Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 febrúar 2006

Ólga í bæjarpólitíkinni á Akureyri

Stefán Friðrik

Ég skynja mikla ólgu í bæjarpólitíkinni á Akureyri - meiri ólgu en verið hefur í um áratug. Sú ólga stafar ekki bara af því að ungu fólki er hafnað í prófkjörum hér í bæ innan stjórnmálaflokkanna heldur vegna þess að það stefnir í fjölda sérframboða. Það er nú þegar ljóst að það stefnir í fleiri framboð fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar en voru árið 2002. Ragnar Sverrisson kaupmaður, hefur nú boðað sérframboð og sótt um listabókstafinn A fyrir þessar kosningar. Það hefur lengi legið í loftinu að Ragnar væri óhress með verk kjörinna fulltrúa í meirihlutanum og væri að hugleiða framboð á eigin vegum. Nú hefur það verið staðfest og nær öruggt að hann mun fara fram. Ef marka má yfirlýsingar hans útilokar hann ekki þingframboð heldur undir merkjum A-lista, hann er því að tala um Akureyrarframboð í þingkosningum rétt eins og hann gerði í áramótaþætti Aksjón 31. desember 2004. Veit ég ekki hvaða bakland Raggi hefur en ég skynja það sem svo að um sé að ræða sjálfstæðismenn í baklandi Ragga og hann muni sækja í þær raðir.

Í gær hringdi Björn Þorláksson fréttamaður, í mig og leitaði viðbragða minna við þeirri stöðu sem uppi er. Mínum verkum og okkar ungliða almennt fyrir Sjálfstæðisflokkinn var hafnað í prófkjörinu fyrir ellefu dögum. Það er mjög einfalt. Síðan þá hafa fjölmiðlamenn hringt mjög reglulega í mig og leitað viðbragða á því hvað ég muni gera varðandi þær kosningar sem framundan eru. Svar mitt er og hefur verið algjörlega einfalt. Ég bíð þess að kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins á Akureyri ljúki störfum sínum. Hún á erfitt verkefni framundan. Hún á umfram allt að mínu mati það verkefni framundan að rétta hlut ungs fólks. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri getur með engu móti boðið fram framboðslista í vor sem gerir ekki ráð fyrir því að ungliðar verði í forystusveitinni. Þegar að ég tala um forystusveit er ég að tala um efstu tíu sætin. Allt neðan við það er móðgun við mig og okkur hér í ungliðahreyfingu flokksins. Ég veit persónulega ekki hvað kjörnefnd hyggst fyrir en ég hef þó gefið það út að ég muni ekki sinna aðeins verkum bakvið tjöldin í þessari kosningabaráttu.

Fjölmiðlamenn hafa verið að spyrja mig um það hvort að uppi séu líkur á því að ungliðar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri muni fara fram sér verði verk þeirra ekki metin. Því hef ég alltaf svarað eins: beðið er niðurstöðu kjörnefndar. Boltinn er þar alveg klárlega. Þetta snýr mjög einfalt við mér verandi formaður ungliðafélagsins í bænum. Vilji kjörnefnd ekki hafa virka ungliða á lista flokksins í vor eins og staða mála er orðin mun það aðeins flokkast undir höfnun á mínum verkum og annarra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ef sú staða kemur upp er ekkert útilokað í stöðunni fyrir okkur. Ég hef starfað í stjórnmálum til fjölda ára og lagt mínar frístundir undir í því, skrifað greinar og verið mjög virkur í stjórnmálabaráttu. Ég hef í huga að leggja mín lóð á vogarskálarnar í þessari kosningabaráttu fyrir fólk sem metur verk mín í stjórnmálum. Hvort það verður hér á Akureyri eða annarsstaðar er ekki vitað nú. Það eitt veit ég að ég vil vera virkur í þeirri baráttu og það mun ég vera án nokkurs vafa.

Stjórnmálaáhugi minn er það heitur og kraftmikill að hann slokknar ekki á einni nóttu. Það er bara mjög einfalt og það vita allir sem þekkja mig. Annars blasir við öllum sem þekkja stjórnmál á Akureyri að það stefnir í ólgutíma næstu 100 dagana í pólitíkinni hér. Sérframboðin spretta upp, talað er um framboð háskólanema sem eru ósáttir við sinn hlut og talað er um að ungliðar flokkanna fari fram á eigin vegum. Ég man ekki aðra eins umbrotatíma hér lengi. Það er þó alveg ljóst að ungliðar sem hafa lagt krafta sína af hjarta og sál í stjórnmálabaráttu vilja ekki sitja hjá eins og hornkarlar í stjórnmálabaráttu næstu vikna. Þau vilja hafa tilgang og vilja hafa hlutverki að gegna. Það er eðlilegt í þessum bransa. Hafni fólk atbeina slíks fólks hlýtur það að líta í aðrar áttir - líta til þeirra átta sem vænlegar eru í stöðunni. Það er margt sem kemur til greina og margt sem er vænlegt komi sú staða upp.

stebbifr@simnet.is