Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 apríl 2006

Ítalskt vor á Akureyri

Ítalski fáninn

Það hefur verið mikil blíða hér norðan heiða seinustu daga. Sumarið er komið og ánægjulegt að njóta svo góðs upphafs þess. Seinnipartinn í dag fór ég í góðan göngutúr og endaði förina í Amtsbókasafninu. Þar hófst Ítalskt vor á Akureyri, vikulöng dagskrá hér í bænum helgaðri ítalskri menningu og er samstarfsverkefni nokkurra aðila í bænum. Dagskráin hófst með stofnfundi félagsins "Vinir Ítalíu" í AmtsCafé á bókasafninu kl. 16:00 í dag. Þar var góður fjöldi fólks mættur til að taka þátt í upphafi þessa ítalska vors. Hófst dagskráin með því að Elín Margrét Hallgrímsdóttir símenntunarstjóri, fór yfir dagskrá ítalska vorsins og þess sem framundan væri í hinu nýstofnaða félagi. Að því loknu tók sérstakur gestur stofnfundarins, Pétur Björnsson ræðismaður Ítalíu á Íslandi, til máls. Fór hann í máli sínu yfir atriði tengda Ítalíu og ítalska menningu og sögu umfram allt. Pétur talaði með heillandi og góðum hætti og áhugavert að hlusta á lýsingar hans.

Í ræðu sinni minntist Pétur sérstaklega Sigurðar Demetz Franzsonar söngkennara og óperusöngvara, sem lést nýlega. Sigurður Demetz var einn þeirra sem komu hingað til lands frá Ítalíu og auðguðu íslenska tilveru með nærveru sinni. Sigurður var til fjölda ára búsettur hér á Akureyri og kenndi söng við Menntaskólann á Akureyri. Þar eignaðist hann marga vini og kom með ómetanlegt innlegg í sönglistina á staðnum. Varð hann lærimeistari Kristjáns Jóhannssonar í söng og uppgötvaði fyrstur allra mikla snilli hans. Demetz var allt til síðasta dags áhrifamikill í tónlistarlífi landsins og var mikils metinn fyrir sitt framlag. Sigurður auðgaði okkar mannlíf, en með honum fengum við að kynnast ógleymanlegum suðrænum lífskúnsner. Hann er gott dæmi um það hvernig hægt sé að efla menningu og listir einnar þjóðar. Viðstaddir minntust Sigurðar með því að rísa úr sætum og lúta höfði í andartaksþögn.

Ennfremur fluttu ræður við þetta tilefni þau Maurizio Tani og Anna Blöndal sem kynntu nýtt félag vina Ítalíu, sem verður skammstafað VITA. Gerðist ég stofnfélagi á fundinum. Er það mjög ánægjulegt, enda hef ég lengi hrifist mjög af Ítalíu og ítalskri menningu. Að lokinni dagskrá var boðið upp á léttar veitingar: góðar snittur Halldóru á AmtsCafé og úrvalshvítvín. Var þetta gott upphaf ítalska vorsins og þetta var góð stund sem við áttum saman í dag. Líst mér vel á stofnun félagsins og mun sýna því mikinn áhuga á að taka þátt í því sem þar fer fram. Framundan er svo næstu dagskráratriði. Munu ítalskar úrvalsmyndir verða sýndar í Borgarbíói næstu dagana og líst mér sérstaklega vel á að sjá Cinema Paradiso og Amarcord (meistaraverk Fellinis). Ítölsk tónlist mun verða leikin í Ketilhúsinu 3. maí kl. 17:00 og listamenn sem numið hafa á Ítalíu munu sýna í Galleríi Jónasar Viðars 29. og 30. apríl.

Ítalska hefur verið kennd hjá Símenntun Háskólans á Akureyri undanfarin ár. Kennari þar er Maurizio Tani. Áhugi á tungumálinu og menningu landsins hefur því aukist mjög í gegnum þá kennslu. Er það mikið gleðiefni. Leist mér vel á dagskrána í dag og vil hrósa þeim Maurizio, Ellu Möggu og öðrum sem að komu. Okkur sem unnum Ítalíu og því sem þaðan kemur mun hlakka til að vinna saman í þessu félagi og í þeim verkum sem það mun standa fyrir. Fyrst og fremst vil ég hrósa þeim sem að komu í skipulagningu ítalska vorsins fyrir að færa okkur tækifærið til að kynna okkur betur Ítalíu og ítalska menningu.