Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 janúar 2006

Stefán Friðrik

Ég vil þakka kærlega fyrir þá pósta og kveðjur sem ég hef fengið send til mín. Ég er ekki alveg stemmdur í skrif í dag en reyni að koma mér í gírinn sem þarf til þess á morgun. Færi þess í stað hér í dag upp færslu föstudagsins en þá birti ég eftirfarandi grein mína, en hún birtist í Vikudegi fimmtudaginn 26. janúar sl.

Stefán


Öflugt og vaxandi sveitarfélag

Það er mjög þægilegt að búa á Akureyri – samfélagið er notalegt og bæjarbragurinn er góður. Þetta er góður staður – enda er það notalegt að þegar maður fer út í búð, í bíó eða jafnvel í leikhús að þekkja flest andlitin og þekkja þá sem maður hittir á förnum vegi. Hér er enda allt sem við metum mikils: góðar og greiðar samgöngur, fjölbreytt menningarstarfsemi, framúrskarandi skólar, faglegt íþrótta- og tómstundastarf og snyrtilegt samfélag.

Að mínu mati verða fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttara atvinnulíf helstu áherslumál unga fólksins hér á Akureyri í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Enda býr hér vel menntað fólk og fólk kemur víðsvegar að af landinu til að nema í menntaskólunum og háskólanum. Það hefur valið sér hér búsetu og vill geta gengið að góðum störfum – búa við góð tækifæri. Það er að mínu mati ekki hlutverk hinna kjörnu fulltrúa almennings á sveitarstjórnarstiginu að þenja út starfsemi sveitarfélaganna eða að sjá til þess að þar sé fjölbreytt atvinnulíf með beinum hætti, en þeir verða að tryggja góð skilyrði á staðnum. Þeir þurfa að hlúa að umgjörð sveitarfélagsins svo að það blómstri sem best og verði öflugt og gott – notaleg umgjörð fyrir gott atvinnulíf.

Akureyri þarf ávallt að vera í fremstu röð - vera besti kosturinn til að búa á – til að fá góð störf, lifa við bestu tækifærin sem bjóðast og njóta þess besta sem til er. Það er forgangsmál að auka atvinnutækifæri og gera Akureyri að staðnum sem vissulega er gott að heimsækja en enn betra er að búa á. Frá árinu 1998, seinustu tvö kjörtímabil, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta í bæjarstjórn Akureyrarbæjar síðustu árin og verið í forystu bæjarmálanna. Kjörnir fulltrúar flokksins hafa á þessum tíma unnið með miklum krafti að því að bæta umgjörð sveitarfélagsins – tryggja að það sé blómlegt og kraftmikið.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 11. febrúar gefa 20 einstaklingar kost á sér - ég er þeirra á meðal. Ég hef verið flokksbundinn í rúman áratug, tekið þátt í ungliðastarfi flokksins mjög lengi, verið í stjórn SUS frá 2003 og formaður Varðar, félags ungra, frá árinu 2004. Ég hef mikinn áhuga á stjórnmálum, hef skrifað mikinn fjölda pistla um stjórnmál til fjölda ára á vef mínum, www.stebbifr.com, og kynnt skoðanir mínar á málefnum samtímans af þeim krafti sem einkennir netskrifin. Það er mjög skemmtilegt að skrifa á netinu – enda er það lifandi og góður vettvangur.

Ég sækist eftir þriðja sætinu á lista flokksins og vona að sú reynsla sem ég hef öðlast í stjórnmálum og í félagsstörfum nýtist bæjarfélaginu á næsta kjörtímabili. Framtíðarsýn mín er að Akureyringar verði ávallt stoltir af sveitarfélaginu sínu. “Hér vil ég búa – við öll lífsins gæði” er gott slagorð sem gildir um okkur hér. Það er mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri farsælu braut sem við sjálfstæðismenn á Akureyri höfum mótað og Akureyri verði í forystusveit sveitarfélaga á komandi árum – sem og á síðustu átta árum undir okkar forystu.

stebbifr@simnet.is