Spennandi kosningabarátta á seinustu metrunum
Nóg hefur verið um að vera í kosningabaráttunni hér á Akureyri í dag og seinustu daga og baráttan komin á endasprett, enda aðeins tveir sólarhringar í að kjörstaðir opni. Margir fundir eru í gangi og svo er alltaf líf og fjör í kosningamiðstöðinni okkar í Kaupangi. Eftir hádegi í gær fórum við sem erum í kosningabaráttu flokksins á Glerártorg til að ræða við kjósendur og kynna stefnu okkar og verk flokksins á seinustu árum fyrir fólki. Voru þarna fulltrúar allavega þriggja framboða að labba um og spjalla við fólk. Við vorum fjölmenn á Glerártorgi og höfðum með okkur nægar birgðir af góðum D-mintutöflum og fersku blávatni sem mæltist vel fyrir hjá þyrstu afgreiðslufólki sem og viðskiptavinum sem gjarnan tóku með sér birgðir heim.
Það var virkilega gaman að vera þarna og spjalla við fólk, hitta marga sem maður þekkir og hefur ekki séð lengi - fara svo yfir pólitísku stöðuna við þá sem áhuga hafa á pólitík. Vatnið rann út algjörlega - fólk vildi ræða margt og var virkilega gaman að sjá hversu vel okkur var tekið. Nú er kosningabaráttan á sínum síðustu metrum og mikilvægt að ná til sem flestra kjósenda með boðskap okkar. Það urðu allir hressir við að drekka vatnið enda er blávatnið okkar fyrsta flokks. Nú eru framundan seinustu 48 klukkutímarnir og mikil vinna framundan á endasprettinum við að ræða við fólk og kynna því bæði verk okkar í átta ár við forystu og þau verk sem við ætlum að koma í framkvæmd næstu fjögur árin.
<< Heim