Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 nóvember 2003

Bush forseti í BagdadHeitast í umræðunni
Þakkargjörðadagurinn var í Bandaríkjunum í gær. Tilkynnt hafði verið að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, myndi dvelja á búgarði sínum í Texas í gær og yfir helgina. Óvænt hélt hann í gærmorgun áleiðis til Íraks. Dvaldi forsetinn í rúmlega 2 klukkustundir á flugvellinum í Bagdad og snæddi kvöldmat með bandarískum hermönnum sem þar eru. Þetta er í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna heimsækir Írak, tilgangur heimsóknarinnar var að efla baráttuanda bandarískra hermanna. Skv. fréttum vissu aðeins fáir aðstoðarmenn Bush að þessi ferð væri á dagskrá. Blaðamenn sem meðferðis þurftu að skrifa undir samkomulag þess efnis að segja ekki frá henni fyrr en forsetinn væri farinn frá Írak. Forsetafrúin Laura, og foreldrar forsetans, Barbara og George Bush, eldri vissu ekki af för hans til Íraks fyrr en í gærmorgun. Bush var klæddur herjakka þegar hann birtist í herskálanum. Eftir að hafa verið hylltur af hermönnunum ávarpaði hann þá. Hann fór í röðina með hermönnum til að sækja sér mat og lét taka af sér mynd með kalkún á diski en kalkúnn er hefðbundinn þakkargjörðarréttur í Bandaríkjunum. Þetta var söguleg heimsókn, vissulega í anda heimsóknar George Bush eldri til hermanna í Saudi Arabíu á þakkargjörðardaginn 1990, skömmu fyrir upphaf Persaflóastríðsins.

AlþingiHart var tekist á í umræðum á Alþingi í gær um ofurlaun stjórnenda fyrirtækja. Jóhanna Sigurðardóttir fór fram á þessa umræðu utan dagskrár og talaði í ræðu sinni meðal annars um neðanjarðalaunakerfi stjórnenda fyrirtækja þar sem geðþóttaákvarðanir og græðgi réðu för. Sagði hún í ræðu sinni við upphaf umræðunnar að kaupréttarsamningsmálið í heild sinni sýndi alvarlegar gloppur í löggjöf um verðbréfamarkaðinn og alvarlega siðferðisbresti. Hart var sótt að viðskiptaráðherra í þessari umræðu og reyndar af fleirum en Jóhönnu. Kom Steingrímur J. Sigfússon flutti eldmessu yfir þessum vinnubrögðum og fordæmdi að ekki væru lög í þessum efnum og fór mikinn og las t.d. upp úr Lúkasarguðspjalli. Ennfremur kom Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður VG, í pontu og réðist að ráðherranum harkalega. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, svaraði fyrir sig með krafti. Sagðist hún telja að umræðan í kjölfar kaupréttarsamningsins væri til góða fyrir þjóðfélagið. Sagði hún að markaðurinn ætti ekki að vera tómarúm án alls samhengis við það samfélag sem skóp hann. Fyrirtæki á markaði bæri í raun ekki aðeins ábyrgð gagnvart fjárfestum heldur einnig gagnvart samfélaginu. Valgerður sagðist telja óhjákvæmilegt að löggjafinn taki þetta mál upp og slík vinna sé þegar hafin í viðskiptaráðuneytinu. Hún væri þó ekki hlynnt því að banna kaupréttarsamninga, tók hún þar undir með Pétri Blöndal. Var gaman að fylgjast með umræðunum, enda hart tekist á.

Michael HowardNý skoðanakönnun dagblaðsins Daily Telegraph á fylgi bresku stjórnmálaflokkanna sýnir Íhaldsflokkurinn mælast ívið stærri en Verkamannaflokkinn. Fylgisaukning íhaldsmanna er að mestu leyti á kostnað Frjálslyndra demókrata. Þessi könnun telst vera mikill sigur fyrir Michael Howard leiðtoga flokksins. Hann tók við stjórn flokksins, 6. nóvember sl. eftir að Iain Duncan Smith hafði verið ýtt til hliðar með vantraustskosningu. Í könnunni hefur Íhaldsflokkurinn 38% fylgi, hefur bætt sig um rúm 4%. Verkamannaflokkurinn hefur 36% og frjálslyndir demókratar 19%. Frá því Howard tók við leiðtogastarfinu hefur flokkurinn vaxið mjög. Telja flestir það vera vegna skörulegrar framgöngu hans en hann hefur óhikað ráðist og það af krafti að ríkisstjórn Blairs forsætisráðherra. Þótti hann tjá sig af krafti um stefnuræðu ríkisstjórnarinnar í vikunni.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Alltaf er mikið um að vera á frelsinu, skemmtilegir pistlar og fróðlegar fréttir. Í gær birtist þar góður pistill Helgu um málefni opinberra starfsmanna, sem var gaman að lesa. Segir hún að opinberir starfsmenn sem standi sig illa í vinnunni séu ekki reknir. Þrátt fyrir að þeir sýni af sér óstundvísi, óhlýðni við lög eða yfirmann, vankunnáttu í starfi, ósæmilega hegðun eða jafnvel mæta ölvaðir til vinnu. Ekki nema þá að yfirmaðurinn gangi í gegnum langt ferli og óþarfa skriffinsku. Segir hún að til að byrja með beri yfirmanni skylda til að reyna tala við starfsmanninn fyrst og reyna fá hann til að bæta um betur. Verði því ekki komið við skuli yfirmaðurinn senda skriflega áminningu. Eftir það eigi hinn opinberi starfsmaður lögbundinn rétt á að fá tækifæri til að bæta ráð sitt. Skemmtilegt ferli sem þarna kemur fram, tek undir með Helgu að þetta fyrirkomulag er stórundarlegt. Í dag birtist svo fínn pistill Steina þar sem hann fjallar um fiskveiðistjórnunarkerfið. Telur hann nauðsynlegt að gera bragarbót á lögum um fiskveiðistjórnun og fer vel yfir málið í pistlinum.

Fjalar og Inga LindDægurmálaspjallið
Mikið hefur verið af fréttaefni til að ræða um í dægurmálaspjallþáttum seinustu daga. Á miðvikudagskvöld ræddu Siggi Kári og Mörður Árnason um málefni RÚV og voru ekki alveg sammála um frumvarp þriggja sjálfstæðismanna um stofnunina sem nú liggur fyrir þinginu. Seinna sama kvöld var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gestur í Pressukvöldi RÚV. Þar var rætt um undarlega stöðu hennar sem varaformanns flokks sem hefur lýst yfir formannsframboði eftir tvö ár og ennfremur sem varaþingmanns í Reykjavík norður, en eins og allir vita náði hún ekki kjöri á þing í vor. Í gærkvöldi komu Pétur Blöndal og Jóhanna í Ísland í dag til að ræða umræðu dagsins á þinginu um laun stjórnenda fyrirtækja og ekki sammála í því máli eins og við mátti búast. Sýnt var frá hlægilegri ræðu landbúnaðarráðherra er hann tók við fyrsta eintaki Hundabókarinnar. Í morgun var Eiríkur Jónsson blaðamaður á DV, gestur Fjalars og Ingu Lindar í Íslandi í bítið. Farið var yfir fréttir vikunnar og barst talið að málum RÚV. Sagði hann að RÚV yrði ekki til í þessari mynd eftir 5-7 ár. Þetta er búið sagði hann um RÚV. Alltaf gott að eignast nýja bandamenn í baráttunni gegn ríkisfjölmiðlinum.

Some Like It HotKvikmyndir - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á hina ógleymanlegu kvikmynd Billy Wilder, Some Like It Hot. Það var árið 1959 sem Wilder og handritshöfundurinn I.A.L Diamond gerðu handritið að þessari mögnuðu mynd, sem telst ein eftirminnilegasta gamanmynd 20. aldarinnar. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem fyrr í hlutverki Sugar Kane í myndinni. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, hiklaust eitt af allra bestu verkum Billy Wilders. Eftir myndina hélt ég áfram að lesa um Jónas frá Hriflu, er langt kominn með annað bindið af þrem um þennan einn af eftirminnilegustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar. Mögnuð bók eftir Guðjón Friðriksson.

SUSHuginn 30 ára
Í dag fagnar Huginn, félag ungra sjálfstæðismanna, í Garðabæ 30 ára afmæli sínu. Milli kl. 18.00 og 20.00 mun félagið bjóða velunnurum sínum til fagnaðar í húsi Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ að Garðatorgi 7. Því miður kemst ég ekki í afmælið. Vil ég senda öllum félögum mínum í félaginu bestu kveðjur og hamingjuóskir með þessi merku tímamót. Vona ég að félaginu gangi vel á komandi árum.

Vefur dagsins
Á hverjum degi lít ég á vef Steingríms Ólafssonar, Fréttir. Þar er hann með nýjustu fréttirnar af gangi mála í pólitík og fjölmiðlum t.d. og þær kjaftasögur sem ganga og erindi eiga á netið. Góður vefur.

Snjallyrði dagsins
Enginn er annars bróðir í leik.
Máltæki