Áhugavert rit af Þjóðmálum
Nýlega kom út annað rit Þjóðmála á þessu ári. Þjóðmál hefur vakið athygli fyrir fróðlegar og góðar greinar sem fjalla um ýmislegt merkilegt, jafnt í stjórnmálum sem þjóðmálum. Las ég ritið um helgina af miklum áhuga og leist vel á - er óhætt að segja að vel hafi til tekist eins og ávallt áður. Á Jakob F. mikið hrós skilið fyrir að hafa hafið útgáfu þessa rits, en það er okkur hægrimönnum, sem og öðrum áhugamönnum um stjórnmál, mjög mikilvægt. Í þessu riti Þjóðmála standa upp úr vandaðar greinar um nýskipan öryggis- og varnarmála. Best af þeim er án nokkurs vafa grein Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, þar sem hann fer yfir sögu varnarsamningsins og lykilpunkta hans. Björn er vel að sér í utanríkis- og varnarmálum og mjög áhugavert einkum að kynna sér skoðun hans á því hvað taka eigi nú við í stöðunni í hinu breytta umhverfi.
Magnea Marinósdóttir skrifar eins og Björn magnaða samantekt um varnarmálin og fannst mér merkilegt að lesa hennar grein. Þar koma fram margar spennandi staðreyndir og punktar sem vert er að benda á og áhugavert að lesa. Guðbjörg H. Kolbeins skrifar í Þjóðmál mjög áhugaverða og fróðlega grein um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Hún fer þar yfir sviðið allt og stöðu fjölmiðla á þessum tímapunkti. Ég las greinina með miklum áhuga og komst þar bæði að nýjum og áhugaverðum punktum og varð betur meðvitaðri um það sem ég vissi fyrir. Þessi grein Guðbjargar ætti að vera sérstaklega spennandi fyrir alla þá sem áhuga hafa á fjölmiðlum og málefnum þeirra, einkum og sér í lagi á okkar tímum þar sem við öllum blasir að samþjöppun verður sífellt meiri og augljósari.
Útrásin er og verður spennandi umfjöllunarefni á okkar tímum. Í Þjóðmálum að þessu sinni fjallar Stefán Sigurðsson um útrásina og ásýnd íslensks efnahagslífsins erlendis. Ennfremur er fróðleg úttekt Gunnars Haraldssonar um skýrslur hinna erlendu greiningarfyrirtækja og viðbrögð íslenskra fjölmiðla við þeim nú seinustu vikurnar. Sérstaklega er svo áhugavert að lesa grein Atla Harðarsonar sem ber heitið Verðmæti, náttúruspjöll og flótti frá veruleikanum. Gunnar Þór Bjarnason er svo með athyglisvert innlegg og góða grein um Ísland og Ísrael. Ekki má svo gleyma áhugaverðri grein Ragnhildar Kolku um þjóðnýtingu barnauppeldis.
Síðast en ekki síst má benda á góðan ritstjórnarpistil Jakobs F. Ásgeirssonar og skemmtilegar bókmenntapælingar undir lok ritsins. Mér finnst það jafnan veisla þegar að Þjóðmál berst inn um lúguna hjá mér og les blaðið algjörlega upp til agna fljótlega eftir komuna. Ég vil óska höfundum efnis og útgefanda til hamingju með gott rit af Þjóðmálum og hlakka til að lesa það næsta og kynna mér bæði áhugaverðar og íhugular skoðanir þeirra sem rita.
<< Heim