Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:
Hlúum vel að öldruðum
Vel hefur komið fram í könnunum á síðustu árum að Íslendingar telja sig vera með hamingjusömustu þjóðum heims. Hér nýtur fólk velsældar og lifir góðu og hamingjusömu lífi – lífi tækifæranna. Það metum við öll svo mikils. Eins og við vitum öll eru lífsgæði mikil hjá Íslendingum og framfarir á flestum sviðum mannlífsins. Ungt fólk horfir með gleði til framtíðarinnar – lífsins sem er framundan eftir nám. Tækifærin eru svo mörg sem blasa við ungu fólki í dag. Þegar að ungt fólk fetar framtíðarveginn eru áskoranir og velsæld sem blasa við. Þetta góða og öfluga samfélag var skapað af þeim sem eldri eru, elstu kynslóðunum.
Sú kynslóð sem nú er komin á efri ár lagði grunn að þeirri hagsæld og bjó í haginn fyrir þau tækifæri sem við yngra fólkið njótum svo vel á okkar tímum. Eldri kynslóðirnar byggðu upp t.d. atvinnulífið alveg og það nánast frá grunni, lagði drögin af skólakerfinu sem ungt fólk menntast í og heilbrigðiskerfið sem hefur náð betri árangri en í flestum löndum. Eldri kynslóðirnar sér með eigin augum afrakstur verka sinna – þá byltingu sem átt hefur sér stað í aðbúnaði og umgjörð samfélagsins. Staðreyndin er ennfremur sú að þessi kynslóð er umfram allt mun nægjusamari en þær sem yngri teljast. Þrátt fyrir það á ávallt að búa eins vel að henni og kostur er til.
Það hefur oft verið sagt að það sé langbesti og öflugasti mælikvarðinn á samfélag nútímans hversu vel þau búi að þeim sem elstir eru og yngstir. Það á alltaf að vera mat okkar að hlúa sem allra best að þessum hópum samfélagsins. Þeir sem elstir eru verða að njóta virðingar okkar það þarf að búa sem allra best að henni: því fólki sem hefur lagt grunninn að samfélaginu okkar. Oft vill það gerast að þegar að fólk verður veikt eða of gamalt að það verður utanveltu í samfélaginu. Það má aldrei gerast að elsta kynslóðin sé afskipt í ríkidæmi nútímans. Við unga fólkið verðum ávallt að horfa til gamla fólksins og setja okkur það markmið að eldri borgarar njóti afraksturs erfiðis síns.
Þeir, sem hafa lokið sínu ævistarfi, eiga það svo sannarlega skilið að vel sé að þeim búið. Ávallt þarf að hafa það sem markmið að aldraðir séu virkjaðir til samfélagsþátttöku og tryggt að hlúð sé vel að þeim. Mikilvægur þáttur í nútímasamfélaginu er að tryggja að fólk geti sem allra lengst dvalið á eigin heimili. Það á ávallt að vera forgangsmál okkar unga fólksins að tryggja að eldri borgarar geti lifað í sátt við aðstæður sínar – tryggja þarf ávallt hamingju allra kynslóða. Tryggir það sátt allra. Við sem erum ung verðum alltaf að hafa að leiðarljósi hag eldri borgara, forfeðra okkar - þeirra sem sköpuðu hið góða samfélag sem við lifum í.
stebbifr@simnet.is
<< Heim