Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 september 2006

Hanna Birna og Bryndís hætta

Hanna Birna

Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, hefur látið af störfum sem aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Er það skiljanlegt í ljósi þess að henni hafa verið falin forystustörf á vettvangi borgarmála. Hanna Birna hefur starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins í tæpan áratug en verið lengi áberandi í innra starfi flokksins. Þann tíma sem ég hef verið í innra starfi flokksins og leitt flokksfélag hefur verið gott að leita til Hönnu Birnu og ég met mjög mikils verk hennar fyrir innra starf flokksins á skrifstofunni í Valhöll. Ég vil óska henni góðs gengis í þeim verkum sem hún sinnir nú og jafnframt þakka henni fyrir gott samstarf í flokksstarfinu þessi ár sem leiðir okkar hafa legið saman en það hefur oft verið sem maður hefur þurft að leita suður og heyra hljóðið í fólkinu þar.

Bryndís R.

Jafnframt er Bryndís Róbertsdóttir nú hætt störfum á flokksskrifstofunni fyrir sunnan og er haldin til náms. Hún hefur starfað hjá flokknum í tvo áratugi í innra starfinu og verið tengiliður félaga við Valhöll. Það hefur verið algjörlega ómetanlegt að geta tekið upp símtólið og hringt í Bryndísi til að fá annaðhvort ráðleggingar eða heyra hljóðið í henni. Vil þakka Bryndísi kærlega fyrir allt gamalt og gott og notaleg samskipti, enda hef ég reglulega leitað til hennar með ýmis mál sem upp hafa komið.