Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 ágúst 2006

Afmæli Akureyrarbæjar

Akureyri

Í dag eru 144 ár frá því að Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarnafnbót, reyndar öðru sinni, en árið 1836 missti bærinn kaupstaðarnafnbótina en endurheimti hana að nýju á árinu 1862. Saga Akureyrar er stórbrotin - á þessum 144 árum hefur Akureyri breyst úr dönskuskotnum smábæ í stærsta kaupstað landsbyggðarinnar sem má ennfremur teljast til helstu útgerðarstaða landsins þar sem eru höfuðstöðvar tveggja af stærstu útgerðarfyrirtækjum Íslendinga. Eins og Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar dregur Akureyrarbær nafn sitt af kornakri sem talið var að hafi verið í einu af giljum bæjarins. Ekki er það óeðlilegt, enda hefur Akureyri löngum verið þekkt áhuga bæjarbúa á garðyrkju og segja má að bærinn sé annálaður fyrir gróðursæld.

Það voru danskir verslunarmenn sem innleiddu þennan mikla áhuga á garðrækt og er það til marks um hin miklu dönsku áhrif í öllu bæjarlífinu fyrr og nú. Á seinustu árum hefur mikið átak verið unnið í að fegra bæinn og hefur það verk tekist með eindæmum vel. Öll umgjörð bæjarins er með því sem best verður á kosið. Gott dæmi í þeim efnum er Strandgatan sem hefur verið færð í glæsilegan búning, ástand miðbæjarins hefur tekið miklum framförum þótt betur megi ef duga skal, ennfremur hefur mikið verk verið unnið við að hreinsa og fegra umhverfið. Mér hefur alla tíð þótt virkilega vænt um Strandgötuna, þar byggði langafi sér hús í árdaga 20. aldarinnar og settist að með fjölskyldu sinni. Það er svo með föðurfólkið mitt að við erum nær öll hér, hér viljum við enda vera.

Akureyrarbær hefur í þessi tæplega 150 ár verið þekktur fyrir verslun, iðnað, sjávarútveg og síðast en ekki síst veðursæld. Bærinn er barna- og fjölskylduvænn og þar er nálægðin mikil við náttúruna og þar er góð íþrótta- og útivistaraðstaða. Á Akureyri er gott menningarlíf, þar eru afburðargóðir skólar og það er stutt frá heimili til vinnu og skóla. Þar eru öll lífsins gæði í boði. Ég sem Akureyringur frá fornu fari hef alltaf haft sterkar taugar til staðarins. Það er alltaf eitthvað sem togar mann aftur þangað, bærinn er í mínum huga einstakur í sinni röð. Ég sem Akureyringur fagna þeim merka áfanga sem felast í deginum í dag. Megi Akureyri vaxa og dafna um ókomin ár.