Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 desember 2002

Góð jól
Seinustu dagana hefur ég haft það gott og borðað góðan mat og lesið þær bækur sem ég fékk í jólagjöf. Veðrið hefur verið mjög milt og gott og mikil friðsæld og gott að fara á milli og hitta ættingja og vini. Framundan eru áramótin og bendir flest til þess að áfram verði veðrið gott um áramótin og góð skilyrði verði til að skjóta flugeldum. Hef um jólin lesið Ísland í aldanna rás, Tilhugalíf, Stolið frá höfundi stafrófsins, Lovestar og ævisögu Stephans G, frábærar bækur.

Ómerkileg umræða á Innherjavefnum
Undanfarin þrjú ár hef ég tekið þátt í stjórnmálaspjallinu á Innherjavef visir.is og komið þar fram með skoðanir mínar á stjórnmálum og þjóðmálum almennt. Það er margt blaðrað um á Innherjavefnum og nóg af fólki þar sem nýtur nafnleyndarinnar í botn og reynir að höggva mann og annan með óábyrgu þvaðri og oft á tíðum ótrúlegu skítkasti. Innherjum er fátt heilagt og oft á tíðum verður þetta mjög ómerkilegt. Ég hef frá upphafi skrifað undir nafni þarna, fyrst sem stebbif og svo stebbifr, en sagði fyrst frá fullu nafni mínu í sumar. Ég vil ekki taka þátt í óábyrgu þvaðri og vil standa við allt sem ég segi og hika ekki við að koma fram í eigin persónu, taldi það réttast að standa við allt sem ég segi. Ég fæ oft skömm í hattinn fyrir að vera trúr flokknum og forystumönnum hans og finn að skoðanir mínar og skrif stinga marga, en ég finn æ oftar fyrir því að það er öfund í minn garð vegna stjórnmálaþátttöku minnar og því að ég er opinber persóna þarna, margir sem notfæra sér það til að traðka á persónu minni. Það snertir mig þó ekkert, enda nauðsynlegt að vera með harðan skráp og taka ekki mark á óábyrgum nöldrurum sem geta ekki einu sinnt haft stjórn á skapi sínu eða geði. Umræða seinustu daga er þó á þann hátt að ávallt þarf að draga persónu mína inn í spjallið og reynt að niðurlægja mig með allskonar þvaðri, oft er þetta óhemju leiðinlegt og ómerkilegt. Mér dettur ekki í hug að hætta skrifum þarna þrátt fyrir allt skítkastið.