Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 janúar 2003

Mánudagsútgáfa Moggans - ítarlegar greinar Agnesar um Íslandsbanka
Í dag kemur Morgunblaðið í fyrsta sinn í 84 ár, út á mánudögum. Þáttaskil verða í íslenskum fjölmiðlaheimi þegar Mogginn hefur mánudagsútgáfu sína á nítugasta afmælisári sínu. Nú kemur blaðið út alla daga og stendur virkilega undir nafni sem dagblað. Ég sem áskrifandi blaðsins fagna þessum breytingum bæði á útgáfunni og forsíðunni í nóvember sem eru mjög til góða. Þau munu styrkja blaðið. Í dag birtist fyrsta greinin af fjórum eftir Agnesi Bragadóttur um valdataflið um Íslandsbanka fyrir nokkrum árum þar sem við sögu komu bæði þekktir kaupsýslumenn og stjórnmálamenn. Eru þetta mjög áhugaverð og fræðandi skrif og verður gaman að lesa næstu greinar, hlakka til að lesa t.d. um aðdragandann að sameiningu Íslandsbanka og FBA á morgun. Agnes fer á kostum í þessum greinaskrifum eins og jafnan áður, greinaflokkur hennar um fall SÍS er sérstaklega eftirminnilegur þeim sem lásu hann á sínum tíma (1993). Í mínum huga er fréttamennska Morgunblaðsins fyrsta flokks og ég kaupi ekki önnur dagblöð á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Morgunblaðið er blað sem ég get ekki án verið.

Stórfurðuleg skoðanakönnun
Þar sem ég hvorki les Fréttablaðið né tek nokkurt mark á fréttamennsku þess eftir margar rangfærslur á síðasta ári tek ég skoðanakönnun þeirra í dag um fylgi flokkanna með mikilli varúð. Hef kynnt mér tölur úr þessari könnun á Netinu og sé þar að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn standa jafnfætis í fyrsta sinn til þessa. Könnunin virðist unnin á mjög óvísindalegan hátt, það er greinilega ekki mikið vit á þessu blaði á nýjum kjördæmalögum. Þetta má helst sjá af því að flokki með 2% fylgi er spáð manni á þing, en allir sem eitthvert snefilsvit hafa á nýju lögunum vita að það dugir ekki fyrir þingmanni. Nú þarf flokkur að hljóta 8-10% í kjördæmi til að ná manni kjördæmakjörnum og 5% á landsvísu til að eiga möguleika á jöfnunarmönnum. Við bætist að margir taka ekki afstöðu í þessari könnun. Það mætti helst ímynda sér að skoðun eins til eða frá hefði breytt fylginu. Úrtakið er mjög lítið. Ég hef alltaf tekið mest mark á könnunum Gallups. Á gamlársdag birtist könnun þeirra um fylgi flokkanna þar sem á fjórða þúsund manna tóku þátt um allt land. Þar voru línurnar skýrar. Könnunin í dag er svosem ágæt en ég minni á að Samfylkingin hefur verið í fjölmiðladekri seinasta mánuðinn og því varla tíðindi að fylgið aukist eitthvað. Það sem vekur helst athygli mína (ef tölurnar eru réttar sem ég dreg í efa) er að Samfylkingin er að stúta samstarfsflokkum sínum í borgarstjórn með framboði fráfarandi borgarstjóra. Má vel vera að hér sé að skapast tveggja flokka kerfi að bandarískri og breskri hefð. Ég minni hinsvegar á að líkurnar á að Samfylkingin haldi fylgisaukningu á kostnað Framsóknar og VG eru ekki miklar og líklegt að þegar til alvöru kosningabaráttu kemur verði fylgi þeirra meira. Sjálfstæðisflokkurinn tapar ekki miklu fylgi í þessari könnun Fréttablaðsins. SF græðir þar á tapi hinna flokkanna, Frjálslyndir virðast alveg við það að drepast í upphafi kosningaárs en ég tel hinsvegar alveg út í hött að afskrifa Framsókn. Það hafa margir farið flatt á því. Það var alltaf ljóst að þessi kosningabarátta yrði lífleg eftir að ISG missti allt niður um sig í borgarmálunum og ákvað að ganga á bak orða sinna í kosningabaráttunni í fyrra. Ljóst er að henni er ekki stillt upp sem leiðtogaefni flokksins, þetta tók varaformaður flokksins síðast fram í Kastljósi RÚV í gær. Fólk sem kýs Samfylkinguna kýs Össur Skarphéðinsson og Margréti Frímannsdóttur til áhrifa. Sjálfstæðisflokkurinn mun heyja snarpa og kraftmikla kosningabaráttu og leggur verk sín í dóm kjósenda. Við sjálfstæðismenn hræðumst ekki þann dóm, enda nýtur flokkurinn og forystumenn hans mikils trausts meðal þjóðarinnar.