonar, sem er fyrir löngu orðið sígilt. Að þessu sinni var ákveðið að halda veglega forkeppni og valdi valnefnd 24 lög af þeim 226 sem bárust í keppnina. Í gærkvöldi var semsagt fyrsta kvöldið. 8 lög flutt - 4 komust svo áfram á úrslitakvöldið þann 18. febrúar. Fannst lögin góð sem komust áfram. Sérstaklega fannst mér lög Hallgríms Óskarssonar, Trausta Bjarnasonar og Davíðs Olgeirssonar bera af. Ég allavega kaus þau - var því sáttur með að þau komust áfram.

Gert er ráð fyrir að 2 lög bætist í hóp þeirra 12 sem komast áfram þegar undankeppninni lýkur, þannig að 14 lög munu keppa til úrslita laugardagskvöldið 18. febrúar. Þá ræðst það hvaða lag verður framlag Íslands í keppninni þetta árið, sem verður haldin í Aþenu í Grikklandi. En já, mér leist vel á þetta form að keppni. Þetta var notalegt sjónvarpskvöld fyrir alla fjölskylduna. Fyrst var það Eurovision-spurningakeppnin (sem er mjög skemmtileg fyrir Eurovision-nörd eins og mig) - tókst hún vel upp og var áhugaverð. Spaugstofan átti svo flotta gríntakta í hléinu eftir að lögin höfðu verið flutt. Mjög vel heppnað kvöld hjá Sjónvarpinu. Allavega skemmti ég mér alveg konunglega og við þar sem ég var í gærkvöldi. Flest lögin voru enda mjög góð og vel flutt. Allavega þetta skapar skemmtilegt form og tryggir að keppnin verður lengri og áhugaverðari en ella.


Gestur Einar eðalAkureyringur (með stóru A-i) er nú kominn með nýjan spjallþátt með skemmtilegu ívafi, spjalli og gullaldartónlist, á Rás 1 á laugardögum sem ber heitið Til í allt. Ég hef alltaf haft gaman af Gesti Einari sem útvarpsmanni og sá mjög eftir morgunþáttum hans á Rás 2, sem með hreint ótrúlegum hætti voru slegnir af nýlega. Nú þegar ég skrifa þessa færslu snemma að sunnudagsmorgni er ég einmitt að hlusta á þáttinn hans í gær á ruv.is. Mikið er nú þægilegt að geta hlustað á það góða efni RÚV sem maður missir af þar. Hvet ég alla til að hlusta á þáttinn hans Gests Einars. Gestur hans í gær var organistinn okkar hann Eyþór Ingi. Skemmtilegt spjall og flott tónlist.


Eins og ég sagði frá í gær var fundurinn með Geir mjög vel heppnaður - gott að fá formanninn okkar hingað norður. Á mbl.is er í dag góð frétt um fundinn.

stebbifr@simnet.is