Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 nóvember 2002

Farsinn vegna ráðningu fréttastjóra
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðunni um hver verði næsti fréttastjóri Ríkissjónvarpsins. Nokkur tími er nú liðinn síðan staðan var auglýst og tilkynnt var hverjir hefðu sótt um starfið. Það virðist vera sem vissir flokkshestar í útvarpsráði ætli með öllum brögðum að reyna að koma í veg fyrir að hæfasti umsækjandinn fái starfið. Það leikur enginn vafi á því að Elín Hirst er hæfust þeirra sem um starfið sóttu og ætti að öllu eðlilegu að fara eftir því en ekki flokkslitum. En svo einfalt virðist það ekki ætla að verða, enda blasir við að vinstriflokkarnir reyni nú allt til að finna annan kandídat í stöðuna til að koma í veg fyrir að Elín verði ráðin. Þegar ljóst var hvert stefndi hætti Páll Benediktsson við að sækjast eftir starfinu, en hann þótti vinstriflokkunum ákjósanlegur til að koma í veg fyrir að Elín fengi starfið. Er með ólíkindum að fylgjast með þessum vinnubrögðum. Vissir einstaklingar tefja afgreiðslu málsins til að koma í veg fyrir að hæfasti einstaklingurinn verði ráðin. Þetta staðfestir enn einu sinni að tími útvarpsráðs er liðinn og nauðsynlegt að stokka þessa stofnun alla upp. Í svona starf á að ráða útfrá hæfileikum umsækjenda en ekki flokkslitum. Sá hæfasti á að njóta sannmælis. Spurningin er hvort Elín Hirst muni sem hæfasti umsækjandinn fá stöðuna eða hvort þessi farsi verði þess valdandi að hæfileikar og fyrri reynsla í þessum bransa séu látnir lönd og leið við ráðningu í slík embætti sem hér um ræðir. Um málið er fjallað ítarlega á Pressunni.

Bankarnir seldir - meiri einkavæðingu
Á seinustu vikum hafa kjölfestuhlutir í báðum ríkisbönkunum verið seldir. Við sölu ríkisins á ráðandi hlut í Landsbankanum og Búnaðarbankanum verða tímamót í íslensku viðskiptalífi. Í fjölda ára hafa bankarnir verið ráðandi öfl í heimi viðskiptanna. Þeir hafa veitt Íslendingum mikilvæga þjónustu og hafa í gegnum tíðina staðið dyggilega að baki fjölda atvinnufyrirtækja um allt land. Því ber að fagna að eignarhaldsfélagið Samson og svokallaður S-hópur kaupi ríkisbankana og ríkið sé loks að hverfa af þessum vettvangi. Ég vona að salan gefi tóninn fyrir frekari einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Ég fjalla um söluna á bönkunum og einkavæðingu í pistli á heimasíðu Heimdallar í dag.

James Bond væntanlegur í bíó
Í næstu viku verður nýjasta Bond-myndin frumsýnd hér á Íslandi. Er um að ræða tuttugustu myndina í seríunni, Die Another Day. Pierce Brosnan leikur hér njósnarann í fjórða sinnið, en hann hefur verið í hlutverkinu allt frá 1995, er hann lék í GoldenEye. Um þessar mundir eru 40 ár liðin frá því fyrsta Bond-myndin var frumsýnd, hin óviðjafnanlega Dr. No með Sean Connery, sem að mínu mati hefur leikið njósnarann best. Ég hef í gegnum tíðina verið mikill unnandi spennumynda og er því að sjálfsögðu gallharður Bond-aðdáandi. Á allar myndirnar og er þar af leiðandi vinsæll hjá fjölskyldu og vinum sem vilja sjá myndirnar öðruhverju. Ég keypti í dag miða á nýju myndina í forsölu og skelli mér því í bíó í næstu viku til að sjá nýjustu myndina. Ef marka má trailerinn úr myndinni er von á góðu.