Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 mars 2006

Vegir liggja til allra átta

Stefán Friðrik

Það er að mörgu leyti engu líkt að vera þátttakandi í kosningabaráttu. Þá snýst allt um að reyna að höfða til sem flestra og safna sem flestum atkvæðum. Í jafnri og tvísýnni baráttu, sérstaklega í pólitík, er mikilvægt að reyna að höfða til sem flestra og hafa fólk með ólíkastan bakgrunn sýnilegt. Stór þáttur þessa er að tryggja að ungt fólk eigi málsvara á framboðslistum og í forystusveitinni. Það er því miður fjarri því ný saga að traðkað sé á ungu fólki í prófkjörum eða í forkosningum innan stjórnmálaflokkanna. Það er reynsla mín allavega að fólk þurfi að hafa mikla peninga í slíkri baráttu eða nota óvönduð meðöl eða feta ekki hugsjónapólitík til að ná árangri þar. Það dugar ekki að heyja baráttu byggða á málefnum og þeirri áherslu að skrifa greinar eða kynna skoðanir sínar í greinum. Það tryggir engan sigur. Bæði skiptir mestu að smala fólki með öllum brögðum á kjörstað og reyna að hafa einhverja beitu á fólk, t.d. frían bjór og pizzur. Ég fann það fljótt í þessari baráttu að þetta á ekki við minn karakter að vinna svona. Ég vil gera þessa hluti með heiðarlegum hætti og með þeim hætti sem ég tel henta mínum karakter. En það dugði lítið.

Ég tel að ungliðum sé ekki gefið að heyja svona slag í fyrstu atrennu. Það er allavega ekki eitthvað sem ég fann mig í algjörlega. Þetta var eitthvað sem ég gerðist afhuga í upphafi. Ég vildi keyra allt á málefnum og áherslum mínum sem manns með bæði hugsjónir og skýra sýn í pólitík. Annars lærði ég mikið á þessum prófkjörsslag - lærði hverjir eru vinir manns og hverjir ekki. Ennfremur lærði ég þá lexíu að þeir sem brosa framan í mann í slíkum slag þurfa ekki endilega að vera að tala vel um mann. Það er alveg ljóst að þessi prófkjörsbarátta var mér ekkert nema reynsla og skapaði mér betri kynningu á þeim sem ég hef unnið með í forystu flokksins. Sú lexía sem ég lærði með þessu framboði var mér lærdómsrík. Ég sé alls ekki eftir því að hafa skellt mér í slaginn. Ég lærði mjög margt á þessu sem ég gæti ekki hugsað mér að hafa sleppt. Eins og afi gamli sagði svo oft: "Með reynslu kemur þekking í önnur verkefni". Það eru orð að sönnu - svo vægt sé til orða tekið. Ég hef lært margt á seinustu mánuðum og stefni í aðrar áttir reynslunni ríkari.

Það voru mér mikil vonbrigði að ungu fólki yrði ekki treyst fyrir forystusess á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í vor. Ég tók stefnuna hátt - því að ég vildi að ungt fólk kæmist til forystu. Ég vildi láta reyna á hvernig ungu fólki væri treyst og hvort mín verk fyrir flokkinn þokuðu mér upp á við til forystu. Svo var ekki - fjarri lagi satt best að segja. Úrslitin voru áfellisdómur fyrir ungliðahreyfinguna hér á Akureyri - enginn ungliði náði inn á topp tíu í kjörinu. Það fór eins og það fór. Ungum var mér kennt að án áhættu myndi maður aldrei uppskera neitt. Það var mottó langafa, Stefáns gamla Jónassonar. Markið var því sett hátt á þeim forsendum. Ég sé ekki eftir því - ég sé ekki eftir neinu af því sem ég gerði. Ég kynnti mig og mín sjónarmið í lífinu í slagnum. Ég kynntist nýjum vinum í prófkjörsslagnum og fann að ég hafði stuðning fjölskyldu minnar, sem var mér mikilvægari en nokkuð annað. Úrslitin voru mér nokkur vonbrigði skiljanlega. En þegar að frá leið leið mér öðruvísi. Ég fann að ég hafði ekki notið sannmælis í slagnum vegna verka minna. Þau voru að öllum líkindum talin sjálfsögð og verk mín metin sem sjálfgefinn hlutur. En það er nú svo að það er ekkert sjálfgefið í þessum heimi.

Ég hef ákveðið að taka ekki sæti á framboðslista flokksins hér í þessum kosningum í vor. Það er þungu fargi af mér lyft að sú niðurstaða liggi fyrir - með því get ég litið í kringum mig og metið aðra kosti. Þeir eru margir sem vænlegir teljast. Mér líður mun betur að þessi skil hafi orðið. Með því er mér kleift að horfa í aðrar áttir og hugsa til nýrra hluta sem eru mér kærir og ég hugsa vel til - hluta sem eru mikilvægir. Með því er þó ekki þar með sagt að ég muni ekki taka þátt í kosningabaráttunni okkar sjálfstæðismanna í vor. Það eru mörg tækifæri og margir vettvangar til fyrir fólk sem hefur mikinn og sannkallaðan áhuga á stjórnmálum. Ég hef alveg frá því að ég var smákrakki velt fyrir mér lífinu og tilverunni. Ungur varð ég sannkallaður áhugamaður um stjórnmál og sennilega hef ég verið fréttafíkill síðan að ég man eftir mér. Ég erfði mikinn stjórnmálaáhuga forfeðra minna og rétt eins og karl faðir minn má ég ekki við því að missa af neinum fréttatíma eða dægurmálaspjallþáttunum. Þessi áhugi á þjóðmálum er mér í blóð borinn og hann mun alltaf fylgja mér.

Ég ræddi í gær við aldavin minn í ungliðahreyfingunni, sem er fluttur til Reykjavíkur að nýju eftir vist hér á Norðurlandinu. Honum sagði ég tíðindin af stöðu minni - af ákvörðun minni. Honum var spurn að því loknu: "Hvað ætlarðu að gera Stebbi minn?". Sá mig greinilega ekki fyrir sér sitjandi með krosslagðar hendur þegar að styttist í kosningar. Ég sagði sem væri að ég væri að íhuga næstu skref. Mér liði eins og manni á krossgötum í lífsins ólgusjó. Ég hef mörg tækifæri fyrir framan mig og spennandi valkosti sem heilla mig langflestir. Sennilega er ég í sömu stöðu og karakterinn sem Tom Hanks lék í úrvalsmyndinni Cast Away. Í lok myndarinnar er hann á vegamótum lífs síns og hefur marga kosti í stöðunni og hugleiðir þá áður en hann tekur ákvörðun. Ég upplifi mig eins. Ég á allt í lífinu sem ég met mest: góða fjölskyldu, góða vini og umfram allt úrvalsáhugamál. Vegir liggja til allra átta, varð mér að orði í símtalinu. Mér eru allir vegir færir - það er margt spennandi í stöðunni.

Ég gleðst yfir nýjum tækifærum og nýjum áskorunum í lífinu. Ég hef alltaf haft orð á mér fyrir það að vera glaðlegur og hress maður en þó mjög hugsandi einstaklingur. Ég hugsa málin vel og stefni hátt - eins og ávallt. Sá sem hefur öll lífsins tækifæri fyrir framan sig er ekki fátækur maður.

Saga dagsins
1964 Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, lést á Akureyri, 69 ára að aldri - Davíð var eitt af bestu ljóðskáldum Íslendinga, hann var talinn vinsælastur og mikilvirkastur sinna samtímaskálda. Fyrsta ljóðabók Davíðs, Svartar fjaðrir, kom út í desember 1919. Hann samdi átta ljóðabækur á löngum ferli og skrifaði að auki skáldsögur og nokkur leikrit. Davíð var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar á sextugsafmæli sínu, árið 1955. Davíð byggði sér íbúðarhús að Bjarkarstíg 6, hér á Akureyri. Við andlát hans var það ánafnað Akureyrarbæ. Þar er safn til minningar um skáldið, verk hans og feril.
1970 Ísland varð formlega aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA - aðildin var samþykkt 1969.
1988 Skylt varð að aka með ljósum allan sólarhringinn, samkvæmt nýjum umferðarlögum. Ennfremur varð heimilt að sekta fyrir vanrækslu á notkun bílbelta í framsæti - tók gildi með alla farþega 1996.
1989 Bjórdagurinn - framleiðsla og sala á áfengu öli var leyfð eftir 74 ára hlé. Bjórfrumvarpið var samþykkt á Alþingi í maí 1988 og markaði mikil þáttaskil. Bölspár andstæðinga bjórsins rættust ekki.
1991 Vigdís Finnbogadóttir þáv. forseti Íslands, opnaði göngin gegnum Ólafsfjarðarmúla - var um að ræða mikla samgöngubót fyrir íbúa Ólafsfjarðar, enda hafði vegurinn um Múlann verið hættulegur.

Snjallyrðið
If you could choose one characteristic that would get you through life and minor troubles in your life, choose a sense of humor.
Jennifer Jones leikkona (1919)