Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 ágúst 2006

Uppstokkun í nefndum Framsóknar

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er sextugur í dag. Á sama degi og nýr formaður Framsóknarflokksins fagnar sextugsafmæli sínu er kynnt ný skipan Framsóknarflokksins í nefndakapal Alþingis Íslendinga eftir þær miklu sviptingar sem hafa átt sér stað innan flokksins seinustu mánuði. Þingflokksfundurinn var reyndar nokkuð sögulegur, einkum fyrir þær sakir að hann er sá síðasti sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, mun sitja og mun hann hafa verið kvaddur sérstaklega á fundinum. Nú á næstu dögum mun svo Halldór Ásgrímsson formlega segja af sér þingmennsku eftir rúmlega þriggja áratuga setu og Sæunn Stefánsdóttir, nýkjörinn ritari Framsóknarflokksins, sem er 27 ára gömul, taka sæti hans á þingi og verða með því 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður.

Það kemur fátt sérstaklega á óvart í nýjum nefndakapal Framsóknarflokksins. Helstu tíðindin hljóta væntanlega að teljast þau að Birkir Jón Jónsson, alþingismaður hér fyrir Norðausturkjördæmi, mun taka við formennsku í fjárlaganefnd af Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaráðherra. Magnús varð formaður fjárlaganefndar eftir síðustu alþingiskosningar og hafa gárungarnir sagt að Magnús hafi orðið gráhærður af því að taka við nefndinni og elst við það um fjöldamörg ár. Skal hér ósagt um þá gamanspeki, þó fyndinn sé brandarinn. Frá því að Magnús varð ráðherra í júní hefur Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður nefndarinnar, verið starfandi formaður og vakið mikla athygli fyrir að tala hreint út um málin að vestfirðinga sið. Birkir Jón er yngsti þingmaðurinn á Alþingi og kemur þessi vegtylla hans mér ekki að óvörum.

Birkir Jón Jónsson

Birkir Jón náði kjöri á Alþingi í þingkosningunum 2003, þvert á allar spár, eftir tvísýna baráttu við Láru Stefánsdóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar, um þingsæti á kosninganótt. Birkir Jón var þá 24 ára og er næstyngsti maðurinn sem hefur náð kjöri á þing í stjórnmálasögu landsins, aðeins Gunnar Thoroddsen var yngri, en hann var yngri en Birkir Jón í árinu er hann var kjörinn á þing árið 1934. Birkir Jón hefur þótt styrkjast mikið af verkum sínum í stjórnmálum og vera áberandi. Sem dæmi um það má nefna að hann gaf kost á sér í kosningunum í vor fyrir flokkinn í sveitarfélagi sínu, Fjallabyggð, og náði kjöri og er t.d. formaður atvinnu- og ferðamálanefndar Fjallabyggðar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Birkir Jón getur samræmt þá formennsku og bæjarfulltrúasetu saman við formennsku í þingnefnd og þingsetu.

Það hlýtur að hafa verið verulegt áfall fyrir Birki Jón að þurfa að hætta við framboð sitt til ritaraembættis Framsóknarflokksins og láta af pólitískum metnaði sínum í þá áttina til að tryggja að kona hlyti embættið á flokksþinginu. Væntanlega má líta á formennsku fjárlaganefndar sem nokkra sárabót fyrir hann að hætta við ritaraframboðið, en öllum var ljóst að hann fór í það af alvöru og ætlaði sér sigur. Það heyrast margar sögur af framboðsmálum Framsóknarflokksins hér í kjördæminu. Sumar segja að Dagný Jónsdóttir ætli að hætta, aðrir að hún haldi áfram, sagt er að Birkir Jón vilji annað sætið og pískrað um að Jakob Björnsson ætli fram. Framsóknarmenn fá varla meira en tvö sæti hér næst í stað sinna fjögurra nú, enda blasir við þeim afhroð hér í öllum könnunum. Það verður án vafa harður slagur um efstu sæti þeirra hér.

Forysta Framsóknarflokks

Það er ekki hægt annað að segja en að verulegar breytingar hafi orðið í Framsóknarflokknum síðustu mánuði. Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon eru hættir í stjórnmálum, Jón Kristjánsson er hættur sem ráðherra og í þeirra stað komin í stjórn (auk flokksformannsins Jóns Sigurðssonar) þau Jónína Bjartmarz og Magnús Stefánsson. Það er t.d. mjög merkilegt að nú allt í einu eru báðir varaþingmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík norður komnir á þing, þau Guðjón Ólafur Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir. Það hljómar t.d. nokkuð kostulegt að Guðjón Ólafur sé orðinn leiðtogi flokksins í kjördæminu, en hafi fram til marsmánaðar verið varaþingmaður tveggja þingmanna. Merkileg tíðindi auk þessa telst væntanlega það að Jón Kristjánsson mun klára kjörtímabilið sem óbreyttur þingmaður.

Guðjón Ólafur Jónsson er nú eini leiðtogi Framsóknarflokksins í kjördæmi sem ekki er ráðherra. Hann verður formaður heilbrigðisnefndar Alþingis í stað Jónínu Bjartmarz og verður auk þess varaformaður allsherjarnefndar. Hjálmar Árnason verður formaður iðnaðarnefndar. Dagný Jónsdóttir verður áfram formaður félagsmálanefndar, en hún tók við formennskunni þegar að Siv Friðleifsdóttir varð heilbrigðisráðherra. Sæunn Stefánsdóttir mun verða varaformaður efnahags og viðskiptanefndar. Jón Kristjánsson, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, verður varaformaður utanríkismálanefndar og ennfremur 2. varaforseti Alþingis í stað Jónínu Bjartmarz og Kristinn H. Gunnarsson tekur við varaformennsku í landbúnaðarnefnd og er auk þess varaformaður í sjávarútvegs- og umhverfisnefnd.

Kristinn H.

Mesta athygli í hrókeringunum vekur að Kristinn H. Gunnarsson fær enga nefndarformennsku þrátt fyrir að hafa verið formaður þingnefndar áður og hafa svo auðvitað mun lengri þingsetu að baki innan flokksins en t.d. Guðjón Ólafur Jónsson, svo dæmi sé tekið. Reyndar er auðvitað Guðjón orðinn leiðtogi flokksins í borginni. Kristinn var rekinn úr öllum þingnefndum haustið 2004, t.d. missti hann þá formennsku í iðnaðarnefnd þingsins. Síðar var hann tekinn í sátt og fékk að fara í tvær nefndir. Lítur hann á niðurstöðu mála sem svik við sig ef marka má fréttir RÚV í dag.

Þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins var sáttahljóð í honum og greinilegt að hann vildi lægja öldur innan flokksins. Sumir töldu eftir það að með því yrði Kristinn H. tekinn að fullu aftur í sátt. Svo er ekki og sennilega eimir þar eftir af því þegar að þeir voru í Byggðastofnun. Það má allavega búast við því að Kristinn H. verði við sama heygarðshornið í vetur og mun leika sóló eins og hann er þekktastur fyrir. Kannski er sáttatónninn í flokknum ekki kominn á það stig að hann teljist varanlegur ef marka má þetta allt.