Stjórn SUS ályktar um framlagningu skattskráa
Var að koma heim frá Reykjavík. Var góð og ánægjuleg ferð sem ég fór þangað að þessu sinni. Veðrið var alveg ágætt og margt skemmtilegt sem gert var að þessu sinni fyrir sunnan. Í gærkvöldi hittist stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna í Valhöll til að fara yfir fjölda mála og ræða væntanleg verkefni, enda styttist óðum í upphaf spennandi kosningavetrar og í mörg horn að líta. Hjá okkur í SUS er nóg framundan og þétt og spennandi dagskrá sem er mjög áhugaverð. Á fundinum samþykktum við góða og kraftmikla ályktun, til birtingar í dag, þar sem við skorum á Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og alþingismenn alla að gera þegar í stað breytingar á lögum til að koma í veg fyrir framlagningar skattskráa.
Í dag birtist svo pistill minn á vef SUS þar sem ég fer yfir þetta mál og bendi á skoðun mína og okkar í stjórninni í þessum efnum. Nú sem fyrr minnir SUS á andstöðu sína við birtingu álagningarskránna með mjög áberandi hætti. Í dag fóru SUS-arar í afgreiðslu Skattstjórans í Reykjavík og stóðu fyrir aðgerðum sem miðuðu að því að vernda þessar viðkvæmu persónuupplýsingar sem yfirvöld heimta af almenningi, vinna síðan úr og leggja að lokum til sýnis fyrir alla landsmenn. Þetta er að okkar mati sannkallaður ósómi. Um er enda að ræða persónuupplýsingar sem snerta einkahagi fólksins í landinu.
Ályktun stjórnar SUS er svohljóðandi:
"Í dag, föstudaginn 28. júlí, munu skattstjórar í öllum skattumdæmum landsins leggja fram skattskrár hvers einasta framteljanda, beinlínis í þeim tilgangi að samborgararnir geti skoðað þær og gert athugasemdir. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skorar á fjármálaráðherra og alþingi að gera þegar í stað breytingar á lögum til að koma í veg fyrir þennan ósóma.
Ekki er nóg með að ríkisvaldið leggi á herðar þegnum sínum þá skyldu að gjalda því stóran hluta af tekjum sínum, heldur ber skattþegni einnig skylda til að láta skattyfirvöldum (ókeypis) í té upplýsingar um tekjur sínar og eignir. Það er sagt nauðsynlegt svo hægt sé að leggja á viðkomandi viðeigandi gjöld og álögur. Þegar ríkisvaldið hefur þannig í krafti valdheimilda sinna heimt þessar upplýsingar af einstaklingnum, má hann enn eiga von á átroðningi réttinda sinna. Í stað þess að gæta þessara upplýsinga, eins og flestra annarra persónulegra upplýsinga sem ríkisvaldið hefur í vörslu sinni, eru þær lagðar fram til sýnis fyrir Pétur og Pál í tvær vikur.
Fjárhagsmálefni eru einkamál hvers og eins, og meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Gildar ástæður þurfa að liggja til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valdheimilda og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um virkt skatteftirlit með þessum hætti geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar og átroðningi ríkisvaldsins á réttindum einstaklinga.
Allt frá árinu 1937 hafa skattayfirvöld afhent fjölmiðlum upplýsingar um gjöld hæstu gjaldenda samkvæmt álagningu hvers árs. Fram til 1979 voru einungis lagðar fram skattskrár og ekki gerður munur í lögum á álagningarskrám og skattskrám. Árið 1982 var farið leggja álagningarskrár fram og styðst sú framlagning við ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Með 8. gr. laga nr. 7/1984 var heimiluð opinber birting og útgáfa skattskráa.
Í tengslum við þá lagabreytingu sagði í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar neðri deildar Alþingis, að ótvírætt sé að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar í heild sé til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og gegni slík birting að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Framlagning álagningar- og skattskráa er þannig hugsuð sem þáttur í virku skatteftirliti og ætlað að koma í veg fyrir undanskot frá skatti.
Ef sú er raunin, væri eftirlitið þá ekki mun betra ef skrárnar lægju fyrir allan ársins hring, hjá öllum skattstjórum og á Netinu að auki? Ungir sjálfstæðismenn telja ofangreind rök hjóm og hjóm eitt og ekki standast grundvallarhugmyndir um friðhelgi einkalífsins og vernd fyrir yfirgangi ríkisvaldsins.
Gífurlegar umbætur hafa átt sér stað varðandi réttarstöðu einstaklinga síðastliðinn áratug. Flestir gera sér betur grein fyrir réttindum sínum og þeim takmörkum sem ríkisvaldinu eru sett gagnvart þeim. Þær upplýsingar sem lagðar verða fram á skattstofum um land allt í dag gefa í mörgum tilvikum glögga mynd af tekjum nafngreindra manna. Þessar upplýsingar er hægt að færa sér í nyt með margvíslegum hætti, þ.á m. í ágóðaskyni.
Þar að auki grefur aðgangur almennings að þeim undan trúnaðarsambandi vegna frjálsra vinnusamninga. Á flestum vinnustöðum eru launakjör starfsfólks trúnaðarmál en með framlagningu álagningar- og skattskráa gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu."
<< Heim