Uppstokkun framundan á Morgunblaðinu
Samkvæmt fréttum nú undir kvöld verður veruleg uppstokkun á útliti og efnistökum Morgunblaðsins frá og með næsta föstudegi, 25. ágúst nk. Stefnt er að því að hætta tímaritaútgáfu blaðsins að efni tímaritanna verði að öllu leyti fellt inn í blaðið sem verði með því efnismeira og viðameira. Búast má því við útlitsbreytingum og að önnur efnistök verði meira ráðandi, með þessu ætti Morgunblaðið að færast inn í aðra tíma og jafnvel taka á sig annan brag. Jafnframt þessu verður Einar Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri Flugleiða, ráðinn framkvæmdastjóri Árvakurs í stað Hallgríms Geirssonar, sem verið hefur framkvæmdastjóri þar um árabil, en hann óskaði eftir starfslokum fyrir nokkrum mánuðum.
Segja má að þær breytingar sem framundan eru séu þær viðamestu í 93 ára sögu þessa merka dagblaðs. Þáttaskil urðu á Morgunblaðinu í upphafi ársins 2003 þegar að blaðið hóf mánudagsútgáfu eftir 84 ára hlé. Þáttaskil urðu í íslenskum fjölmiðlaheimi með þessari útgáfu enda kom þá blaðið út alla daga vikunnar, sem var nýmæli fram að því. Morgunblaðið hefur í þá tæpu öld sem það hefur komið út verið táknmynd íhaldseminnar. Það hefur löngum verið íhaldsamt, bæði þegar kemur að útgáfumálum og útliti sem lítið hefur breyst í áranna rás. Nokkrum vikum fyrir upphaf mánudagsútgáfunnar var sú róttæka breyting á blaðinu að forsíða þess varð blönduð af erlendum og innlendum fréttum.
Í rúmlega þrjá áratugi voru einungis erlendar fréttir á forsíðu Morgunblaðsins og því orðið tímabært að stokka þetta upp, enda var þessu áður breytt í öðrum fjölmiðlaheimi en við blasti í upphafi 21. aldarinnar. Mikið hafði breyst. Breytingar á fjölmiðlum halda sífellt áfram. Morgunblaðið er útbreiddasti prentmiðill landsins sem stendur undir sér með áskrift og hefur alla tíð notið mikilla vinsælda og virðingar almennings.
Morgunblaðið er í mínum huga frábært blað og þarfur vettvangur sem ég vildi ekki vera án. Með þessari ákvörðun mun blaðið styrkjast enn meira en nú er, að mínu mati. Í mínum huga er fréttamennska Morgunblaðsins fyrsta flokks og traust í alla staði, eins og kannanir hafa sýnt. Morgunblaðið er allavega blað sem ég get ekki án verið.
<< Heim