Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 ágúst 2006

Örlagadagur á stjórnmálaferli Joe Lieberman

Lieberman og Bush

Á þessum degi fyrir sex árum var mikill örlagadagur í lífi öldungadeildarþingmannsins Joe Lieberman frá Connecticut. Þá tilkynnti Al Gore, þáv. varaforseti Bandaríkjanna, að hann hefði valið Lieberman sem varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum 2000. Með því komst hann á spjöld sögunnar, enda var Lieberman fyrsti gyðingurinn í forystu forsetaframboðs annars af stóru stjórnmálaflokkunum. Þrátt fyrir að gagnrýna Bill Clinton, þáv. forseta, harkalega í málaferlunum fyrir sameinuðum þingdeildum vegna máls Monicu Lewinsky árið áður hafði hann hlotið náð fyrir augum forystu Demókrataflokksins. Kosningabaráttan var jöfn og æsispennandi. Að lokum fór það svo að Gore og Lieberman urðu að gefast upp. Þar munaði aðeins hársbreidd að Lieberman yrði fyrsti gyðingurinn á varaforsetastól landsins.

8. ágúst 2006 verður klárlega ekki síður örlagadagur í lífi þessa 64 ára þingmanns. Nú berst hann fyrir pólitísku lífi sínu eftir að hafa setið í öldungadeildinni í tæp 18 ár. Í dag fer fram forval demókrata í Connecticut. Fram til þessa hefur Lieberman átt auðvelt með að vinna tilnefningu flokksins til endurkjörs en nú stefnir í spennandi kosningadag. Lieberman var endurkjörinn síðast árið 2000, er kjörtímabili hans lauk. Hann ákvað að halda fast við þingframboð sitt þá þrátt fyrir að vera í kjöri með Al Gore. Mörgum fannst hann í raun gefa það út með því að ekki væri öruggt með að Gore myndi vinna. Fannst mörgum að hann hefði niðurlægt Gore. Vík varð milli þeirra þegar í baráttunni og Gore studdi frekar Howard Dean en Lieberman í forvali demókrata fyrir forsetakjörið 2004.

Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans. Svo fór að lítt kunnur viðskiptamaður að nafni Ned Lamont ákvað að gefa kost á sér. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu. Á nokkrum mánuðum hefur allt breyst. Nú mælist Lamont með forskot á Lieberman, fyrir nokkrum dögum var forskotið orðið 13% en hefur aftur minnkað nú seinustu dagana. Lieberman eyðir nú fé á báða bóga í baráttu sína fyrir því að halda velli. Hann er að berjast fyrir pólitísku lífi sínu og baráttan virðist svo jöfn að ómögulegt er um að spá hvor vinni. Flestir gera sér því grein fyrir að stórtíðindi gætu orðið í Connecticut í dag.

Lieberman hefur flaggað mörgum góðkunningjum sínum í forystu flokksins í baráttunni. Bill Clinton fór í fylkið til að styðja hann og ennfremur hafa margir félagar hans í öldungadeildinni mætt til að styðja hann af krafti. Lieberman gerir sér hinsvegar fulla grein fyrir því að ef honum tekst ekki að ná útnefningu flokksins í dag muni stuðningur þeirra gufa algjörlega upp, enda hafa flest þeirra sagst munu virða val demókrata á frambjóðanda í dag. Lieberman hefur reyndar sagst ætla að bjóða sig fram sem óháður frambjóðandi nái hann ekki að hljóta kjör flokksins og sagt eðlilegt að íbúar fylkisins geti sagt álit sitt á verkum sínum þrátt fyrir að hann myndi jafnvel ekki vinna útnefningu flokksins.

Undanfarnar vikur hafa andstæðingar Joe Lieberman í stuðningsmannahópi Ned Lamont leitað að öllu neikvæðu varðandi Lieberman, tengt Íraksstríðinu og fleiru, og kynnt vel fyrir íbúum fylkisins og skaðað sterka stöðu þingmannsins. Eitt af því sem hefur farið víða er mynd af Lieberman og Bush forseta frá því að sá síðarnefndi flutti stefnuræðu sína fyrr á árinu. Á leið sinni að ræðupúltinu í salnum þar sem báðar þingdeildir voru samankomnar gekk Bush til Liebermans, faðmaði hann og virtist kyssa hann á kinnina. Myndin af þessu atviki hefur verið stækkuð og er nú notuð miskunnarlaust af Lamont og hans fólki undir yfirskriftinni: Bush´s best friend.

Það er reyndar kaldhæðnislegt að notað sé á Lieberman að vera hægrimaður í vinstriflokki og stimplað á hann að vera einhver aðdáandi Bush. Staðreyndin er enda sú að hann átti í lagadeilum við hann með Al Gore í 36 daga til að reyna að hnekkja sigri Bush í forsetakosningunum 2000 (hársbreidd frá varaforsetaembættinu) og svo keppinautur hans innan Demókrataflokksins í kosningunum 2004, þó að honum mistækist að vinna útnefningu flokksins þá studdi hann John Kerry ötullega gegn George W. Bush þá. En nú virðist aðdáun flokksmanna á hinum reynda Lieberman eitthvað hafa dalað og hann berst baráttu lífsins fyrir því að halda því sem hann hefur haft í bandarískri pólitík í um tvo áratugi.

Sex árum eftir örlagadaginn sem markaði hann sem vænlegt varaforsetaefni er hann að berjast yfir því að halda yfirráðum á valdastöð sinni í bandarískri pólitík. Hvort sem hann sigrar eða tapar í slagnum er þetta örlagadagur á hans ævi. Annaðhvort vinnur hann útnefningu flokksins til endurkjörs eða tapar stöðu sinni inni í flokkskjarnanum og þarf að byrja upp á nýtt. Tapi Lieberman kosningunni í dag mun stjórnmálaferill hans laskast gríðarlega og svo gæti farið að hann stæði nær einn á báti. Það eru mjög athyglisverð örlög manns sem fyrir sex árum var hylltur á flokksþingi demókrata í Los Angeles sem varaforsetaefni flokksins.

Það verður spennandi að sjá hver örlög Liebermans verða er talið verður í kvöld. Hvort sem verður má fullyrða að 8. ágúst sé örlagadagur í lífi þessa reynda stjórnmálamanns sem hefur upplifað gleði og baráttu á þessum degi á pólitískum ferli sínum.