Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 mars 2006

Illa ígrunduð ályktun

Héðinsfjarðargöng

Á stjórnarfundi hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna í síðustu viku var samþykkt ályktun þar sem talað er fyrir aðhaldi í rekstri ríkisins. Þar er t.d. lagt til að hætt verði við stórt verkefni á borð við borun Héðinsfjarðarganga á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Þykir mér þessi ályktun mjög illa ígrunduð og létum ég og Sigurgeir Valsson, sem með mér situr í stjórn SUS af hálfu Varðar, bóka andstöðu okkar við að göngin um Héðinsfjörð skyldu nefnd í þessu samhengi. Þykir mér satt best að segja algjörlega nóg komið af öllu hjali innan Sjálfstæðisflokksins um að skera þá framkvæmd niður. Hef ég stutt þessa framkvæmd af krafti. Sjálfur er ég bæði ættaður frá Siglufirði að hluta, en afi minn var þaðan, og ekki síður tel ég mikilvægt að standa vörð um þessa staði út með firði og tel göngin forsendu sameiningar milli sveitarfélaganna sem samþykkt var nýlega og þess að Siglufjörður sé fyrir það fyrsta hluti af Norðausturkjördæmi.

Héðinsfjarðargöng voru eitt af kosningamálunum í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum árið 2003. Allir flokkar nema Nýtt afl studdu göngin í orði í kosningabaráttunni. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komu norður í kosningabaráttunni og lofuðu því að göngin yrðu staðreynd á kjörtímabilinu en þegar að kosningar fóru fram hafði framkvæmdin verið boðin út. Kortéri eftir kosningar guggnaði ríkisstjórnin á þessu og verkefnið var blásið af og hætt við þrátt fyrir útboðið. Það var reiðarslag, sérstaklega fyrir okkur sjálfstæðismenn hér. Sú ákvörðun var enda með öllu óverjandi og með hreinum ólíkindum að menn kæmu fram með þessum hætti. Frægt varð að Guðmundur Skarphéðinsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Siglufirði og nú formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, gekk ásamt fleiri flokksmönnum á Siglufirði á fund Davíðs Oddssonar í Stjórnarráðinu. Fyrir lá að kæmi ekki nýr tímarammi framkvæmda fram myndu allir Siglfirðingar í flokknum ganga úr honum á einu bretti.

Það dugði til þess að menn hlustuðu og menn náðu áfangasigri í málinu þrátt fyrir að menn sviku kosningaloforðin með svo gróflegum hætti. Tímarammi var lagður fram af forsætis-, utanríkis- og samgönguráðherra. Á fundi í Bátahúsinu á Siglufirði þann 19. mars 2005 staðfesti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, planið sem kynnt var tveim árum áður. Nýlega voru göngin boðin út öðru sinni. Þetta er því komið allt rétta leið. Það er því með hreinum ólíkindum að sjá svona ályktun lagða fram. Ég lít svo á að þessi ályktun sé sem blaut vatnstuska framan í okkur hér fyrir norðan sem höfum þurft að horfa upp á grófleg svik lykilkosningaloforðs.

Við hér fyrir norðan stólum nú algjörlega á það að menn í forystusveit stjórnmála, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, séu svo stöndugir að standa við sín stóru orð sem komu fram sumarið 2003 og staðfest voru vorið 2005. Ef svo verður ekki mun verulega hrikta í innstu stoðum stjórnarflokkanna hér á svæðinu. Altént mun ég ekki tala máli þessa flokks hér að ári svíki menn loforðin enn eina ferðina. Nú er komið að því að efndir fylgi för hinum fögru orðum. Því get ég ekki annað en látið undrun mína og reiði í ljós þegar að önnur eins ályktun sést á þeim vettvangi sem ég hef valið mér til stjórnmálastarfa. Ég get ekki annað en lýst furðu yfir innihaldinu.

Pistill minn um málið á Íslendingi