Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 febrúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, færði að því rök í fréttaskýringaþættinum Í brennidepli, í gærkvöld, að hann fari jafnvel í dómsmálaráðuneytið í haust. Davíð sagðist í þættinum ekki vera búinn að ákveða hvað hann taki sér fyrir hendur í haust, hvort hann hætti í stjórnmálum eða ekki, en ráða mátti af svari hans að ólíklegt sé að hann sé á förum úr íslenskri pólitík. Kom fram að Davíð þætti spursmál hvort að formaður flokks vilji vera heima en ekki í utanríkisráðuneyti, þar sem menn þurfa að vera mjög mikið burtu. Hinsvegar er hefð fyrir því að flokksformenn þess flokks sem ekki hefur forsætisráðuneytið, séu utanríkisráðherrar. Það hafa þeir verið síðustu 16 ár. Halldór Ásgrímsson hefur verið formaður Framsóknarflokksins í 10 ár í vor, og utanríkisráðherra næstum allan þann tíma eða frá apríl 1995. Þar á undan var Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í tveimur ríkisstjórnum, jafnframt því að vera formaður Alþýðuflokksins, hann var utanríkisráðherra 1988-1995. Ljóst er að sárindi eru framundan innan Framsóknarflokksins, enda þarf þar að taka einn ráðherra út til að rýma fyrir að Halldór verði forsætisráðherra. Stefna allir ráðherrar flokksins á að halda áfram. Var velt upp mörgum möguleikum um hver færi þar út og ljóst að stefnir í gríðarleg átök milli ráðherra um stöðu þeirra innan stjórnarinnar.

Í brennidepliÓhætt er að segja að fréttaskýringarþátturinn hafi verið vandaður og vel farið yfir uppstokkunina sem verður í stjórninni í haust. Rætt var við alla núverandi ráðherra og nokkra stjórnmálaáhugamenn. Ljóst er að verði Davíð dómsmálaráðherra í haust, mun hann fá meiri tíma til að efla flokkinn og innra starf hans. Þá liggur ennfremur beinast við að Björn Bjarnason fari í utanríkisráðuneytið. Er enginn vafi á að hann er hæfastur allra í þingflokki Sjálfstæðisflokksins til að taka við því ráðuneyti, ef Davíð tekur annað ráðuneyti. Tel ég ekkert fararsnið vera á Davíð og fagna ég því, enda tel ég að hans hlutverki sé langt í frá lokið og mikilvægt að hann leiði flokkinn til sigurs í næstu þingkosningum og þá taki flokkurinn að nýju við forystu í ríkisstjórninni. Í þættinum var Hannes Hólmsteinn Gissurarson spurður um framtíðarforystumenn flokksins og nefndi hann þar þrjú nöfn, Ásdísi Höllu Bragadóttur, Gísla Martein Baldursson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hægt væri að nefna marga fleiri, en ljóst er að þessi þrjú eiga eftir að vera í forystusveit flokksins er fram líða stundir. Óháð því hvað Davíð gerir er vandinn í þessari uppstokkun ekki okkar megin, heldur í Framsóknarflokknum þar sem verður raunverulegur slagur milli fólks.

Tony BlairTony Blair forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í viðtali við blaðið News Of The World, um helgina að hann hefði í hyggju að sitja sitt þriðja kjörtímabil sem forsætisráðherra. Hefur hann því ekki í hyggju að draga sig í hlé, eins og ýjað hafði verið að. Undanfarnar vikur hafði sá orðrómur orðið æ háværari að hann hygðist láta af embætti í kringum fimmtugsafmæli Cherie eiginkonu sinnar, í haust. Blair ætlar sér að gefa kost á sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins á næsta flokksþingi og segist vera rétt að byrja undirbúning fyrir næstu þingkosningar. Þær eiga að fara fram í síðasta lagi í maí 2006, en þá lýkur fimm ára kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Það hefur gustað allverulega um Blair seinustu vikur og mánuði. Hutton-skýrslan, Íraksstríðið og skólagjöld í háskólum hafa verið meðal mála sem ágreiningur hefur verið um. Staða íhaldsmanna hefur aldrei verið sterkari en nú í valdatíð forsætisráðherrans, og því ljóst að hann á við ramman reip að draga.

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill Snorra um óræðar lýðræðishugmyndir. Orðrétt segir í pistlinum: "Það felst í lýðræðinu að fólkið ráði. Kosningar eru ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að valdhafarnir geri mistök. Þegar þeir gera mistök má skipta. Það var ekki hugmynd þeirra sem börðust fyrir lýðræði að ríkið yrði allsráðandi og að kosningum væri ætlað að velja þá sem stjórnuðu daglegu lífi fólks. Það er í reynd ríkisræði." og ennfremur: "Raunverulegt lýðræði felur auðvitað í sér að fólkið ráði. Það er hið eina sanna lýðræði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um rétt fólks til að haga sínu lífi svo sem það kýs. samfylkingin hefur engann áhuga á því, í þeirra huga er kemst bara eitt að: ríkisræði." Ennfremur er á frelsinu ítarleg umfjöllun um málfund Heimdallar í Háskólanum í Reykjavík, sl. fimmtudagskvöld. Í umfjölluninni er farið vel yfir erindi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Jónasar H. Haralz, um frjálshyggju. Fundurinn var haldinn eins og flestir vita í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá útgáfu bókarinnar Uppreisn Frjálshyggjunnar, sem gefin var út af Kjartani Gunnarssyni.

Egill HelgasonDægurmálaspjallið
Margt athyglisvert var hjá Agli í Silfrinu í gærkvöldi. Fyrst var rætt við Ásgeir Jónsson hagfræðing, um stöðu viðskiptamála og efnahagslífsins almennt, því næst um bandarísku forsetakosningarnar en slagurinn þar er verulega að harðna og að síðustu við Hannes Hólmstein Gissurarson og Jón Steinar Gunnlaugsson um frjálshyggju. Spjallið við Hannes og Jón var virkilega skemmtilegt og víða farið yfir og rætt um stjórnmál nútímans og áhrif frjálshyggju á stjórnmál hérlendis seinustu árin, einkum til góðs. Við blasir að gríðarlegar breytingar hafa orðið seinustu 13 árin í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, til betri vegar og fóru þeir yfir það. Einkum fannst mér Jón Steinar útskýra vel hver framtíð frjálshyggju er, en við blasir að hún er björt og sífellt fleiri líta í þá átt að frelsi sé hverjum einstakling mikilvægast. Það á ekki að sætta sig við neitt annað. Í Kastljósinu ræddi Svansí við Ástþór Magnússon forsetaframbjóðanda, og stóð sig vel í að krefja hann svara um framboð sitt og ýmis helstu mál því tengt. Gott spjall þar og gengið hreint til verks eftir svörum. Eftir Kastljósið horfði á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli, þar sem fjallað var um hrókeringar í ríkisstjórninni, áhrif rafsegulsviðs á fólk og dósasöfnun í samfélaginu. Virkilega athyglisverður og vel gerður þáttur.

Cold MountainKvikmyndir
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina fórum við í bíó. Litum á nýjustu kvikmynd óskarsverðlaunaleikstjórans Anthony Minghella, Cold Mountain. Myndin sem tilnefnd er til alls sjö óskarsverðlauna, byggir á samnefndri skáldsögu bandaríska rithöfundarins Charles Frazier. Segir frá suðurríkjamanninum Inman sem ákveður að berjast í her suðurríkjamanna í þrælastríðinu. Heima í þorpinu Cold Mountain skilur hann eftir kærustu sína, Ödu Monroe. Kynni þeirra hafa verið einkar stutt en tilfinningar krauma innra með þeim. Þegar líður á stríðið og Inman hefur áttað sig á tilgangsleysi þess og þeirri villimennsku sem á sér stað í því leggur hann í langferð að finna sína heittelskuðu. Áferðarfalleg og einkar áhrifamikil úrvalsmynd, sem við höfðum gaman að. Jude Law og Nicole Kidman standa sig vel í hlutverkum elskendanna. Senuþjófurinn er þó hiklaust Renée Zellweger sem á stórleik í hlutverki hinnar ákveðnu Ruby. Er lítill vafi á að hún fær óskarinn fyrir leik sinn. Heilsteypt og góð kvikmynd, sem ætti að hæfa flestu kvikmyndaáhugafólki vel.

Dagurinn í dag
* 1927 Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson lést - hann samdi þjóðsöng Íslendinga
* 1940 Pinocchio, fyrsta teiknimynd Walt Disney, frumsýnd í Bandaríkjunum
* 1966 Aldo Moro myndar sína fyrstu ríkisstjórn á Ítalíu - hann var myrtur 1978
* 1981 Uppreisn gerð á Spáni - valdarán uppreisnaraflanna stóð ekki nema í 22 klukkustundir
* 1987 Konur í fyrsta skipti aðalfulltrúar á Búnaðarþingi - tvær konur sátu þá þingið

Snjallyrði dagsins
Good health is the most important thing. More than success, more than money, more than power.
Hyman Roth í The Godfather: Part II