Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 apríl 2006

Í minningu Regínu

Regína Thorarensen

Frænka mín, Regína Thorarensen, frá Stuðlum í Reyðarfirði, lést um helgina, 88 ára að aldri. Regína var að mínu mati einstök kjarnakona. Hún varð auðvitað landsþekkt fyrir frábær skrif sín í Morgunblaðið og DV til fjölda ára. Hún var fréttaritari Moggans í mörg herrans ár, fyrst er hún bjó á Ströndum á Vestfjörðum og síðar á Eskifirði. Regína ritaði síðar frábæra pistla í DV, er hún var fréttaritari blaðsins á Selfossi. Regína hafði næmt auga fyrir bæði góðum og eftirtektarverðum fréttum og sagði oft frá hinu smáa í hvunndeginum sem mörgum öðrum fannst ekki fréttnæmt. En ritstíll hennar og skoðanakraftur heillaði marga. Ég man að þegar að ég hitti Regínu fyrst fannst mér hún alveg ótrúlega mikil sagnakona. Hún sagði frá svo eftir var tekið og hún gat líka talað alla í kaf með mergjuðum athugasemdum sínum.

Regína var trú Sjálfstæðisflokknum alla tíð og studdi forystu flokksins með krafti. En hún þorði að láta í sér heyra og var alls ófeimin við að láta rödd sína heyrast væri hún á móti forystu flokksins. Frægir voru pistlar hennar um Þorstein Pálsson í DV er hún var fréttaritari á Selfossi og Þorsteinn fyrsti þingmaður kjördæmisins. Þau voru fjarri því alltaf sammála og Regína var alls ófeimin við að tjá sínar skoðanir á hinum unga leiðtoga flokksins. Ég hafði alltaf gaman af að lesa fréttapistla Regínu. Hún skrifaði í blöðin langt fram á efri ár og ég held að það sé rétt munað hjá mér að innan við fjögur ár séu frá þeim seinasta. Brot af þessum frábæru pistlum má lesa í ævisögu hennar sem kom út árið 1989. Þar nýtur sagnahæfileiki hennar sín.

Sigurlín Kristmundsdóttir, amma mín, og Regína voru miklar vinkonur alla tíð. Þær bjuggu ekki langt frá hvorri annarri á Eskifirði. Vinátta þeirra hélst alla ævi og þó að langt væri á milli þeirra seinustu árin vissu þær vel af hvorri annarri. Er amma lést árið 2000 kom Regína að jarðarförinni á Eskifirði. Þá var Regína nýlega flutt aftur austur og komin á elliheimilið á staðnum. Þó að heilsu hennar væri mjög tekið að hraka þá og hún ætti erfitt með að komast um fór hún í jarðarför ömmu. Það mat ég allavega mjög mikils og var virkilega ánægjulegt að hitta hana þá. Síðasta skiptið sem ég sá hana var í fyrrasumar er ég leit á Hulduhlíð. Regína var þá orðin mjög heilsutæp en ótrúlega brött miðað við allt.

Sykurmolarnir slógu að mínu mati í gegn árið 1989 þegar að þau sömdu til hennar lagið Regína. Kom hljómsveitin heim til hennar á Selfossi og hún bauð þeim í mat. Boðið var að hætti Regínu upp á fulldekkað veisluborð og lambasteik með öllu tilheyrandi. Það eitt er víst að þeir sem komu í heimsókn til Regínu fóru ekki svangir þaðan og nutu sannkallaðrar veislu. Fannst mér það mikill sómi fyrir Björk og þau í hljómsveitinni að þau skyldu semja þetta lag og tileinka það henni.

Regína var kjarnyrt alþýðukona sem var ófeimin að láta til sín taka. Hún var trú sínu veganesti í lífinu og talaði fyrir sinni sjálfstæðisstefnu með sínum hætti. Enginn var þó trúrri flokknum er til kosninga og verkanna kom. Hún var sönn kjarnakona er á hólminn kom. Guð blessi minningu mætrar og stórbrotinnar konu.