Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 febrúar 2006

Viðtal á Morgunvaktinni - 100 dagar til kosninga

Stefán Friðrik

Í gærmorgun var viðtal við mig á Morgunvaktinni á Rás 1 um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri laugardaginn 11. febrúar sl. Þar ræddum við Gestur Einar Jónasson um úrslitin og slæma útkomu ungliða í prófkjörinu. Allir ungliðarnir sem buðu sig fram lentu í neðstu sætum og athygli vakti að enginn frambjóðenda á SUS-aldri hlaut afgerandi stuðning. Þakka ég góð viðbrögð í kjölfar viðtalsins frá þeim sem ég hef starfað með innan SUS - þess fólks sem metur mest verk mín í flokksstarfinu. Ég hef alla tíð verið talsmaður fyrir áhrifum ungs fólks í stjórnmálum og skal því engan undra að mig og fleira fólki svíði nokkuð undan þeirri höfnun á ungum frambjóðendum sem hér átti sér stað í prófkjörinu. Þetta hef ég fjallað vel um seinustu daga - bendi ég vel á þá umfjöllun mína. Það er viðeigandi að maður verji hagsmuni ungliða í starfinu. Til þeirra verka var ég kjörinn sem formaður Varðar og ég mun ávallt standa vörð um hagsmuni ungs fólks í pólitík - þó það nú væri!


100 dagar til sveitarstjórnarkosninga

En það eru 100 dagar til sveitarstjórnarkosninga - niðurtalningin er hafin. Mitt í önnum þess sem á mér hefur dunið seinustu vikur vegna prófkjörsins og svo þessara sorglegu úrslita sem við okkur ungliðunum blasti í kjörinu hefst undirbúningur vegna kosninganna. Í þessum sveitarstjórnarkosningunum leggjum við öll allt okkar besta fram til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn komi vel út úr kosningunum. Megingrunnur þess er að tryggja öfluga framboðslista - vel samsetta af kynjum og þar sé flott litróf aldurs og ólíks bakgrunns frambjóðenda. Eins og vel hefur komið fram seinustu daga skiptir máli að ungt fólk verði sýnilegt í forystusveitum fyrir þessar kosningar. Framlag ungs fólks er ómetanlegt - altént eigi að ná til ungs fólks. Ungt fólk er stór hópur kjósenda - það er alveg á hreinu að eigi að ná til þessa hóps verður að vera sýnilegir fulltrúar hópsins á listunum og flott samsetning ólíks bakgrunns öflugs fólks.

Á flestum stöðum mun vonandi verða staðinn vörður um að unga fólkið njóti sannmælis í stjórnmálastarfi. Það er eðlilegt og satt best að segja veitir ekki af að Sjálfstæðisflokkurinn verði duglegur að höfða til ungs fólks með forystufólki í ungliðahreyfingu og fólki sem hefur lagt á sig hita og þunga þess óeigingjarna starfs sem unnið er í ungliðahreyfingunni. Mitt í þessum pælingum um mikilvægi stjórnmálastarfs ungs fólks blæs Sjálfstæðisflokkurinn til vinnufundar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Valhöll á morgun. Um er að ræða fund sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins í samvinnu við þingflokk sjálfstæðismanna. Framsögumenn verða ýmsir sérfræðingar, ráðherrar og aðrir. Þátttakendur fá síðan tækifæri til að spyrja þá út úr að framsögum loknum. Seinni hluti fundarins fer í hópvinnu, þar sem skipt verður í hópa eftir svæðum, og gefst fundarmönnum þá kostur á að ræða og vekja athygli á málum sem þarfnast úrlausnar í þeirra heimabyggð.

Dagskráin gerir ráð fyrir fundi frá kl. 9:15 til kl. 16:00 og léttum veitingum í kjölfarið. Hafði ég ætlað að fara á þennan fund löngu fyrir prófkjörið og lagt inn meldingu um mætingu mína. Satt best að segja varð ég hugsi eftir þá útreið sem ég fékk frá flokksmönnum hér í prófkjöri um hvort ég ætti að fara. Eiginlega varð það næsta hugsun mín eftir að hafa meðtekið þennan skell sem mér og öðrum ungliðum var veittur. Satt best að segja varð ég að hugsa málið frá grunni. Hef ég þó ákveðið að fara suður þrátt fyrir allt. Vonandi verður þetta fróðlegur og góður fundur - umfram allt gagnlegur. Það er mikilvægt að hefja sóknina í þessum kosningum enda styttist í þær. Sjálfstæðisflokkurinn er eitthvað sem ég hef eiginlega metið allra hluta í tilverunni mest allt frá því að ég var unglingur. Atburðir í návígi hér breytir engu um það. Mikilvægt er að hefja nú sókn til sigurs í vor.

Öll verðum við að standa saman í þeirri baráttu - gömul sem ung. Við erum ósigrandi ef við tryggjum að allir aldurshópar fái tryggan sess í forystusveit. Sjálfstæðisflokkurinn er ósigrandi tryggi hann ungu fólki verðugan sess í fremstu víglínu. En já, fundurinn verður öflugur og hlakkar mér til að fara - þrátt fyrir allt sem dunið hefur á mér. Sjálfstæðisflokkurinn og öflugur sigur hans í vor er verkefni sem er æðra öllu öðru tengdu mér persónulega.

stebbifr@simnet.is