Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 janúar 2003

Skipting þingsæta í skoðanakönnun Gallups
Á gamlársdag birti RÚV skoðanakönnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna fyrir desember. Þar kom fram næstum sömu tölur og í nóvember og ljóst að innkoma ISG hafði lítið áhrif á fylgi síns flokks, enda hækkaði það aðeins um 0,1% milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn er í könnuninni með 26 þingmenn, Samfylkingin hefur 21 og VG og Framsókn 8 þingmenn. Frjálslyndir ná sem fyrr engum manni inn, tapa sínum tveim. Samkvæmt þessum tölum er Sjálfstæðisflokkurinn með 10 í Reykjavík (5 í hvoru kjördæmi), 5 í Suðvesturkjördæmi, 4 í Norðvesturkjördæmi, 3 í Norðausturkjördæmi og 4 í Suðurkjördæmi. Samfylkingin er með 8 í Reykjavík (4 í hvoru kjördæmi), 5 í Suðvesturkjördæmi, 3 í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og 2 í Suðurkjördæmi. Framsóknarflokkur er með 1 í Reykjavík, engan í Suðvesturkjördæmi, 2 í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og 3 í Suðurkjördæmi. VG er með 2 í Reykjavík (1 í hvoru kjördæmi), 1 í Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi, 2 í Norðausturkjördæmi og 1 í Suðurkjördæmi.

Sviptingar á þingi - þingmenn falla í könnuninni
Ef þessi könnun yrði úrslit komandi kosninga myndi Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, ná kjöri í Reykjavík, en Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra myndi falla af þingi. Einnig er ljóst að fleiri þingmenn falla skv. könnuninni. Meðal þeirra eru Jónína Bjartmarz, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Katrín Fjeldsted og Árni Steinar Jóhannsson. Þá myndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri, ekki ná kjöri úr fimmta sæti í Reykjavík norður og virðist þurfa pólitískt kraftaverk til að það náist. Þá myndi fjöldi ungs fólks ná inn á þing ef þessar tölur myndu ganga eftir. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Katrín Júlíusdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson eru samkvæmt þessu öll inni á þingi að loknum kosningum. Nú þegar ljóst er að ISG mun án pólitísks kraftaverks ekki ná kjöri er reynt að tryggja pólitíska framtíð hennar með því að einhverjir sem unnu sigur í prófkjöri flokksins í nóvember gefi eftir öruggt sæti til að hleypa henni að og koma í veg fyrir pólitískt sjálfsmorð borgarstjórans fráfarandi. Þegar liggur fyrir að Össur og Jóhanna gefa ekki eftir og því líklegast að ISG verði að leggja allt undir og standa og falla með úrslitunum.

Stefnan sett á fjóra í Norðausturkjördæmi
Samkvæmt þessari könnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn þrjá þingmenn í Norðausturkjördæmi en vantar herslumuninn á að tryggja fjórða manni kjör. Í baráttusætinu er Sigríður Ingvarsdóttir 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra, hörkukona með öflugar skoðanir og traust. Með hana í fjórða sætinu er tryggt að á þing nái kraftmikil ung forystukona. Flokkurinn og stuðningsmenn hans hér í þessu kjördæmi munu leggja allt sitt af mörkum í komandi baráttu til að tryggja að Sigríður nái kjöri. Það er nú ljóst að aðeins vantar á það herslumuninn. Í forystu flokksins hér eru forseti Alþingis, menntamálaráðherra og tvær öflugar þingkonur. Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins eru mörg í komandi kosningabaráttu í kjördæminu. Í alþingiskosningunum 1999 bætti flokkurinn við sig fylgi í gömlu kjördæmunum og hefur styrkst mjög á þessum slóðum seinustu árin. Með markvissri kosningabaráttu ætti sjálfstæðismönnum að takast ætlunarverk sitt; að tryggja Sigríði Ingvarsdóttur glæsilegt kjör á komandi vori. Mikilvægt er að allir leggi hönd á plóginn og tryggi að flokkurinn nái settu marki. Með samhentu átaki mun 10. maí 2003 verða sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins. Spennandi kosningabarátta er framundan.