Bongóblíða og notalegheit fyrir austan
Ég hef seinustu dagana verið í sumarleyfi hér austur á fjörðum. Þar hefur verið sannkölluð bongóblíða og alveg yndislegt að vera. Hefur verið mjög ánægjulegt að sjá þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á öllum sviðum í Fjarðabyggð og reyndar um allt Austurland samhliða framkvæmdum við Kárahnjúka og við væntanlegt álver Alcoa á Reyðarfirði. Ástæða er til að samfagna Austfirðingum með stöðu mála og þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Er allt annað andrúmsloft ríkjandi nú í byggðum Austfjarða en var fyrir aðeins örfáum árum og mikil bjartsýni ríkjandi í stað þeirrar svartsýni sem einkenndi óvissu um álverið á Reyðarfirði.
Er óvissunni lauk í þessum málum birti yfir byggðum Austfjarða og það jákvæða andrúmsloft sem er hér vegna þessa er mjög greinilegt. Framkvæmdagleði og bjartsýni eru einkennisorð hér. Er ánægjulegt að sjá þetta. Mjög ánægjulegt er að sjá hversu vel gengur við framkvæmdir við Reyðarfjörð. Á leiðinni til Eskifjarðar verður ekki komist hjá að sjá verklegar framkvæmdir við álversbygginguna. Er verkið ótrúlega langt komið og hefur gengið mjög hratt seinustu mánuðina. Enginn vafi er á því í mínum huga að þeir sem gengið hafa fram með svartagallsraus gegn þessari uppbyggingu fyrir austan eiga eftir að gjalda fyrir þá afstöðu og verða dæmdir hart vegna þeirrar afstöðu. Ástæða er til að gleðjast með íbúum Austurlands og reyndar alls Norðausturkjördæmis með góða stöðu mála fyrir austan og þá miklu framför sem orðið hefur.
Seinustu daga hef ég farið hér um byggðir og hitt vini og ættingja og átt með þeim góða stund. Ekki hefur veðrið spillt fyrir og mjög notalegt var t.d. að fara í sundlaugina á Eskifirði. Hún hefur svo sannarlega verið mikið í fréttum seinustu dagana. Þar er aðbúnaður allur eins og best er á kosið og svo sannarlega tilefni til að óska heimamönnum til hamingju með þessa góðu sundlaug. Svo fannst mér merkilegt að taka mér góða stund til að ganga upp í silfurbergsnámurnar skammt frá Helgustöðum en þangað er eilítill göngutúr sem er öllum hressandi sem þar fara - hafði ekki farið þangað áður. Hér hefur verið ánægjulegt að vera svo sannarlega seinustu dagana - alltaf gott að vera hér.
<< Heim