Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 nóvember 2002

Bloggsíðan mánaðargömul
Í dag er mánuður liðinn frá því að ég fór að opinbera skoðanir mínar og hugsanir hér á þessum vettvangi. Hef ég fengið mjög ánægjuleg og jákvæð viðbrögð við þessari síðu. Hef fengið marga tölvupósta þar sem fólk lýsir yfir ánægju með þessi skrif og hvetur mig til að halda þessu áfram. Ég þakka öllum þeim sem líta á síðuna og fylgjast með skrifum mínum, bæði hér og á öðrum vefsíðum. Ljóst er af teljaranum á heimasíðum mínum að fólk hefur á þessu áhuga og það gleður mig mjög. Ég þakka kærlega fyrir og mun halda áfram af sama krafti og áður. Ég hef verið áhugamaður um stjórnmál í fjölda ára og fagna því að fólk hafi á þessum pælingum mínum sama áhugann og ég hef.

Davíð kominn í kosningaham
Í kvöld var Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gestur Kristjáns Kristjánssonar og Evu Maríu Jónsdóttur í Kastljósi RÚV. Í þættinum báru þau upp spurningar sem almenningur hafði sent stjórnendunum og því var umræðan galopin og á valdi fólks að spyrja forsætisráðherrann um það sem hæst bar. Mikið bar á umræðum um skattamál, einkavæðingu og framboðsmálin í Norðvesturkjördæmi. Davíð svaraði spurningunum fimlega og ekkert fum var á honum, hann kom fram af öryggi og festu eins og ávallt áður. Ljóst er að hann er kominn í kosningaham og er farinn að undirbúa komandi átök á vettvangi íslenskra stjórnmála.

Umræða um kosti og galla ESB-aðildar
Eins og ég hef vikið að áður á þessari síðu fór ég á föstudag á málstofu um Evrópumál í Háskólanum hér á Akureyri. Ég hef lengi verið mikill áhugamaður um stjórnmál og tel mig vera mikinn Evrópusinna. Það er mikill munur á því og að vera Evrópusambandssinni. Ég er alfarið á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, eins og allir ættu að vita sem þekkja mig og skoðanir mínar. Ég fjalla um Evrópumálin í pistli mínum á heimasíðu flokksins hér á Akureyri í dag. Hvet alla lesendur síðunnar til að kíkja á þann pistil.