Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 nóvember 2002

Leiðtogar í Kastljósinu - glæsileg útkoma
Í gærkvöldi voru Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, gestir Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi RÚV. Þeir hlutu ótvíræða kosningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina og munu leiða lista flokksins í borginni. Var gaman að horfa á viðtalið og ljóst að flokkurinn er í góðum höndum með þessa kraftmiklu forystumenn við stjórnvölinn. Í dag birtist pistill minn um prófkjörsúrslitin á heimasíðu Heimdallar. Þar ræði ég einkum um styrka stöðu forystunnar, kraftmikla innkomu ungliðanna og veika stöðu kvenframbjóðendanna. Við sem erum í ungliðahreyfingunni erum enn í sæluvímu yfir úrslitunum og ljóst að ungu fólki er treyst fyrir áhrifum innan flokksins, það er mikilvægasta niðurstaðan að mínu mati. Úrslitin munu hvetja ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum, ég tel að á því leiki enginn vafi.

Árni Ragnar og Drífa í forystunni í Suðurkjördæmi
Flest bendir nú til þess að Árni Ragnar Árnason og Drífa Hjartardóttir muni verða í forystu Sjálfstæðisflokksins í hinu nýja Suðurkjördæmi. Í þriðja sætinu yrði Guðjón Hjörleifsson fyrrv. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Í næstu sætum yrðu Kjartan Ólafsson alþingismaður, og Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Með því yrði Kristján Pálsson settur út í kuldann og er ekki gert ráð fyrir honum í tillögum kjörnefndar. Listinn verður afgreiddur á kjördæmisþingi um helgina og því ekki ljóst hvort þetta verði endanleg niðurstaða. Árni Ragnar hefur barist hetjulega við veikindi seinustu árin og er kominn aftur til starfa á þingi, hann er mikill heiðursmaður og hefur setið lengst á þingi af þeim sem koma úr kjördæminu. Því kemur þetta svosem ekki á óvart, en ég er þeirrar skoðunar að Drífa hefði átt að leiða listann, enda hún eini sitjandi leiðtoginn í kjördæminu. Þetta ræðst hinsvegar allt um helgina.