Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 maí 2006

Líf og fjör í kosningabaráttunni

Akureyri

Leiðindaveður hefur verið hér seinustu daga og sannkallað vetrarríki á hávori. Þrátt fyrir það er mikill kraftur í kosningabaráttunni nú þessa seinustu daga og unnið frá því snemma á morgnana þar til seint á kvöldin. Það er því mikið um að vera og miklar annir jafnt hjá frambjóðendum sem og þeim sem eru í kosningamiðstöðinni og sinna þeim verkum sem máli skipta í spennandi kosningabaráttu. Mér finnst vera kraftur í okkar fólki eftir skoðanakönnunina sem birtist á laugardag og við erum sammála um það að vinna sameinuð fyrir góðum árangri um helgina.

Margir hafa lagt leið sína í kosningamiðstöð okkar sjálfstæðismanna í Kaupangi. Þar er mikið rætt um pólitík og skemmtileg vinna í gangi. Þrátt fyrir kuldatíðina, á þeim tíma sem ætti að vera hvað fallegastur í tilefni vorkomu, eru margir að koma og allir sameinaðir í að tryggja góða útkomu á laugardag. Ég hvet alla sem vilja koma til okkar að líta inn og fá sér kaffi og ræða málin. Allar fréttir af kosningabaráttu og ýmsar upplýsingar eru á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna hér í bæ.

Ég bendi sérstaklega á grein mína sem birtist á Íslendingi í dag og ég hvet alla lesendur til að líta á hana.