Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 mars 2006

Málefnavinna um helgina

Sjálfstæðisflokkurinn

Eins og kom fram fyrr í vikunni er málefnavinna Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hafin af fullum krafti og hafa fróðlegir og góðir fyrirlestrar um málefni baráttunnar verið í Kaupangi alla vikuna og fólk til í slaginn. Á morgun hefst hin eiginlega vinna á fullu og þá verður fundur um framtíðaráherslu í málefnum Akureyrarbæjar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn á Öngulstöðum í Eyjafjarðarsveit. Allir sem vilja vinna í málefnavinnu flokksins eru eindregið hvattir til að mæta og taka þátt - láta með því rödd sína heyrast í vinnunni og vera með af krafti!

Ég hóf í dag störf í Kaupangi og tók til við að leggja í verkefnin sem mikilvægt er að vinna að. Líst mér vel á það sem framundan er. Kosningabarátta okkar er því formlega hafin. Hvet ég alla sem vilja ræða málin til að koma í Kaupang alla virka daga milli kl. 9:00 og 16:00 til að fá sér heitt kaffi og rabba. Allar frekari upplýsingar um skrifstofuna og málefni kosningabaráttunnar er að finna á Íslendingi - líst mér vel á verkefnin sem fylgja kosningabaráttunni.

En nú er það málefnavinnan. Ég hvet alla til að mæta á morgun í Öngulstaði og taka þátt í vinnunni með okkur.


Pabbi

Faðir minn, Stefán Jónas Guðmundsson, er 61 árs í dag. Ég vil nota tækifærið og óska honum innilega til hamingju með daginn. Ég vil ennfremur þakka honum kærlega fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig seinustu vikurnar. Stuðningur hans og hlýhugur er mér ómetanlegur.

Saga dagsins
1934 Dregið var fyrsta sinni í Happdrætti Háskólans - síðan hefur HHÍ verið ein meginstoða skólans.
1941 Togaranum Reykjaborg var sökkt norður af Skotlandi eftir árás þýsks kafbáts - alls 13 fórust.
1944 Flugfélagið Loftleiðir hf. var formlega stofnað - tæpum 30 árum síðar, árið 1973, sameinaðist það Flugfélagi Íslands hf. undir nafninu Flugleiðir. 10. mars 2005 breyttist nafn Flugleiða í FL Group.
1967 Þrjú timburhús, sem voru á horni Lækjargötu og Vonarstrætis í Reykjavík brunnu til grunna, og hús Iðnaðarbankans skemmdist mikið - um var að ræða einn af mestu eldsvoðum á Íslandi á 20. öld.
1991 Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans - Davíð bar sigurorð af Þorsteini Pálssyni þáverandi formanni, í kosningu á fundinum. Davíð hlaut 733 atkvæði en Þorsteinn, sem verið hafði formaður flokksins í rúm 7 ár, hlaut 651 atkvæði. Davíð tók við embætti forsætisráðherra landsins, 30. apríl sama ár, og sat á forsætisráðherrastóli landsins samfellt í 13 ár, eða allt til haustsins 2004, lengur en nokkur annar í sögu Stjórnarráðs Íslands. Davíð varð utanríkisráðherra við ráðherrahrókeringar í ríkisstjórninni 2004 og hætti formlegri þátttöku í stjórnmálum árið 2005 og varð seðlabankastjóri.

Snjallyrðið
What is success? I think it is a mixture of having a flair for the thing that you are doing; knowing that it is not enough, that you have got to have hard work and a certain sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)