Vandræðaleg barátta virkjunarandstæðinga
Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fjalla ég um virkjun og álver á Austurlandi, andstöðu vissra afla gegn framkvæmdunum og sögu málsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að virkjun og álver á Austurlandi eru umdeild. Það eru skiptar skoðanir um þær framkvæmdir sem eiga sér stað á Austurlandi. Hinsvegar hefur það birst í skoðanakönnunum og í umræðu á lýðræðislega kjörnu Alþingi Íslendinga að meirihluti landsmanna styður þessar framkvæmdir og hefur lagt þeim lið. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.
Átök voru um þetta mál milli fylkinga í síðustu þingkosningum og reyndi þá á stjórnmálamennina sem leiddu málið á öllum stigum þess. Þeir höfðu sigur á meðan að andstæðingarnir fóru mjög sneyptir frá sinni baráttu. Mér hefur fundist barátta andstæðinga þessarar framkvæmdar hafa gengið fram með mun meira offorsi og hörku þetta sumarið en hin fyrri, þó áður hafi verið beitt ýmsum meðölum til að valta yfir lýðræðislega kjörinn meirihluta Alþingis og stuðningsmenn málsins. Það helgast væntanlega af því að nú styttist í verklok, það sér fyrir endann á vinnu við álverið og virkjunina og því er barátta mótmælendanna að verða nær vonlaus, hafi hún einhverntímann verið með vonarglampa af þeirra hálfu.
Nú blasir raunveruleikinn við mótmælendunum og það eru að verða góð ráð dýr fyrir þetta fólk. Það má því sennilega skilja hörkuna og offorsið þegar tillit er tekið til stöðu verksins nú. Eftir ár verður allt komið á fullt fyrir austan í álverinu og virkjunin verður þá löngu orðinn veruleiki. Nú þegar flest ef ekki öll sund eru lokuð fyrir mótmælendurna stíga sumir þeirra fram á sviðið og reyna að sá fræjum illgirni og efasemdar í garð framkvæmdarinnar.
Bendi lesendum á að lesa greinina alla.
<< Heim