Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 maí 2006

Fjarar undan Degi og Samfylkingunni

Dagur

Stærsta spurning kosningabaráttunnar í Reykjavík virðist vera nú hversu traustur meirihluti Sjálfstæðisflokksins verði. Það virðist fátt ætla að koma í veg fyrir að vinstriöflin missi völdin í borginni. Það sem mér finnst merkilegast við umræðuna þessar vikurnar er einmitt það hversu döpur málefnastaða Samfylkingarinnar er. Þar kemur nákvæmlega ekkert nýtt eða ferskt innlegg í kosningabaráttuna. Það er því engin furða að margir spyrji sig að því fyrir hvað Samfylkingin standi undir forystu Dags B. Eggertssonar. Þegar að sést í nýjustu könnuninni fylgistap flokksins getur vart annað skoðast sem ástæða þess en framganga leiðtoga framboðslistans. Það blasir við öllum að Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafa haldið sig til hlés og látið sviðsljósið eftir fyrir Dag. Hann hefur ekki getað haldið dampi og má vel vera að nú verði brugðið á það ráð að draga þau fram til að hjálpa honum.

Reyndu forystufólki innan Samfylkingarinnar var hafnað í prófkjörinu í febrúar. Það má vel búast við því að allavega Stefán Jón telji rétt að hafa sig ekki í frammi og láta sviðsljósið eftir fyrir þeim manni sem flokksfólk taldi heppilegast til verka. Það virðist vera sem að flokksfólk sé að átta sig á mistökunum að hafa valið Dag til forystu. Það er þó auðvitað ekki aftur snúið og má búast við að fólk fari á taugum innan Samfylkingarinnar núna þegar að mælingin er ekki hærri aðeins 27 dögum fyrir kosningar. Það má reyndar segja núna að atkvæði greitt Samfylkingunni í borginni dugi ekki til að koma Degi að sem borgarstjóra, heldur mun frekar Svandísi eða Birni Inga. Það er enda svo að eina leið Samfylkingarinnar til að komast til valda er að litlu félagshyggjuflokkarnir nái oddastöðu. Svo gæti þó farið að leiðtogar þeirra noti oddastöðuna til að koma sjálfu sér í borgarstjórastól.

Það blasir við öllum að það verður verulegt áfall fyrir Samfylkinguna tapi flokkurinn stöðu sinni í borginni eins og sést í þessari nýjustu könnun. Það mun verða pólitískt áfall fyrir Dag B. Eggertsson (sem unga rísandi pólitíska stjörnu sem leiddur var til öndvegis af forystu flokksins) og ekki síður Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar, sem var borgarstjóri í Reykjavík í tæp níu ár. Engum blandast hugur um það að kalt er innan Samfylkingarinnar í Reykjavík í kjölfar þess að vel sást að Ingibjörg studdi Dag til forystu en ekki það fólk sem hafði unnið henni gott í flokknum, bæði Stefán Jón og Steinunn Valdís. Stemmningin innan flokksins í þessum kosningum virðist vera döpur og það virðist stafa af innri ágreiningi sem reynt er að breiða yfir nú. Ingibjörg Sólrún sparkaði frá sér í prófkjöri því fólki sem lengi hefur stutt hana. Nú er reynt að sækja þetta fólk til verka en sennilega verður það erfiðara en ella eftir þetta prófkjör.

Það sem hefur sérstaklega þó skaðað Dag B. Eggertsson í þessum kosningum umfram allt eru undarlegar skoðanir hans á Sundabraut. Það telst enda vart taktískt klókt að tala fyrir því að leggja tveggja akreina Sundabraut. Skot hans á Vilhjálm Þ. í Kastljósinu var stórundarlegt og sprakk í andlitið á honum. Þetta tvennt ber vott um lítt reyndan forystumann sem veit ekki hvaða skoðanir skal hafa og mistekst hrapallega í því að hafa einhverjar skoðanir. Það er t.d. mjög dapurlegt að formaður skipulagsráðs borgarinnar hafi engar alvöru skoðanir sem hann berst fyrir hvað varðar Sundabraut en kemur sífellt með aðrar skoðanir þegar að hann sér að það sem hann talar fyrir nýtur ekki stuðnings borgarbúa. Það er því ekki undrunarefni að sífellt fjarar undan Degi. Hann reynir um of að sigla á milli skers og báru og gæta þess að verða aldrei umdeildur eða setja fram umdeildar skoðanir.

Þetta er að mestu lykill þess að Samfylkingin er nú að missa fótanna. Ekki getum við sjálfstæðismenn kvartað yfir þessari stöðu mála.