Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 febrúar 2006

"Verndum unga fólkið"

Stefán Friðrik

Svona hljómaði slagorð Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, í prófkjörsbaráttu okkar sjálfstæðismanna. Hjalti Jón mun, ef að svipuð úrslit verða í næstu kosningum og þeim síðustu, verða bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í vor. Hann hafði er hann gekk í flokkinn undir lok síðasta árs aldrei starfað fyrir flokkinn eða mætt þar á fundi. Mér datt satt best að segja þetta slagorð Hjalta Jóns Sveinssonar í hug þegar að ég hugsa til prófkjörsins um seinustu helgi. Öllum ungliðunum sem í prófkjörsbaráttunni voru var hafnað í þessu kjöri. Ekkert okkar náði inn á topp tíu og við röðuðum okkur í neðstu sætin. Það er mikilvægt í kjölfar þessa prófkjörs að hlúð sé að félaginu okkar, Verði. Staðan er mjög döpur þykir mér. Mér sem formanni félagsins sárnaði vissulega að okkar verk voru ekki metin sem skyldi, hvorki af forystu flokksins hér á Akureyri né almennum flokksmönnum.

Margir þeirra studdu okkur ekki en svo virðist vera sem að við eigum bara að vera í bakgrunni og ekki krefjast metnaðar í pólitísku starfi nema þá mögulega innan SUS. Þetta eru vond skilaboð í ungliðapólitíkinni. Nokkur okkar hafa verið í pólitík af alvöru. Bæði ég og Guðmundur Egill Erlendsson höfum verið formenn Varðar. Verkum okkar er algjörlega hafnað og það með svo afgerandi hætti að það blasir við öllum sem þekkja okkur og þekkja flokkinn hér á staðnum. Útkoma okkar ungliðanna hlýtur að verða umhugsunarefni. Fyrir mig var þetta enginn heimsendir. Ég á alveg einstaklega góða fjölskyldu og góða vini sem hafa sýnt mér velvild og stuðning seinustu daga. Það er einstakt að eiga svona góða að. Það jafnast ekkert á við það. Fyrst og fremst þótti mér svo innilega vænt um það að fólkið mitt, sem sumt hefur aldrei stutt flokkinn, gekk í hann til að styðja mig. Ég get aldrei þakkað fyrir það með nægilega góðum hætti.

Verndum unga fólkið sem hefur metnað og áhuga á stjórnmálastörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri - það hefur jú áhuga á að vera með í forystunni en ekki bara að hella upp á kaffi eða sópa gólfin! Flokkurinn hér er veikari ef unga fólkið telur hag sínum betur borgið í öðru en stjórnmálum. Ég vona að kjörnefnd beri gæfu til þess að meta verk þess unga fólks sem hér starfar í stjórnmálum fyrir flokkinn - fólki sem hefur eytt öllum sínum frístundum fyrir flokkinn. Án ungs fólks getur Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri ekki höfðað til ungs fólks.

stebbifr@simnet.is