Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 janúar 2003

Repúblikanar taka völdin í öldungadeildinni
Repúblikanar hafa nú tekið formlega við völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings af demókrötum eftir kosningasigur þeirra 5. nóvember sl. Það hafði ekki gerst frá 1934 að flokkur forseta Bandaríkjanna bætti við sig fylgi og þingsætum í báðum þingdeildum. Sigur Repúblikana í nóvember var því vissulega sögulegur. Það hefur ekki gerst í 50 ár að Repúblikanar séu við völd á sama tíma í Hvíta húsinu, fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, ef undan eru skildir nokkrir mánuðir árið 2001, en flokkurinn missti meirihlutann í öldungadeildinni í júnímánuði 2001, þegar James Jeffords sagði sig úr Repúblikanaflokknum og varð óháður þingmaður og greiddi atkvæði með demókrötum. Eftir forsetakosningarnar 2000 var valdahlutfallið á þann hátt að báðir flokkar höfðu 50 þingmenn í öldungadeildinni, en Cheney varaforseti, hafði oddaatkvæðið. Við brotthvarf Jeffords úr Repúblikanaflokknum tóku demókratar við völdum í deildinni. Repúblikanar hafa hinsvegar haft meirihluta í fulltrúadeildinni frá 1994. Við þessar valdabreytingar verður Bill Frist leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni. Hann var kjörinn leiðtogi Repúblikana í desember í kjölfar þess að Trent Lott forveri hans, sagði af sér eftir að hafa látið umdeild ummæli falla í afmælisveislu Strom Thurmond, sem mátti skilja á þann veg að hann styddi aðskilnað svartra og hvíta í Bandaríkjunum. George W. Bush mun nú horfa fram á veginn og koma stefnumálum sínum í framkvæmd, eftir sigur flokksins í þingkosningum, til þess hefur hann nú öflugan stuðning. Hann er þegar farinn að undirbúa kosningaslaginn 2004, eins og marka mátti af því að hann lét fjármálaráðherrann og efnahagsráðgjafa sína fjúka fyrir skemmstu og valdi nýja menn í sinn innsta hring til að móta efnahagsstefnuna á komandi árum. Sigur Repúblikana í nóvember staðfestir sterka stöðu forsetans og fylgismanna hans í bandarískum stjórnmálum. Forsetakosningar eiga að fara fram í Bandaríkjunum 2. nóvember 2004. Athyglisvert verður að fylgjast með bandarískum stjórnmálum fram að því. En eftir stendur Bush með pálmann í höndunum. Á því leikur enginn vafi.

Áhugaverður þáttur um karlakórinn Geysi
Horfði í kvöld á þátt Egils Eðvarðssonar og Sigríðar Guðlaugsdóttur um tónleikaferð Karlakórsins Geysis á Akureyri til Norðurlanda fyrir hálfri öld, sumarið 1952. Í þættinum var talað við gamla kórfélaga og sýndar myndir sem Eðvarð Sigurgeirsson, faðir Egils, tók í ferðinni. Var þessi þáttur virkilega áhugaverður. Langafi minn, Stefán Jónasson skipstjóri, útgerðarmaður og bæjarfulltrúi á Akureyri var í kórnum í áratugi og fór ásamt ömmu, Gíslínu Friðriksdóttur í ferðina og sáust þau oft í myndum Eðvarðs sem sýndar voru í þættinum. Stebbi afi sem lést í janúar 1982, þá aldargamall, segir frá ferðinni í bók Erlings Davíðssonar, Aldnir hafa orðið, sem kom út árið 1973. Þar eru margar skemmtilegar frásagnir um ferðina og greinilegt að hún hefur verið honum mjög eftirminnileg, þó hann hafi vissulega farið til útlanda fyrir 1952. Margir sem fóru í kórferðina höfðu aldrei farið út fyrir landsteinana og því augljóst að þarna hefur verið um að ræða mikil upplifelsi. Margt myndefni er til frá löngum ferli Eðvarðs Sigurgeirssonar sem kvikmyndatökumanns, gott dæmi er mynd um björgun áhafnar flugvélarinnar Geysis árið 1950 og ýmsar mannlífsmyndir úr Eyjafirði, einkum frá Akureyri. Það er hlutverk nútímamanna á Akureyri og víðar að hlúa að þessum fjársjóði sem Eðvarð skildi eftir sig og Egill sonur hans á hrós skilið fyrir að hafa bjargað mörgum perlum úr safni föður síns. Sérstaklega er mikilvægt að Akureyrarbær taki sig til og búi þessum myndum þann sess sem þær eiga skilið og varðveiti þær sérstaklega. Það er mikilvægt að þessar lifandi myndir úr sögu Akureyrar verði varðveittar á viðunandi máta og fái sinn réttmæta sess.