Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 febrúar 2004

SUSHeitast í umræðunni
Í gær var 75 ára afmæli Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fagnað formlega með málþingi í Kaupangi um búsetu og atvinnu á landsbyggðinni. Það kom í kjölfar kraftmikillar vinnuviku þar sem stefna félagsins í atvinnumálum var kynnt. Framsögumenn á málþinginu voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og fyrrum formaður Varðar og Sambands ungra sjálfstæðismanna, Hafsteinn Þór Hauksson formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Hilmar Ágústsson hjá viðskiptaþróun Brims. Voru erindi þeirra gagnleg og ekki síður fróðleg og skemmtileg. Í lok málþingsins var Halldór Blöndal forseti Alþingis, gerður að heiðursfélaga í Verði. Þá nafnbót á hann skilið. Hann var formaður Varðar 1964-1965, varð alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979 og leiðtogi flokksins í kjördæminu er Lárus Jónsson hætti afskiptum af stjórnmálum 1984. Hann var samgönguráðherra 1991-1999 og landbúnaðarráðherra 1991-1995 og hefur verið forseti Alþingis frá 1999. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli sínum á heimasíðunni fjallar Björn um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og sjálfhverfa blaðamennsku. Orðrétt segir Björn: "Ég sat um tíma í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og hreyfði því þá oftar en einu sinni opinberlega, meira að segja í ræðu á alþingi, að mér þætti fáheyrt, hvernig komið væri fram við stjórnarmenn, þegar þeir óskuðu eftir upplýsingum um fyrirtækið á vettvangi stjórnar. Í því efni nægir að vitna til bókana í stjórninni, sem lagðar voru fram af mér. Allt andrúmsloftið í stjórn fyrirtækisins er því miður þannig, að það laðar ekki menn til samstarfs eða sameiginlegra úrræða um málefni fyrirtækisins. Hver veit til dæmis, hvað hinar umdeildu höfuðstöðvar OR kosta? Hvers vegna er ekki unnt að leggja fram yfirlit yfir kostnaðinn? Af hverju er alltaf hörfað í skotgrafir, þegar á þessi útgjöld OR er minnst? Sjónarspilið í kringum hugsanlega sölu OR á Perlunni, jók ekki álit neins á þeim, sem að því stóðu. Rökstuðningurinn fyrir tveimur gjaldskrárhækkunum á heitu vatni síðastliðið sumar, það er vísan til góðrar veðráttu, varð ekki til að auka álit almennings á fyrirtækinu."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um málefni sveitarfélaga í Eyjafirði og velti fyrir mér sameiningarhugmyndum sem verið hafa í umræðunni um sameiningu allra sveitarfélaga í firðinum og bæjarstjórinn á Akureyri fjallaði um í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu. Það eitt skiptir okkur hér máli að styrkja Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið og gera það ákjósanlegt að búa hér og efla svæðið sem sterka heild. Enginn vafi er á því í mínum huga að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Það er mikilvægt, mjög svo. Ennfremur fjalla ég um tvö merkisafmæli, sem snerta mig, hvor á sinn hátt: 75 ára afmæli Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sem haldið var upp á í gær með málþingi og afmælisveislu í gærkvöldi og ennfremur 5 ára afmæli frelsi.is, vefrits Heimdallar, en ég hef skrifað á vefinn frá 2002 og er í ritnefnd hans.

Sir Alfred HitchcockHitchcock helgi hjá RÚV
Um helgina, föstudaginn 13. og laugardaginn 14. febrúar, var Ríkissjónvarpið með þemahelgi til heiðurs leikstjóranum Sir Alfred Hitchcock. Þær fimm myndir sem voru sýndar um helgina voru: Psycho, The Birds, Frenzy, Marnie og Topaz. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi kvikmynda Hitchcocks og fagna því mjög þessari bíóveislu, meira mætti gera af því að sýna myndir hans. Ferill Hitchcocks er einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar. Meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann tæplega 70 kvikmyndum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á kvikmyndagerð og sögu kvikmynda. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

Dagurinn í dag
* 1917 Kristín Ólafsdóttir lauk læknaprófi fyrst íslenskra kvenna
* 1923 Ingibjörg H. Bjarnason tók sæti á Alþingi fyrst kvenna, sat á þingi í 8 ár
* 1939 Leikrit Lillian Hellman, Little Foxes frumsýnd á Broadway - síðar kvikmyndað
* 1944 Casablanca frumsýnd í Tjarnarbíói - ein frægasta kvikmynd 20. aldarinnar
* 1956 Urho Kekkonen kjörinn forseti Finnlands - var forseti til 1981

Snjallyrði dagsins
Louis, I think this is the beginning of a beautiful friendship.
Rick Blaine í Casablanca