Skemmtilegur dagur í Reykjanesbæ
Á laugardag hittist stjórn og trúnaðarfólk Sambands ungra sjálfstæðismanna um allt land í Reykjanesbæ og átti saman góða stund. Stjórn Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, hafði skipulagt góða dagskrá fyrir gesti sína og var þetta mjög eftirminnilegur dagur fyrir þá sem voru í ferðinni. Dagurinn hófst með því að Árni Sigfússon, bæjarstjóri, tók á móti hópnum í Íþróttaakademíunni laust fyrir hádegi og kynnti fyrir honum stöðu sveitarfélagsins og styrka forystu flokksins þar, en Sjálfstæðisflokkurinn hlaut tæplega 60% atkvæða í kosningunum 27. maí sl. Að lokinni heimsókninni fór hópurinn í skoðunarferð í nýbyggingarhverfi í sveitarfélaginu. Ný og spennandi hverfi eru í byggingu og þar eru miklar framkvæmdir sem var áhugavert að kynna sér. Haldið var í höfuðstöðvar Hitaveitu Suðurnesja við Bláa Lónið að því loknu. Þar tók Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, á móti hópnum og kynnti honum starfsemina og hlutverk fyrirtækisins með mjög ítarlegum og áhugaverðum hætti. Var Bláa Lónið skoðað vel og var fundað í fundarsal í húsakynnum Bláa Lónsins.
Að því loknu var haldið með rútu um bæinn og að því loknu upp að varnarsvæðinu. Þar tók Pétur Guðmundsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, á móti hópnum og fór yfir það sem þar hefur farið fram seinustu áratugina. Var snæddur hádegisverður í höfuðstöðvum Íslenskra aðalverktaka á varnarsvæðinu og fór þá Pétur betur yfir meginþætti starfseminnar með góðri og ítarlegri kynningu. Nú eru aðeins örfáir mánuðir þar til að öll starfsemi Varnarliðsins hefur verið aflögð og því miklar breytingar framundan á svæðinu og velja þarf því bráðlega annað hlutverk.
Var athyglisvert að fara um svæðið, enda minnir það að mestu orðið á draugabæ, enda eru mjög fáir eftir þar. Fyrir þau okkar sem aldrei höfðu þarna komið var vissulega merkilegt að sjá loksins allan aðbúnað og starfsemi sem þarna er um að ræða. Svæðið er mjög umfangsmikið og hefði verið mjög áhugavert að sjá stöðu mála þarna þegar að mestu umsvifin voru þarna og einkum áður en flugstöð Leifs Eiríkssonar kom til sögunnar um miðjan níunda áratuginn. Nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um svæðið er Bandaríkjamenn halda á brott fyrir lok septembermánaðar.
Þar flutti Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi og varaþingmaður, okkur ræðu um kosningabaráttu flokksins í Reykjanesbæ. Enginn vafi leikur á þvi að kosningabaráttan í Reykjanesbæ var gríðarlega vel heppnuð og vel utan um allt haldið eins og við sáum á þeim gögnum sem heimamenn kynntu okkur. Þar var spilað á jákvæðni og ferskleika í allri kynningu og öllum ljóst að vel var unnið þar. Böðvar, sem sat í stjórn SUS í fjögur ár, fór ennfremur yfir stjórnmálaástandið almennt og urðu líflegar og góðar umræður að því loknu meðal viðstaddra. Þar bar auðvitað hæst brotthvarf Varnarliðsins, breytingar á ríkisstjórn og nýlegar kosningar.
Kl. 17:00 hófst móttaka í Listasafni Reykjanesbæjar og þar sýndu Heimismenn okkur skemmtilegar auglýsingar flokksins fyrir kosningarnar og þar var lífleg umræða um málin að því loknu yfir góðum veigum. Snæddum við kvöldverð að því loknu og að því loknu horfðum við fótboltaáhugamennirnir í hópnum á skemmtilegan leik Argentínu og Mexíkó í 16 liða úrslitum Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Þýskalandi. Var mikið skemmt sér yfir leiknum og mikið líf og fjör. Eins og flestir vita lauk þessum góða leik með sigri Argentínumanna. Að því loknu skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi.
Þetta var virkilega áhugaverður dagur sem við áttum saman í góðra vina hópi. Vil ég þakka stjórn Heimis, f.u.s. í Reykjanesbæ, fyrir góða og vel skipulagða dagskrá og höfðinglegar móttökur. Það var svo sannarlega gaman að hittast í Reykjanesbæ og njóta þeirrar dagskrár sem boðið var upp á.
<< Heim